Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:49-56

49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.

50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.

51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.

52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.

53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.

54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.

55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.

56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.

Jeremía 32:36-44

36 Og nú _ fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um þessa borg, er þér segið að seld sé á vald Babelkonungs með sverði, hungri og drepsótt:

37 Sjá, ég safna þeim saman úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hefi rekið þá í reiði minni og heift og í mikilli gremi, og læt þá snúa aftur hingað og búa hér óhulta.

38 Þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð,

39 og ég vil gefa þeim eitt hjarta og eina breytni, svo að þeir óttist mig alla daga, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá.

40 Og ég vil gjöra við þá eilífan sáttmála, að ég muni aldrei snúa frá þeim með velgjörðir mínar, og ég vil leggja ótta fyrir mér í hjörtu þeirra, til þess að þeir víki ekki frá mér.

41 Og það skal verða unun mín að gjöra vel við þá, og ég mun gróðursetja þá í þessu landi í trúfesti, af öllu hjarta og af allri sálu.

42 Því að svo segir Drottinn: Eins og ég hefi leitt yfir þessa þjóð alla þessa miklu óhamingju, svo leiði ég og yfir þá alla þá hamingju, sem ég heiti þeim.

43 Og akrar munu aftur keyptir verða í þessu landi, sem þér segið um: "Það er auðn, mannlaust og skepnulaust! Það er selt á vald Kaldea!"

44 Akra munu menn kaupa fyrir silfur og skrifa kaupbréf og innsigla og taka votta að, bæði í Benjamínslandi og í umhverfi Jerúsalem og í borgum Júda og í fjallborgunum og í borgunum á sléttlendinu og í borgunum í Suðurlandinu, því að ég mun leiða heim aftur hina herleiddu menn þeirra _ segir Drottinn.

Hið almenna bréf Jakobs 5:1-6

Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma.

Auður yðar er orðinn fúinn og klæði yðar eru orðin möletin,

gull yðar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða yður til vitnis og eta hold yðar eins og eldur. Þér hafið fjársjóðum safnað á síðustu dögunum.

Launin hrópa, þau sem þér hafið haft af verkamönnunum, sem slógu lönd yðar, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna.

Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi.

Þér hafið sakfellt og drepið hinn réttláta. Hann veitir yður ekki viðnám.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society