Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
2 Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
3 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.
4 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?
5 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.
6 Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.
4 Þegar þú hverfur aftur, Ísrael _ segir Drottinn _ skalt þú hverfa aftur til mín. Ef þú flytur viðurstyggðir þínar burt frá augliti mínu og ert ekki framar á sveimi
2 og vinnur eiðinn "svo sannarlega sem Drottinn lifir" í sannleika, réttvísi og einlægni, munu þjóðir óska sér hans blessunar og hrósa sér af honum.
3 Já, svo segir Drottinn við Júdamenn og við Jerúsalem: Takið nýtt land til yrkingar og sáið ekki ofan í þyrna!
4 Umskerið yður fyrir Drottni og takið burt yfirhúð hjarta yðar, þér Júdamenn og Jerúsalembúar, svo að heiftarreiði mín brjótist ekki út, eins og eldur, og brenni svo, að eigi verði slökkt, sakir vonskuverka yðar.
5 Kunngjörið í Júda og boðið í Jerúsalem og segið: Þeytið lúður í landinu! Kallið fullum rómi og segið: Safnist saman, og förum inn í víggirtu borgirnar!
6 Reisið upp hermerki í áttina til Síonar, flýið undan, standið eigi við! Því að ég kem með ógæfu úr norðri og mikla eyðing.
7 Ljón er risið upp úr runni sínum, þjóða-eyðir lagður af stað, farinn að heiman til þess að gjöra land þitt að auðn, borgir þínar verða gjöreyddar, mannlausar.
8 Gyrðið yður því hærusekk, harmið og kveinið, því að hin brennandi reiði Drottins hefir ekki snúið sér frá oss.
9 En á þeim degi _ segir Drottinn _ munu konungurinn og höfðingjarnir standa ráðalausir, prestarnir verða agndofa og spámennirnir skelfast.
10 Þá mælti ég: "Æ, herra Drottinn! Vissulega hefir þú illa svikið þessa þjóð og Jerúsalem, þá er þú sagðir: ,Yður mun heill hlotnast!` þar sem sverðið gengur nú mjög nærri þeim."
2 En falsspámenn komu einnig upp meðal lýðsins. Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar, er smeygja munu inn háskalegum villukenningum og jafnvel afneita herra sínum, sem keypti þá, og leiða yfir sig sjálfa bráða glötun.
2 Margir munu fylgja ólifnaði þeirra, og sakir þeirra mun vegi sannleikans verða hallmælt.
3 Af ágirnd munu þeir með uppspunnum orðum hafa yður að féþúfu. En dómurinn yfir þeim er löngu felldur og fyrnist ekki og glötun þeirra blundar ekki.
4 Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins.
5 Ekki þyrmdi hann hinum forna heimi, en varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.
6 Hann brenndi borgirnar Sódómu og Gómorru til ösku og dæmdi þær til eyðingar og setti þær til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega.
7 En hann frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu.
8 Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði.
9 Þannig veit Drottinn, hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags,
10 einkum þá, sem í breytni sinni stjórnast af saurlífisfýsn og fyrirlíta drottinvald. Þessir fífldjörfu sjálfbirgingar skirrast ekki við að lastmæla tignum.
by Icelandic Bible Society