Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.
98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.
99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.
100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.
101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.
102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig.
103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.
104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.
16 Þá sögðu höfðingjarnir og allur lýðurinn við prestana og spámennina: "Þessi maður er ekki dauða sekur, því að hann hefir talað til vor í nafni Drottins, Guðs vors."
17 Þá gengu nokkrir af öldungum landsins fram og mæltu til alls mannsafnaðarins á þessa leið:
18 "Míka frá Móreset kom fram sem spámaður á dögum Hiskía konungs í Júda og mælti til alls Júdalýðs á þessa leið: ,Svo segir Drottinn allsherjar: Síon mun plægð verða sem akur og Jerúsalem mun verða að rústum og musterisfjallið að skógarhæðum.`
19 Hvort deyddi Hiskía Júdakonungur og allur Júdalýður hann? Óttaðist hann ekki Drottin og blíðkaði Drottin, svo að Drottin iðraði þeirrar óhamingju, er hann hafði hótað þeim? En vér erum rétt að því komnir að baka oss mikla óhamingju!"
20 Annar maður var og, sem spáði í nafni Drottins, Úría Semajason frá Kirjat-Jearím. Hann spáði og gegn þessari borg og þessu landi, alveg á sama hátt og Jeremía.
21 En er Jójakím konungur og allir kappar hans og allir höfðingjarnir spurðu orð hans, leitaðist konungur við að láta drepa hann. En er Úría frétti það, varð hann hræddur, flýði burt og fór til Egyptalands.
22 En Jójakím konungur gjörði menn til Egyptalands, Elnatan Akbórsson og menn með honum.
23 Og þeir sóttu Úría til Egyptalands og fóru með hann til Jójakíms konungs, og hann lét drepa hann með sverði og kasta líkinu á grafir múgamanna.
24 En Ahíkam Safansson verndaði Jeremía, svo að hann var eigi framseldur í hendur lýðsins til lífláts.
14 Minn á þetta og heit á þá fyrir augliti Guðs að eiga ekki í orðastælum til einskis gagns, áheyrendum til falls.
15 Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.
16 Forðast þú hinar vanheilögu hégómaræður, því að þeim, er leggja stund á þær, skilar lengra áfram í guðleysi,
17 og lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni. Í hópi þeirra eru þeir Hýmeneus og Fíletus.
18 Þeir hinir sömu hafa villst frá sannleikanum, þar sem þeir segja upprisuna þegar um garð gengna og umhverfa trú sumra manna.
19 En Guðs styrki grundvöllur stendur. Hann hefur þetta innsigli: "Drottinn þekkir sína" og "hver sá, sem nefnir nafn Drottins, haldi sér frá ranglæti."
20 Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota.
21 Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.
22 Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.
23 En hafna þú heimskulegum og óskynsamlegum þrætum. Þú veist, að þær leiða af sér ófrið.
24 Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum,
25 hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum,
26 þá gætu þeir endurvitkast og losnað úr snöru djöfulsins, sem hefur veitt þá til að gjöra hans vilja.
by Icelandic Bible Society