Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!
8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.
10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.
12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.
13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!
14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
12 Midíanítar, Amalekítar og allir austurbyggjar höfðu reist herbúðir á sléttunni, sem engisprettur að fjölda til, og úlfaldar þeirra voru óteljandi, sem sandur á sjávarströndu að fjölda til.
13 Þegar Gídeon kom þangað, var maður nokkur að segja félaga sínum draum með þessum orðum: "Sjá, mig dreymdi draum, og þótti mér byggbrauðskaka velta sér að herbúðum Midíans, og komst hún alla leið að tjaldinu og rakst á það, svo að það féll, og kollvelti því, svo að tjaldið lá flatt."
14 Þá svaraði hinn: "Þetta er ekkert annað en sverð Ísraelítans Gídeons Jóassonar. Guð hefir gefið Midían og allar herbúðirnar í hendur hans."
15 Er Gídeon hafði heyrt frásöguna um drauminn og ráðningu hans, féll hann fram og tilbað. Sneri hann síðan aftur til herbúða Ísraels og sagði: "Rísið upp, því að Drottinn hefir gefið herbúðir Midíans í yðar hendur."
16 Þá skipti hann þeim þrem hundruðum manna í þrjá flokka og fékk þeim öllum lúðra í hönd og tómar krúsir og blys í krúsunum.
17 Og hann sagði við þá: "Lítið á mig og gjörið sem ég. Þegar ég kem að útjaðri herbúðanna, þá gjörið eins og ég gjöri.
18 Þegar ég því þeyti lúðurinn og allir þeir, sem með mér eru, þá skuluð þér líka þeyta lúðrana kringum allar herbúðirnar og segja: ,Sverð Drottins og Gídeons!"`
19 Gídeon og það hundrað manna, er með honum var, komu að útjaðri herbúðanna í byrjun miðvarðtíðarinnar. Var þá einmitt nýbúið að setja verðina. Þá þeyttu þeir lúðrana og brutu sundur krúsirnar, sem þeir báru í höndum sér.
20 Þeyttu nú flokkarnir þrír lúðrana og brutu krúsirnar, tóku blysin í vinstri hönd sér og lúðrana í hægri hönd sér til þess að þeyta þá, og æptu: "Sverð Drottins og Gídeons!"
21 Stóðu þeir kyrrir, hver á sínum stað, umhverfis herbúðirnar, en í herbúðunum komst allt í uppnám, og flýðu menn nú með ópi miklu.
22 Og er þeir þeyttu þrjú hundruð lúðrana, þá beindi Drottinn sverðum þeirra gegn þeirra eigin mönnum um allar herbúðirnar, og flýði allur herinn til Bet Sitta, á leið til Serera, að árbakkanum við Abel Mehóla hjá Tabbat.
12 Þess vegna, mínir elskuðu, þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri.
13 Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.
14 Gjörið allt án þess að mögla og hika,
15 til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar. Þér skínið hjá þeim eins og ljós í heiminum.
16 Haldið fast við orð lífsins, mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis.
17 Og enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína, þegar ég ber trú yðar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst yður öllum.
18 Af hinu sama skuluð þér einnig gleðjast og samgleðjast mér.
by Icelandic Bible Society