Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
1 Æ, hversu einmana er nú borgin, sú er áður var svo fjölbyggð, orðin eins og ekkja, sú er voldug var meðal þjóðanna, furstafrúin meðal héraðanna orðin kvaðarkona.
2 Hún grætur sáran um nætur, og tárin streyma ofan vanga hennar. Enginn er sá er huggi hana af öllum ástmönnum hennar. Allir vinir hennar hafa brugðist henni, þeir eru orðnir óvinir hennar.
3 Júda hefir flúið land fyrir eymd og fyrir mikilli ánauð. Hann býr meðal heiðingjanna, finnur engan hvíldarstað. Allir ofsækjendur hans náðu honum í þrengslunum.
4 Vegirnir til Síonar syrgja, af því að engir koma til hátíðahalds. Öll hlið hennar eru eydd, prestar hennar andvarpa, meyjar hennar eru sorgbitnar, og sjálf er hún hrygg í hjarta.
5 Fjendur hennar eru orðnir ofan á, óvinir hennar lifa ánægðir. Því að Drottinn hefir hrellt hana vegna hennar mörgu synda, börn hennar fóru burt herleidd fyrir kúgaranum.
6 Þannig fór burt frá Síonarborg allt skraut hennar. Höfðingjar hennar eru orðnir eins og hrútar, sem ekkert haglendi finna, og þeir fóru magnþrota burt fyrir ofsóknaranum.
19 Minnstu eymdar minnar og mæðu, malurtarinnar og eitursins.
20 Sál mín hugsar stöðugt um þetta og er döpur í brjósti mér.
21 Þetta vil ég hugfesta, þess vegna vil ég vona:
22 Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda,
23 hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín!
24 Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vil ég vona á hann.
25 Góður er Drottinn þeim er á hann vona, og þeirri sál er til hans leitar.
26 Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins.
137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.
2 Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.
3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"
4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?
5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.
6 Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.
7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"
8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!
9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú til að flytja fyrirheitið um lífið í Kristi Jesú, heilsar
2 Tímóteusi, elskuðum syni sínum. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.
3 Þakkir gjöri ég Guði, sem ég þjóna, eins og forfeður mínir, með hreinni samvisku, því að án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum.
4 Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði
5 er ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína. Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér.
6 Fyrir þá sök minni ég þig á að glæða hjá þér þá náðargjöf, sem Guð gaf þér við yfirlagningu handa minna.
7 Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.
8 Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til.
9 Hann hefur frelsað oss og kallað heilagri köllun, ekki eftir verkum vorum, heldur eftir eigin ákvörðun og náð, sem oss var gefin fyrir Krist Jesú frá eilífum tímum,
10 en hefur nú birst við komu frelsara vors Krists Jesú. Hann afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.
11 Og til að boða það er ég settur prédikari, postuli og kennari.
12 Fyrir þá sök líð ég og þetta. En eigi fyrirverð ég mig, því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um, að hann er þess megnugur að varðveita það, sem mér er trúað fyrir, þar til dagurinn kemur.
13 Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.
14 Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.
5 Postularnir sögðu við Drottin: "Auk oss trú!"
6 En Drottinn sagði: "Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: ,Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum,` og það mundi hlýða yður.
7 Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann, þegar hann kemur inn af akri: ,Kom þegar og set þig til borðs`?
8 Segir hann ekki fremur við hann: ,Bú þú mér kvöldverð, gyrð þig og þjóna mér, meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið.`
9 Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gjöra það, sem boðið var?
10 Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: ,Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra."`
by Icelandic Bible Society