Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 15

15 Davíðssálmur Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?

Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta,

sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til;

sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af,

sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum _ sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.

Fimmta bók Móse 24:17-25:4

17 Þú skalt ekki halla rétti útlends manns eða munaðarleysingja. Þú skalt ekki taka fatnað ekkjunnar að veði.

18 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig þaðan. Fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.

19 Þegar þú sker upp korn á akri þínum og gleymir kornbundini úti á akrinum, þá skalt þú ekki snúa aftur til að sækja það. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.

20 Þegar þú slær ávexti af olíutrjám þínum, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit í greinum trjánna. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það.

21 Þegar þú tínir víngarð þinn, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það.

22 Þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.

25 Þegar deila rís milli manna og þeir koma fyrir dóm, og dómur hefir upp kveðinn verið yfir þeim með þeim hætti, að hinn saklausi hefir verið sýknaður, en hinn seki dæmdur sekur,

og hinn seki hefir unnið til húðstroku, þá skal dómarinn láta leggja hann niður og láta slá hann í viðurvist sinni eins mörg högg og hæfir misgjörð hans.

Hann má láta slá hann fjörutíu högg, en ekki fleiri, til þess að bróðir þinn verði ekki fyrirlitlegur í augum þínum, ef haldið er áfram að slá hann enn mörg högg.

Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir.

Fyrra bréf Páls til Tímót 5:17-24

17 Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.

18 Því að ritningin segir: "Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir" og "verður er verkamaðurinn launa sinna."

19 Tak þú ekki við kæru gegn öldungi, nema tveir eða þrír vottar beri.

20 Ávíta brotlega í viðurvist allra, til þess að hinir megi hafa ótta.

21 Ég heiti á þig fyrir augliti Guðs og Krists Jesú og hinna útvöldu engla, að þú gætir þessa án nokkurs fordóms og gjörir ekkert af vilfylgi.

22 Eigi skalt þú fljótráðið leggja hendur yfir nokkurn mann. Tak eigi heldur þátt í annarra syndum, varðveit sjálfan þig hreinan.

23 Ver þú ekki lengur að drekka vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð.

24 Syndirnar hjá sumum mönnum eru í augum uppi og eru komnar á undan, þegar dæma skal. En hjá sumum koma þær líka á eftir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society