Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.
50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.
51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.
52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.
53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.
54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.
55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.
56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.
16 Og er ég hafði fengið Barúk Neríasyni kaupbréfið, bað ég til Drottins á þessa leið:
17 ,Æ, herra Drottinn, sjá, þú hefir með þínum mikla mætti og útrétta armlegg gjört himin og jörð. Þér er enginn hlutur um megn!
18 Þú sem auðsýnir miskunn þúsundum og geldur misgjörð feðranna í skaut sonum þeirra eftir þá, _ þú mikli, voldugi Guð, er nefnist Drottinn allsherjar,
19 mikill í ráðum og máttugur í athöfnum, þú hvers augu standa opin yfir öllum vegum mannanna barna til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans og eftir ávexti verka hans,
20 þú sem hefir gjört tákn og undur á Egyptalandi og allt fram á þennan dag, bæði á Ísrael og á öðrum mönnum, og afrekað þér mikið nafn fram á þennan dag.
21 Þú fluttir þjóð þína Ísrael af Egyptalandi með táknum og undrum og með sterkri hendi og útréttum armlegg og mikilli skelfingu
22 og gafst þeim þetta land, er þú sórst feðrum þeirra að gefa þeim, land, sem flýtur í mjólk og hunangi.
23 En er þeir voru komnir inn í það og höfðu tekið það til eignar, þá hlýddu þeir ekki þinni raustu, breyttu ekki eftir lögmáli þínu og gjörðu ekki neitt af því, er þú hafðir boðið þeim að gjöra. Þá lést þú alla þessa ógæfu þeim að höndum bera.
24 Sjá, sóknarvirkin eru þegar komin að borginni til að vinna hana, og borgin er fyrir sakir sverðs, hungurs og drepsóttar seld á vald Kaldea, sem á hana herja, og það, sem þú hótaðir, er fram komið, og sjá, þú horfir á það.
25 Og þó sagðir þú við mig, herra Drottinn: "Kaup þér akurinn fyrir silfur og tak votta að!" _ þótt borgin sé seld á vald Kaldea."`
26 Þá kom orð Drottins til Jeremía:
27 Sjá, ég er Drottinn, Guð alls holds. Er mér nokkur hlutur um megn?
28 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég sel þessa borg á vald Kaldea og á vald Nebúkadresars Babelkonungs, að hann vinni hana,
29 og Kaldear, sem herja á þessa borg, munu brjótast inn í hana, og leggja eld í þessa borg og brenna hana og húsin, þar sem þeir á þökunum færðu Baal reykelsisfórnir og færðu öðrum guðum dreypifórnir til þess að egna mig til reiði.
30 Því að Ísraelsmenn og Júdamenn hafa frá æsku sinni verið vanir að gjöra það eitt, sem mér mislíkaði, því að Ísraelsmenn hafa aðeins egnt mig til reiði með handaverkum sínum _ segir Drottinn.
31 Já, þessi borg hefir verið mér tilefni til reiði og gremi frá þeim degi, er hún var reist, allt fram á þennan dag, svo að ég verð að taka hana burt frá augliti mínu,
32 sökum allrar illsku Ísraelsmanna og Júdamanna, er þeir hafa í frammi haft til þess að egna mig til reiði, _ konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar.
33 Þeir sneru við mér bakinu, en ekki andlitinu, og þótt ég fræddi þá seint og snemma, þá hlýddu þeir ekki, svo að þeir tækju umvöndun.
34 Heldur reistu þeir viðurstyggðir sínar upp í húsi því, sem kennt er við nafn mitt, til þess að saurga það.
35 Þeir byggðu Baal fórnarhæðir í Hinnomssonar-dal, til þess að láta sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn Mólok til handa, _ sem ég hefi ekki boðið þeim og mér hefir ekki í hug komið, að þeir mundu fremja slíka svívirðing, til þess að tæla Júda til syndar.
14 Og engli safnaðarins í Laódíkeu skalt þú rita: Þetta segir hann, sem er amen, votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs:
15 Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur.
16 En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum.
17 Þú segir: "Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis." Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn.
18 Ég ræð þér, að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur, og hvít klæði til að skýla þér með, að eigi komi í ljós vanvirða nektar þinnar, og smyrsl að smyrja með augu þín, til þess að þú verðir sjáandi.
19 Alla þá, sem ég elska, tyfta ég og aga. Ver því heilhuga og gjör iðrun.
20 Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.
21 Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.
22 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
by Icelandic Bible Society