Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
2 Hanna gjörði bæn sína og mælti: Hjarta mitt fagnar í Drottni, horn mitt er hátt upp hafið fyrir fulltingi Guðs míns. Munnur minn er upp lokinn gegn óvinum mínum, því að ég gleðst yfir þinni hjálp.
2 Enginn er heilagur sem Drottinn, því að enginn er til nema þú, ekkert bjarg er til sem vor Guð.
3 Mælið eigi án afláts drambyrði, ósvífni komi eigi út af munni yðar. Því að Drottinn er Guð, sem allt veit, og af honum eru verkin vegin.
4 Bogi kappanna er sundur brotinn, en máttfarnir menn gyrðast styrkleika.
5 Mettir leigja sig fyrir brauð, en hungraðir njóta hvíldar. Óbyrjan fæðir jafnvel sjö, en margra barna móðirin mornar og þornar.
6 Drottinn deyðir og lífgar, færir til Heljar niður og leiðir upp þaðan.
7 Drottinn gjörir fátækan og ríkan, niðurlægir og upphefur.
8 Hann reisir hinn lítilmótlega úr duftinu, lyftir hinum snauða upp úr skarninu, leiðir þá til sætis hjá þjóðhöfðingjum og setur þá á tignarstól. Því að Drottni heyra stólpar jarðarinnar, á þá setti hann jarðríkið.
9 Fætur sinna guðhræddu varðveitir hann, en hinir guðlausu farast í myrkri, því að fyrir eigin mátt sigrar enginn.
10 Þeir sem berjast móti Drottni, verða sundur molaðir, hann lætur þrumur af himni koma yfir þá. Drottinn dæmir endimörk jarðarinnar. Hann veitir kraft konungi sínum og lyftir upp horni síns smurða.
21 Elkana fór nú með alla fjölskyldu sína til þess að færa Drottni hina árlegu fórn og áheit sitt.
22 En Hanna fór ekki, heldur sagði við mann sinn: "Ég fer ekki fyrr en sveinninn er vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann, svo að hann birtist fyrir augliti Drottins og verði þar ávallt upp frá því."
23 Elkana, maður hennar, sagði við hana: "Gjör þú sem þér vel líkar. Ver þú kyrr heima, uns þú hefir vanið hann af brjósti. Drottinn láti aðeins orð þín rætast." Síðan var konan kyrr heima og hafði son sinn á brjósti, uns hún vandi hann af.
24 En er hún hafði vanið hann af brjósti, fór hún með hann og hafði með sér þriggja ára gamalt naut og eina efu mjöls og legil víns. Og hún fór með hann í hús Drottins í Síló. En sveinninn var þá ungur.
25 Þau slátruðu nautinu og fóru með sveininn til Elí.
26 Og hún sagði: "Heyr, herra minn! Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn, er ég kona sú, er stóð hér hjá þér til þess að gjöra bæn mína til Drottins.
27 Um svein þennan gjörði ég bæn mína, og Drottinn veitti mér bæn mína, sem ég bað hann um.
28 Fyrir því vil ég og ljá Drottni hann. Svo lengi sem hann lifir, skal hann vera Drottni léður." Og þau féllu þar fram fyrir Drottin.
11 En þú, Guðs maður, forðast þú þetta, en stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.
12 Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.
13 Ég býð þér fyrir augliti Guðs, sem veitir öllu líf, og fyrir augliti Krists Jesú, er gjörði góðu játninguna frammi fyrir Pontíusi Pílatusi:
14 Gæt þú boðorðsins lýtalaust, óaðfinnanlega allt til endurkomu Drottins vors Jesú Krists,
15 sem hinn blessaði og eini alvaldur mun á sínum tíma birtast láta, konungur konunganna og Drottinn drottnanna.
16 Hann einn hefur ódauðleika, hann býr í ljósi, sem enginn fær til komist, hann sem enginn maður leit né litið getur. Honum sé heiður og eilífur máttur. Amen.
17 Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar.
18 Bjóð þeim að gjöra gott, vera ríkir af góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum,
19 með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.
20 Þú Tímóteus, varðveit það, sem þér er trúað fyrir, og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar,
by Icelandic Bible Society