Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 65

65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.

Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.

Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.

Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.

Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,

þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,

þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,

svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.

10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.

11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.

12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.

13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.

14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.

Jóel 1

Orð Drottins, sem kom til Jóels Petúelssonar.

Heyrið þetta, þér öldungar, og hlustið, allir íbúar landsins! Hefir slíkt nokkurn tíma til borið á yðar dögum eða á dögum feðra yðar?

Segið börnum yðar frá því og börn yðar sínum börnum og börn þeirra komandi kynslóð.

Það sem nagarinn leifði, það át átvargurinn, það sem átvargurinn leifði, upp át flysjarinn, og það sem flysjarinn leifði, upp át jarðvargurinn.

Vaknið, þér ofdrykkjumenn, og grátið! Kveinið allir þér, sem vín drekkið, yfir því að vínberjaleginum er kippt burt frá munni yðar.

Því að voldug þjóð og ótöluleg hefir farið yfir land mitt, tennur hennar eru sem ljónstennur og jaxlar hennar sem dýrsins óarga.

Hún hefir eytt víntré mín og brotið fíkjutré mín, hún hefir flegið allan börk af þeim og varpað þeim um koll, greinar þeirra urðu hvítar.

Kveina þú eins og mær, sem klæðist sorgarbúningi vegna unnusta æsku sinnar.

Matfórnir og dreypifórnir eru numdar burt úr húsi Drottins, prestarnir, þjónar Drottins, eru hryggir.

10 Vellirnir eru eyddir, akurlendið drúpir, því að kornið er eytt, vínberjalögurinn hefir brugðist og olían er þornuð.

11 Akurmennirnir eru sneyptir, vínyrkjumennirnir kveina, vegna hveitisins og byggsins, því að útséð er um nokkra uppskeru af akrinum.

12 Vínviðurinn er uppskrælnaður, fíkjutrén fölnuð, granateplatrén, pálmaviðurinn og apaldurinn, öll tré merkurinnar eru uppþornuð, já, öll gleði er horfin frá mannanna börnum.

13 Gyrðist hærusekk og harmið, þér prestar! Kveinið, þér altarisþjónar! Komið, verið á næturnar í hærusekk, þér þjónar Guðs míns, því að matfórn og dreypifórn eru burt numdar úr húsi Guðs yðar.

14 Stofnið til helgrar föstu, boðið hátíðarstefnu. Kallið saman öldungana, alla íbúa landsins í húsi Drottins, Guðs yðar, og hrópið til Drottins.

15 Æ, sá dagur! Því að dagur Drottins er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.

16 Hefir ekki fæðan verið hrifin burt fyrir augum vorum og er ekki gleði og fögnuður horfinn úr húsi Guðs vors?

17 Frækornin liggja skorpnuð undir moldarkökkunum, forðabúrin eru eydd, kornhlöðurnar niðurrifnar, því að kornið er uppskrælnað.

18 Ó, hversu skepnurnar stynja, nautahjarðirnar rása ærðar, af því að þær hafa engan haga, sauðahjarðirnar þola og nauð.

19 Til þín, Drottinn, kalla ég, því að eldur hefir eytt hagaspildum eyðimerkurinnar og logi sviðið öll tré merkurinnar.

20 Jafnvel dýr merkurinnar mæna til þín, því að vatnslækirnir eru uppþornaðir og eldur hefir eytt hagaspildum eyðimerkurinnar.

Síðara bréf Páls til Tímó 3:1-9

Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.

Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir,

kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er,

sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.

Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!

Úr hópi þeirra eru mennirnir, sem smeygja sér inn á heimilin og ná á band sitt kvensniftum, sem syndum eru hlaðnar og leiðast af margvíslegum fýsnum.

Þær eru alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum.

Eins og þeir Jannes og Jambres stóðu í gegn Móse, þannig standa og þessir menn í gegn sannleikanum. Þeir eru menn hugspilltir og óhæfir í trúnni.

En þeim mun ekki verða ágengt, því að heimska þeirra mun verða hverjum manni augljós, eins og líka heimska hinna varð.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society