Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
42 Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt.
2 Hann kallar ekki og hefir ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum.
3 Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti.
4 Hann daprast eigi og gefst eigi upp, uns hann fær komið inn rétti á jörðu, og fjarlægar landsálfur bíða eftir boðskap hans.
5 Svo segir Drottinn Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga:
6 Ég, Drottinn, hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar
7 til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.
8 Ég er Drottinn, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.
9 Sjá, hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.
29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.
3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.
5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.
7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!
10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
34 Þá tók Pétur til máls og sagði: "Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit.
35 Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.
36 Orðið, sem hann sendi börnum Ísraels, þá er hann flutti fagnaðarboðin um frið fyrir Jesú Krist, sem er Drottinn allra, þekkið þér.
37 Þér vitið, hvað gjörst hefur um alla Júdeu, en hófst í Galíleu eftir skírnina, sem Jóhannes prédikaði.
38 Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum.
39 Vér erum vottar alls þess, er hann gjörði, bæði í landi Gyðinga og í Jerúsalem. Og hann hengdu þeir upp á tré og tóku af lífi.
40 En Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast,
41 ekki öllum lýðnum, heldur þeim vottum, sem Guð hafði áður kjörið, oss, sem átum og drukkum með honum, eftir að hann var risinn upp frá dauðum.
42 Og hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað.
43 Honum bera allir spámennirnir vitni, að sérhver, sem á hann trúir, fái fyrir hans nafn fyrirgefningu syndanna."
13 Þá kemur Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum.
14 Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: "Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!"
15 Jesús svaraði honum: "Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti." Og hann lét það eftir honum.
16 En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig.
17 Og rödd kom af himnum: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á."
by Icelandic Bible Society