Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
2 Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!
3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?
4 Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.
5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,
6 drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa
7 og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."
8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?
9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?
10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?
11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.
12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,
13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.
14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,
15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.
16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?
17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.
18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.
19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.
20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?
21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.
22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.
23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.
5 Gangið fram og aftur um stræti Jerúsalem, litist um og rannsakið og leitið á torgunum, hvort þér finnið nokkurn mann, hvort þar sé nokkur, sem gjörir það sem rétt er og leitast við að sýna trúmennsku, og mun ég fyrirgefa henni.
2 Og þótt þeir segi: "svo sannarlega sem Drottinn lifir," sverja þeir engu að síður meinsæri.
3 En, Drottinn, líta ekki augu þín á trúfesti? Þú laust þá, en þeir kenndu ekkert til, þú eyddir þeim, en þeir vildu ekki taka aga. Þeir gjörðu andlit sín harðari en stein, þeir vildu ekki snúa við.
4 En ég hugsaði: "Það eru aðeins hinir lítilmótlegu, sem breyta heimskulega, af því að þeir þekkja ekki veg Drottins, réttindi Guðs síns.
5 Ég ætla að fara til stórmennanna og tala við þá, því að þeir þekkja veg Drottins, réttindi Guðs síns." En einmitt þeir höfðu allir saman brotið sundur okið og slitið af sér böndin.
6 Fyrir því drepur þá ljón úr skóginum, fyrir því eyðir þeim úlfurinn, sem hefst við á heiðunum. Pardusdýrið situr um borgir þeirra, svo að hver sá, er út úr þeim fer, verður rifinn sundur, því að afbrot þeirra eru mörg, fráhvarfssyndir þeirra miklar.
7 Hví skyldi ég fyrirgefa þér? Börn þín hafa yfirgefið mig og svarið við þá, sem ekki eru guðir, og þótt ég mettaði þá, tóku þeir fram hjá og þyrptust að hóruhúsinu.
8 Eins og sællegir stóðhestar hlaupa þeir til og frá og hvía hver að annars konu.
9 Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? _ segir Drottinn _, eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?
10 Stígið upp á víngarðshjalla þjóðar minnar og rífið niður, en gjörið þó ekki aleyðing, takið burt vínviðargreinar hennar, því að þær heyra ekki Drottni.
11 Því að Ísraels hús og Júda hús hafa breytt mjög sviksamlega gegn mér _ segir Drottinn.
12 Þeir hafa afneitað Drottni og sagt: "Það er ekki hann, og engin ógæfa mun yfir oss koma, sverð og hungur munum vér ekki sjá.
13 Spámennirnir munu verða að vindi, því að orð Guðs býr ekki í þeim."
14 Fyrir því mælir Drottinn, Guð allsherjar, svo: Af því að þeir hafa mælt slíkum orðum, fer svo fyrir þeim sjálfum! Ég gjöri orð mín í munni þínum að eldi og þessa þjóð að eldiviði, til þess að hann eyði henni.
15 Sjá, ég læt þjóð koma yfir yður úr fjarlægu landi, Ísraels hús _ segir Drottinn. Það er óbilug þjóð, það er afar gömul þjóð, tungu þeirrar þjóðar þekkir þú ekki, og skilur ekki, hvað hún segir.
16 Örvamælir hennar er sem opin gröf, allir eru þeir kappar.
17 Hún mun eta uppskeru þína og neyslukorn þitt, þeir munu eta sonu þína og dætur. Hún mun eta sauði þína og naut, hún mun eta víntré þín og fíkjutré, hún mun brjóta niður með sverði hinar víggirtu borgir þínar, er þú reiðir þig á.
18 Þetta er það, sem ég minni þig á, barnið mitt, Tímóteus, með þau spádómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu,
19 í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni.
20 Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.
by Icelandic Bible Society