Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 29

29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.

Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.

Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.

Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.

Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.

Raust Drottins klýfur eldsloga.

Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.

Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!

10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.

11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.

Fyrri Samúelsbók 3:1-9

Sveinninn Samúel gegndi þjónustu Drottins hjá Elí. Orð frá Drottni var sjaldgæft á þeim dögum, vitranir voru þá fátíðar.

Þá bar svo til einn dag, að Elí svaf á sínum vanalega stað. En augu hans voru tekin að daprast, svo að hann var hættur að sjá,

og enn var ekki slokknað á Guðs lampa, en Samúel svaf í musteri Drottins, þar sem Guðs örk var.

Þá kallaði Drottinn á Samúel. Hann svaraði: "Hér er ég."

Og hann hljóp til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." En Elí sagði: "Ég hefi ekki kallað. Far þú aftur að sofa." Fór hann þá og lagðist til svefns.

En Drottinn kallaði enn að nýju: "Samúel!" Og Samúel reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." En hann sagði: "Ég hefi ekki kallað, sonur minn. Leggst þú aftur til svefns."

En Samúel þekkti ekki enn Drottin, og honum hafði ekki enn birst orð frá Drottni.

Þá kallaði Drottinn enn á Samúel, í þriðja skiptið. Og hann reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." Þá skildi Elí, að það var Drottinn, sem var að kalla á sveininn.

Fyrir því sagði Elí við Samúel: "Far þú og leggstu til svefns, og verði nú á þig kallað, þá svara þú: ,Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir."` Fór Samúel þá og lagðist til svefns á sínum stað.

Postulasagan 9:1-9

En Sál blés enn ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins. Gekk hann til æðsta prestsins

og beiddist bréfa af honum til samkundanna í Damaskus, að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá, er hann kynni að finna og væru þessa vegar, hvort heldur karla eða konur.

En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus, leiftraði skyndilega um hann ljós af himni.

Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: "Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?"

En hann sagði: "Hver ert þú, herra?" Þá var svarað: "Ég er Jesús, sem þú ofsækir.

En statt upp og gakk inn í borgina, og þér mun verða sagt, hvað þú átt að gjöra."

Förunautar hans stóðu orðlausir. Þeir heyrðu að vísu raustina, en sáu engan.

Sál reis á fætur, en þegar hann lauk upp augunum, sá hann ekkert. Þeir leiddu hann við hönd sér inn í Damaskus.

Þrjá daga var hann sjónlaus og át hvorki né drakk.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society