Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.
3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.
4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]
5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.
6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.
7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.
8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.
9 Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.
10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.
12 Drottinn sagði við Abram: "Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á.
2 Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera.
3 Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta."
4 Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran.
5 Abram tók Saraí konu sína og Lot bróðurson sinn og alla fjárhluti, sem þeir höfðu eignast, og þær sálir, er þeir höfðu fengið í Harran. Og þeir lögðu af stað og héldu til Kanaanlands. Þeir komu til Kanaanlands.
6 Og Abram fór um landið, allt þangað er Síkem heitir, allt til Mórelundar. En þá voru Kanaanítar í landinu.
7 Þá birtist Drottinn Abram og sagði við hann: "Niðjum þínum vil ég gefa þetta land." Og hann reisti þar altari Drottni, sem hafði birst honum.
11 Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.
2 Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð.
3 Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.
4 Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. Með trú sinni talar hann enn, þótt dauður sé.
5 Fyrir trú var Enok burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta. "Ekki var hann framar að finna, af því að Guð hafði numið hann burt." Áður en hann var burt numinn, hafði hann fengið þann vitnisburð, "að hann hefði verið Guði þóknanlegur."
6 En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.
7 Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.
8 Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá.
9 Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti.
10 Því að hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.
11 Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son, og þó var Sara óbyrja og hann kominn yfir aldur. Hann treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið.
12 Þess vegna kom út af honum, einum manni, og það mjög ellihrumum, slík niðja mergð sem stjörnur eru á himni og sandkorn á sjávarströnd, er ekki verður tölu á komið.
by Icelandic Bible Society