Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
19 Minnstu eymdar minnar og mæðu, malurtarinnar og eitursins.
20 Sál mín hugsar stöðugt um þetta og er döpur í brjósti mér.
21 Þetta vil ég hugfesta, þess vegna vil ég vona:
22 Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda,
23 hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín!
24 Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vil ég vona á hann.
25 Góður er Drottinn þeim er á hann vona, og þeirri sál er til hans leitar.
26 Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins.
12 En í fimmta mánuði, á tíunda degi mánaðarins _ það er á nítjánda ríkisári Nebúkadresars Babelkonungs _ kom Nebúsaradan lífvarðarforingi, vildarþjónn Babelkonungs, til Jerúsalem
13 og brenndi musteri Drottins og konungshöllina og öll hús í Jerúsalem, og öll hús stórmennanna brenndi hann í eldi.
14 En allur Kaldeaher, sá er var með lífvarðarforingjanum, reif niður alla múrana umhverfis Jerúsalem.
15 En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með Babelkonungi, og þá sem eftir voru af iðnaðarmönnum, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon.
16 En af almúga landsins lét Nebúsaradan lífvarðarforingi nokkra verða eftir sem víngarðsmenn og akurkarla.
17 Eirsúlurnar, er voru við musteri Drottins, og undirstöðupallana og eirhafið, er voru í musteri Drottins, brutu Kaldear sundur og fluttu allan eirinn til Babýlon.
18 Og katlana, eldspaðana, skarbítana, ádreifingarskálarnar, bollana og öll eiráhöldin, er notuð voru við guðsþjónustuna, tóku þeir.
19 Þá tók og lífvarðarforinginn katlana, eldpönnurnar, ádreifingarskálarnar, pottana, ljósastikurnar, bollana, kerin _ allt sem var af gulli og silfri.
20 Súlurnar tvær, hafið og undirstöðupallana, er Salómon konungur hafði gjöra látið í musteri Drottins _ eirinn úr öllum þessum áhöldum varð eigi veginn.
21 En hvað súlurnar snertir, þá var önnur súlan átján álnir á hæð, og tólf álna langan þráð þurfti til að ná utan um hana, en hún var fjögra fingra þykk, hol að innan.
22 En ofan á henni var súlnahöfuð af eiri og var það fimm álnir á hæð. Riðið net og granatepli voru umhverfis höfuðið, allt af eiri, og eins var á hinni súlunni.
23 En granateplin voru níutíu og sex, þau er út sneru. Öll granateplin voru hundrað á riðna netinu allt um kring.
24 Og lífvarðarforinginn tók Seraja höfuðprest og Sefanía annan prest og þröskuldsverðina þrjá.
25 Og úr borginni tók hann hirðmann einn, er skipaður var yfir hermennina, og sjö menn af þeim, er daglega litu auglit konungs, er fundust í borginni, og ritara hershöfðingjans, þess er bauð út landslýðnum, og sextíu manns af sveitafólki, því er fannst í borginni.
26 Þessa menn tók Nebúsaradan lífvarðarforingi og flutti þá til Ribla til Babelkonungs.
27 En Babelkonungur lét drepa þá í Ribla í Hamat-héraði. Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu.
28 Þetta var mannfólkið, sem Nebúkadresar herleiddi: Sjöunda árið 3023 Júdabúa,
29 átjánda ríkisár Nebúkadresars 832 sálir úr Jerúsalem.
30 Tuttugasta og þriðja ríkisár Nebúkadresars herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi 745 sálir af Júdabúum. Alls voru það 4600 sálir.
12 Og engli safnaðarins í Pergamos skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og bitra:
13 Ég veit hvar þú býrð, þar sem hásæti Satans er. Þú heldur stöðugt við nafn mitt og afneitar ekki trúnni á mig, jafnvel ekki á dögum Antípasar, míns trúa vottar, sem deyddur var hjá yður, þar sem Satan býr.
14 En þó hef ég nokkuð á móti þér. Þú hefur hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Bíleams, þess er kenndi Balak að tæla Ísraelsmenn, svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór.
15 Þannig hefur þú líka hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Nikólaíta.
16 Gjör því iðrun! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns.
17 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda "manna", og ég mun gefa honum hvítan stein, og á steininn ritað nýtt nafn, sem enginn þekkir nema sá, er við tekur.
18 Og engli safnaðarins í Þýatíru skalt þú rita: Þetta segir sonur Guðs, sem augun hefur eins og eldsloga og fætur hans eru líkir glómálmi:
19 Ég þekki verkin þín og kærleikann, trúna, þjónustuna og þolgæði þitt og veit, að verk þín hin síðari eru meiri en hin fyrri.
20 En það hef ég á móti þér, að þú líður Jessabel, konuna, sem segir sjálfa sig vera spákonu og kennir þjónum mínum og afvegaleiðir þá til að drýgja hór og eta kjöt helgað skurðgoðum.
21 Ég hef gefið henni frest til þess að hún gjöri iðrun, en hún vill ekki gjöra iðrun og láta af hórdómi sínum.
22 Nú mun ég varpa henni á sjúkrabeð og þeim í mikla þrengingu, sem hórast með henni, ef þeir gjöra ekki iðrun og láta af verkum hennar.
23 Og börn hennar mun ég deyða og allir söfnuðirnir skulu vita, að ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun, og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar.
24 En yður segi ég, hinum sem eruð í Þýatíru, öllum þeim sem hafa ekki kenningu þessa, þar sem þeir hafa ekki kannað djúp Satans, sem þeir svo kalla: Aðra byrði legg ég eigi á yður,
25 nema það að þér haldið því, sem þér hafið, þangað til ég kem.
26 Þeim er sigrar og varðveitir allt til enda verk mín mun ég gefa vald yfir heiðingjunum.
27 Og hann mun stjórna þeim með járnsprota, eins og leirker eru moluð. Það vald hef ég fengið frá föður mínum.
28 Og ég mun gefa honum morgunstjörnuna.
29 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
by Icelandic Bible Society