Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!
8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.
10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.
12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.
13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!
14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
49 Þá lét Jakob kalla sonu sína og mælti: "Safnist saman, að ég megi birta yður það, sem fyrir yður liggur á komandi tímum."
2 Skipist saman og hlýðið á, synir Jakobs, hlýðið á Ísrael föður yðar!
8 Júda, þig munu bræður þínir vegsama. Hönd þín mun vera á hálsi óvina þinna, synir föður þíns skulu lúta þér.
9 Júda er ljónshvolpur, frá bráðinni ert þú stiginn upp, sonur minn. Hann leggst niður, hann hvílist sem ljón og sem ljónynja, hver þorir að reka hann á fætur?
10 Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd.
11 Hann bindur við víntré ösnufola sinn, við gæðavínvið son ösnu sinnar, hann þvær klæði sín í víni og möttul sinn í vínberjablóði.
12 Vínmóða er í augum hans og tennur hans hvítar af mjólk.
13 Sebúlon mun búa við sjávarströndina, við ströndina þar sem skipin liggja, og land hans vita að Sídon.
21 Naftalí er rásandi hind, frá honum koma fegurðarorð.
22 Jósef er ungur aldinviður, ungur aldinviður við uppsprettulind, greinar hans teygja sig upp yfir múrinn.
23 Bogmenn veittust að honum, skutu að honum og ofsóttu hann,
24 en bogi hans reyndist stinnur, og handleggir hans voru fimir. Sá styrkur kom frá Jakobs Volduga, frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels,
25 frá Guði föður þíns, sem mun hjálpa þér, frá Almáttugum Guði, sem mun blessa þig með blessun himinsins að ofan, með blessun djúpsins, er undir hvílir, með blessun brjósta og móðurlífs.
26 Blessunin, sem faðir þinn hlaut, gnæfði hærra en hin öldnu fjöll, hærra en unaður hinna eilífu hæða. Hún komi yfir höfuð Jósefs og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna.
67 En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:
68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.
69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns,
70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,
71 frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss.
72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn og minnst síns heilaga sáttmála,
73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum
74 að hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust
75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.
76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra.
78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.
by Icelandic Bible Society