Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:137-144

137 Réttlátur ert þú, Drottinn, og réttvísir dómar þínir.

138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti og mikilli trúfesti.

139 Ákefð mín eyðir mér, því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.

140 Orð þitt er mjög hreint, og þjónn þinn elskar það.

141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn, en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.

142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt trúfesti.

143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið, en boð þín eru unun mín.

144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa.

Jeremía 33:14-26

14 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun láta rætast fyrirheit það, er ég hefi gefið um Ísraels hús og Júda hús.

15 Á þeim dögum og á þeim tíma mun ég Davíð láta upp vaxa réttan kvist, og hann skal iðka rétt og réttlæti í landinu.

16 Á þeim dögum mun Júda hólpinn verða og Jerúsalem búa óhult, og þetta mun verða nafnið, er menn nefna hana: "Drottinn er vort réttlæti."

17 Svo segir Drottinn: Davíð skal aldrei vanta eftirmann, sem sitji í hásæti Ísraels húss.

18 Og levítaprestana skal aldrei vanta eftirmann frammi fyrir mér, er framberi brennifórnir, brenni matfórnum og fórni sláturfórnum alla daga.

19 Og orð Drottins kom til Jeremía:

20 Svo segir Drottinn: Svo sannarlega sem þér getið ekki rofið sáttmála minn við daginn og sáttmála minn við nóttina, svo að dagur og nótt komi ekki á sínum tíma,

21 svo sannarlega mun sáttmáli minn við Davíð þjón minn eigi rofinn verða, svo að hann hafi ekki niðja, er ríki í hásæti hans, og við prestalevítana, þjóna mína.

22 Eins og himinsins her verður ekki talinn og sjávarsandurinn ekki mældur, svo vil ég margfalda niðja Davíðs þjóns míns og levítana, er mér þjóna.

23 Og orð Drottins kom til Jeremía:

24 Hefir þú ekki tekið eftir, hvað þessi lýður talar, er hann segir: "Báðum ættkvíslunum, sem Drottinn útvaldi, hefir hann hafnað!" og að þeir segja fyrirlitlega um lýð minn, að hann sé ekki þjóð framar í þeirra augum?

25 Svo segir Drottinn: Ég, sem hefi gjört sáttmála við dag og nótt og sett himni og jörðu föst lög,

26 skyldi ég hafna niðjum Jakobs og Davíðs, þjóns míns? Skyldi ég leiða hjá mér að velja af niðjum hans drottnara yfir ætt Abrahams, Ísaks og Jakobs? Nei, ég mun snúa við högum þeirra og miskunna þeim.

Síðara bréf Páls til Kori 1:1-11

Páll, að Guðs vilja postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir vor, heilsa söfnuði Guðs, sem er í Korintu, ásamt öllum heilögum, í gjörvallri Akkeu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar,

sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.

Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist.

En ef vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, og ef vér hljótum huggun, þá er það til þess að þér hljótið huggun og kraft til að standast þær þjáningar, sem vér einnig líðum.

Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.

Vér viljum ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu. Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið.

Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm. Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu.

10 Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann oss og mun frelsa oss. Til hans höfum vér sett von vora, að hann muni enn frelsa oss.

11 Til þess getið þér og hjálpað með því að biðja fyrir oss. Þá munu margir þakka þá náðargjöf, sem oss er veitt að fyrirbæn margra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society