Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.
2 Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.
3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"
4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?
5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.
6 Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.
7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"
8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!
9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.
16 Yfir þessu græt ég, augu mín fljóta í tárum. Því að huggarinn er langt í burtu frá mér, sá er hressti sál mína. Börn mín eru komin í örbirgð, því að óvinirnir báru hærri hlut.
17 Síon réttir út hendur sínar, enginn verður til að hugga hana. Drottinn bauð út á móti Jakob fjendum hans allt í kring. Jerúsalem er orðin að viðurstyggð meðal þeirra.
18 Drottinn er réttlátur, því að ég þrjóskaðist gegn boði hans. Ó, heyrið það, allir lýðir, og sjáið kvöl mína. Meyjar mínar og yngismenn fóru burt herleidd.
19 Ég kallaði á ástmenn mína, þeir sviku mig. Prestar mínir og öldungar önduðust í borginni, þá er þeir leituðu sér bjargar til þess að draga fram lífið.
20 Sjá, Drottinn, hve ég er hrædd, hve iður mín ólga. Hjartað berst í brjósti mér, því að ég var svo þverúðarfull. Sverðið svipti mig börnunum úti fyrir, drepsóttin í húsum inni.
21 Þeir heyrðu, hversu ég andvarpaði, enginn varð til að hugga mig. Allir óvinir mínir spurðu óhamingju mína, glöddust, af því að þú hefir gjört þetta. Þú lætur þann dag koma, er þú hefir boðað, þá verða þeir jafningjar mínir.
22 Lát alla illsku þeirra koma fyrir auglit þitt, og gjör við þá, eins og þú hefir gjört við mig vegna allra synda minna. Því að andvörp mín eru mörg, og hjarta mitt er sjúkt.
2 Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir.
3 Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði,
4 en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.
5 Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.
6 En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.
7 Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla,
8 að hann fái nokkuð hjá Drottni.
9 Lágt settur bróðir hrósi sér af upphefð sinni,
10 en auðugur af lægingu sinni, því hann mun líða undir lok eins og blóm á engi.
11 Sólin kemur upp með steikjandi hita og brennir grasið, og blóm þess dettur af og fegurð þess verður að engu. Þannig mun og hinn auðugi maður visna upp á vegum sínum.
by Icelandic Bible Society