Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
10 Jakob lagði af stað frá Beerseba og hélt á leið til Harran.
11 Og hann kom á stað nokkurn og var þar um nóttina, því að sól var runnin. Og hann tók einn af steinum þeim, er þar voru, og lagði undir höfuð sér, lagðist því næst til svefns á þessum stað.
12 Þá dreymdi hann. Honum þótti stigi standa á jörðu og efri endi hans ná til himins, og sjá, englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum.
13 Og sjá, Drottinn stóð hjá honum og sagði: "Ég er Drottinn, Guð Abrahams föður þíns og Guð Ísaks. Landið, sem þú hvílist á, mun ég gefa þér og niðjum þínum.
14 Og niðjar þínir skulu verða sem duft jarðar, og þú skalt útbreiðast til vesturs og austurs, norðurs og suðurs, og af þér munu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta og af þínu afkvæmi.
15 Og sjá, ég er með þér og varðveiti þig, hvert sem þú fer, og ég mun aftur flytja þig til þessa lands, því að ekki mun ég yfirgefa þig fyrr en ég hefi gjört það, sem ég hefi þér heitið."
16 Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti: "Sannlega er Drottinn á þessum stað, og ég vissi það ekki!"
17 Og ótta sló yfir hann og hann sagði: "Hversu hræðilegur er þessi staður! Hér er vissulega Guðs hús, og hér er hlið himinsins!"
18 Og Jakob reis árla um morguninn og tók steininn, sem hann hafði haft undir höfðinu, og reisti hann upp til merkis og hellti olíu yfir hann.
19 Og hann nefndi þennan stað Betel, en áður hafði borgin heitið Lúz.
20 Og Jakob gjörði heit og mælti: "Ef Guð verður með mér og varðveitir mig á þessari ferð, sem ég nú fer, og gefur mér brauð að eta og föt að klæðast,
21 og ef ég kemst farsællega aftur heim í hús föður míns, þá skal Drottinn vera minn Guð,
22 og þessi steinn, sem ég hefi upp reist til merkis, skal verða Guðs hús, og ég skal færa þér tíundir af öllu, sem þú gefur mér."
13 Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.
14 Þeir, sem slíkt mæla, sýna með því, að þeir eru að leita eigin ættjarðar.
15 Hefðu þeir nú átt við ættjörðina, sem þeir fóru frá, þá hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur.
16 En nú þráðu þeir betri ættjörð, það er að segja himneska. Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra, því að borg bjó hann þeim.
17 Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum.
18 Við hann hafði Guð mælt: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."
19 Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju.
20 Fyrir trú blessaði Ísak þá Jakob og Esaú einnig um ókomna tíma.
21 Fyrir trú blessaði Jakob báða sonu Jósefs, er hann var að dauða kominn og "laut fram á stafshúninn og baðst fyrir".
22 Fyrir trú minntist Jósef við ævilokin á brottför Ísraelssona og gjörði ráðstöfun fyrir beinum sínum.
by Icelandic Bible Society