Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 106:40-48

40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.

41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.

42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.

43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.

44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.

45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar

46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.

47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.

48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.

Jeremía 10:17-25

17 Tak böggul þinn upp af jörðinni, þú sem situr umsetin.

18 Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég mun burt snara íbúum landsins í þetta sinn og þrengja að þeim til þess að þeir fái að kenna á því.

19 Vei mér vegna sárs míns, áverki minn er ólæknandi. Og þó hugsaði ég: Ef þetta er öll þjáningin, þá ber ég hana!

20 Tjald mitt er eyðilagt, öll tjaldstög mín slitin, synir mínir eru frá mér farnir og eru ekki framar til. Enginn er sá til, er reisi aftur tjald mitt og festi aftur upp tjalddúka mína.

21 Já, óskynsamir voru hirðarnir og Drottins leituðu þeir ekki. Fyrir því lánaðist þeim ekkert, og allri hjörð þeirra var tvístrað.

22 Heyr! Hávaði! Sjá, það færist nær, ógurlegt hark úr landinu norður frá til þess að gjöra Júdaborgir að auðn, að sjakalabæli.

23 Ég veit, Drottinn, að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.

24 Refsa oss, Drottinn, en þó í hófi, ekki í reiði þinni, til þess að þú gjörir ekki út af við oss.

25 Úthell heift þinni yfir heiðnu þjóðirnar, sem ekki þekkja þig, og yfir þær kynkvíslir, sem ekki ákalla nafn þitt, því að þær hafa etið Jakob, já, þær hafa etið hann og svelgt hann upp, og beitiland hans hafa þær eytt.

Lúkasarguðspjall 20:45-21:4

45 Í áheyrn alls lýðsins sagði hann við lærisveina sína:

46 "Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.

47 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."

21 Þá leit hann upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna.

Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga.

Þá sagði hann: "Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir.

Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society