Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
6 Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.
7 Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.
8 Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.
9 Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."
10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!
11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.
12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.
13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.
14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.
15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.
17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"
12 Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið:
2 "Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður.
3 Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: ,Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili.
4 En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið.
5 Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið.
6 Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur.
7 Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið.
8 Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það.
9 Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innýflum.
10 Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi.
11 Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins.
12 Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn.
13 Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland.
21 Þá stefndi Móse saman öllum öldungum Ísraelsmanna og sagði við þá: "Farið og takið yður sauðkindur handa heimilum yðar og slátrið páskalambinu.
22 Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni.
23 Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður.
24 Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín.
25 Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið.
26 Og þegar börn yðar segja við yður: ,Hvaða siður er þetta, sem þér haldið?`
27 þá skuluð þér svara: ,Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum."` Þá féll lýðurinn fram og tilbað.
28 Og Ísraelsmenn fóru og gjörðu þetta. Þeir gjörðu eins og Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.
26 En engill Drottins mælti til Filippusar: "Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa." Þar er óbyggð.
27 Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir
28 og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann.
29 Andinn sagði þá við Filippus: "Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum."
30 Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: "Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?"
31 Hinn svaraði: "Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?" Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér.
32 En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi: Eins og sauður til slátrunar leiddur, og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það, svo lauk hann ekki upp munni sínum.
33 Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti. Hver getur sagt frá ætt hans? Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni.
34 Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: "Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?"
35 Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú.
36 Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: "Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?"
38 Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann.
39 En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar.
40 En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu.
by Icelandic Bible Society