Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
8 Þá munu menn _ segir Drottinn _ taka bein Júdakonunga og bein Júdahöfðingja og bein prestanna og bein spámannanna og bein Jerúsalembúa úr gröfum þeirra,
2 og breiða þau út á móti sólinni og tunglinu og öllum her himinsins, er þeir elskuðu og þjónuðu og eltu og gengu til frétta við og féllu fram fyrir. Þeim verður ekki safnað saman og þau verða ekki grafin, þau skulu verða að áburði á akrinum.
3 Og allar leifarnar, þeir er eftir verða af þessari vondu kynslóð á öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið þá, munu heldur kjósa dauða en líf _ segir Drottinn allsherjar.
4 Seg því við þá: Svo segir Drottinn: Hvort falla menn og standa ekki upp aftur? Eða hverfa menn burt án þess að koma aftur?
5 Hvers vegna hefir þessi lýður horfið burt til ævarandi fráhvarfs? Þeir halda fast við svikin og vilja ekki hverfa aftur.
6 Ég tók eftir og heyrði: Þeir tala ósannindi, enginn iðrast illsku sinnar, svo að hann segi: "Hvað hefi ég gjört?" Allir hafa þeir gjörst fráhverfir í rásinni, eins og hestur, sem ryðst áfram í orustu.
7 Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir, og turtildúfan og svalan og tranan gefa gætur að tíma endurkomu sinnar, en lýður minn þekkir ekki rétt Drottins.
8 Hvernig getið þér sagt: "Vér erum vitrir og lögmál Drottins er hjá oss"? Víst er svo, en lygapenni fræðimannanna hefir gjört það að lygi.
9 Hinir vitru verða til skammar, þeir skelfast og verða gripnir, sjá, þeir hafa hafnað orði Drottins, hvaða visku hafa þeir þá?
10 Fyrir því mun ég selja konur þeirra öðrum á vald og sigurvegurunum lönd þeirra, því að bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi.
11 Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: "Heill, heill!" þar sem engin heill er.
12 Þeir munu hljóta að skammast sín fyrir að hafa framið svívirðing! En þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er að blygðast sín. Fyrir því munu þeir falla meðal þeirra, sem falla. Þegar minn tími kemur að hegna þeim, munu þeir steypast _ segir Drottinn.
13 Ég vil safna þeim saman eins og um uppskeru _ segir Drottinn _ en engin vínber eru á vínviðinum og engar fíkjur á fíkjutrénu, og laufið er fölnað. Vil ég því selja þá þeim á vald, er þá munu upp eta.
31 Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?
32 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum?
33 Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Guð sýknar.
34 Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá, sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir oss.
35 Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?
36 Það er eins og ritað er: Þín vegna erum vér deyddir allan daginn, erum metnir sem sláturfé.
37 Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss.
38 Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar,
39 hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.
by Icelandic Bible Society