Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
23 Þá sendi konungur út menn til þess að safna til sín öllum öldungum í Júda og Jerúsalem.
2 Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn, bæði ungir og gamlir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins.
3 Og konungur gekk að súlunni og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta og af allri sálu til þess að fullnægja þannig orðum sáttmála þessa, þau er rituð voru í þessari bók. Og allur lýðurinn gekkst undir sáttmálann.
4 Síðan bauð konungur Hilkía æðsta presti og óæðri prestunum og dyravörðunum að taka burt úr aðalhúsi musteris Drottins öll áhöld, þau er gjörð höfðu verið handa Baal og Aséru og öllum himinsins her. Og hann lét brenna þau fyrir utan Jerúsalem á Kídronvöllum, og askan af þeim var flutt til Betel.
5 Hann rak og burt skurðgoðaprestana, er Júdakonungar höfðu skipað og fært höfðu reykelsisfórnir á fórnarhæðunum í borgum Júda og í grenndinni við Jerúsalem, svo og þá er fært höfðu Baal fórnir og sólinni, tunglinu, stjörnumerkjunum og öllum himinsins her.
6 Hann lét flytja aséruna burt úr musteri Drottins, út fyrir Jerúsalem, og brenndi hana í Kídrondal, muldi hana mjölinu smærra og stráði duftinu á grafir múgamanna.
7 Þá braut hann og niður hús þeirra manna, er helgað höfðu sig saurlifnaði, þau er voru við musteri Drottins, þar sem konur ófu hjúpa á aséruna.
8 Hann lét alla presta koma frá borgunum í Júda og afhelgaði fórnarhæðirnar, þar sem prestarnir höfðu fórnað, frá Geba til Beerseba. Hann braut og niður hæðir hafurlíkneskjanna, sem stóðu úti fyrir hliði Jósúa borgarstjóra, en það er á vinstri hönd, þá er inn er gengið um borgarhliðið.
9 Þó máttu hæðaprestarnir eigi ganga upp að altari Drottins í Jerúsalem, heldur átu þeir ósýrð brauð meðal bræðra sinna.
10 Hann afhelgaði brennslugrófina í Hinnomssonardal, til þess að enginn léti framar son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn Mólok til handa.
11 Hann tók og burt hesta þá, sem Júdakonungar höfðu sett til vegsemdar sólinni við innganginn að musteri Drottins, nálægt herbergi Netan Meleks hirðmanns, sem var í forgarðinum. En vagna sólarinnar brenndi hann í eldi.
12 Og ölturun, sem voru á þakinu yfir veggsvölum Akasar, er Júdakonungar höfðu reist, og ölturun, er Manasse hafði reist í báðum forgörðum musteris Drottins, reif konungur niður, og hann skundaði þaðan og kastaði öskunni af þeim í Kídrondal.
13 Konungur afhelgaði og fórnarhæðirnar, sem voru fyrir austan Jerúsalem, sunnanvert við Skaðræðisfjall, og Salómon Ísraelskonungur hafði reist Astarte, viðurstyggð Sídoninga, og Kamos, viðurstyggð Móabíta, og Milkóm, svívirðing Ammóníta.
14 Hann braut og sundur merkissteinana og hjó sundur asérurnar og fyllti staðinn, þar sem þær höfðu verið, með mannabeinum.
31 Sá sem kemur að ofan, er yfir öllum. Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar af jörðu. Sá sem kemur af himni, er yfir öllum
32 og vitnar um það, sem hann hefur séð og heyrt, og enginn tekur á móti vitnisburði hans.
33 En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans, hefur staðfest, að Guð sé sannorður.
34 Sá sem Guð sendi, talar Guðs orð, því ómælt gefur Guð andann.
35 Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum.
36 Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum."
by Icelandic Bible Society