Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
49 Heyrið mig, þér eylönd, og hyggið að, þér fjarlægar þjóðir! Drottinn hefir kallað mig allt í frá móðurlífi, nefnt nafn mitt frá því ég var í kviði móður minnar.
2 Hann hefir gjört munn minn sem beitt sverð og hulið mig í skugga handar sinnar. Hann hefir gjört mig að fágaðri ör og falið mig í örvamæli sínum.
3 Hann sagði við mig: "Þú ert þjónn minn, Ísrael, sá er ég mun sýna á vegsemd mína."
4 En ég sagði: "Ég hefi þreytt mig til einskis, eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust. Samt sem áður er réttur minn hjá Drottni og laun mín hjá Guði mínum."
5 En nú segir Drottinn, hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, _ og ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur _
6 nú segir hann: "Það er of lítið fyrir þig að vera þjónn minn, til þess að endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveitst hafa af Ísrael. Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar."
7 Svo segir Drottinn, frelsari og heilagur Guð Ísraels, við þann, sem af mönnum er fyrirlitinn, við þann, sem fólk hefir andstyggð á, við þjón harðstjóranna: Konungar munu sjá það og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá það og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.
40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.
3 Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.
4 Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.
5 Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.
6 Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.
7 Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.
8 Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.
9 Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."
10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!
11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.
1 Páll, kallaður að Guðs vilja til að vera postuli Jesú Krists, og Sósþenes, bróðir vor, heilsa
2 söfnuði Guðs í Korintu, þeim sem helgaðir eru í Kristi Jesú, heilagir að köllun til, ásamt öllum þeim, sem alls staðar ákalla nafn Drottins vors Jesú Krists, sem er þeirra Drottinn og vor.
3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
4 Ávallt þakka ég Guði mínum yðar vegna fyrir þá náð, sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú.
5 Í honum eruð þér auðgaðir orðnir í öllu, í hvers konar ræðu og hvers konar þekkingu.
6 Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal yðar,
7 svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists.
8 Hann mun og gjöra yður staðfasta allt til enda, óásakanlega á degi Drottins vors Jesú Krists.
9 Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, Drottins vors.
29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: "Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.
30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.`
31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael."
32 Og Jóhannes vitnaði: "Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.
33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.`
34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs."
35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans.
36 Hann sér Jesú á gangi og segir: "Sjá, Guðs lamb."
37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.
38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: "Hvers leitið þið?" Þeir svara: "Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?"
39 Hann segir: "Komið og sjáið." Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.
40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs.
41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: "Við höfum fundið Messías!" (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.)
42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: "Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas" (Pétur, það þýðir klettur).
by Icelandic Bible Society