Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!
2 Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!
3 Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!
4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!
32 Davíð sagði við Sál: "Enginn láti hugfallast! Þjónn þinn mun fara og berjast við Filista þennan."
33 Sál sagði við Davíð: "Þú ert ekki fær um að fara móti Filista þessum og berjast við hann, því að þú ert ungmenni, en hann hefir verið bardagamaður frá barnæsku sinni."
34 Davíð sagði við Sál: "Þjónn þinn gætti sauða hjá föður sínum. Ef þá kom ljón eða björn og tók kind úr hjörðinni,
35 þá hljóp ég á eftir honum og felldi hann og reif kindina úr gini hans, en ef hann réðst í móti mér, þreif ég í kampa hans og laust hann til bana.
36 Bæði ljón og björn hefir þjónn þinn drepið, og þessum óumskorna Filista skal reiða af eins og þeim, því að hann hefir smánað herfylkingar lifanda Guðs."
37 Og Davíð mælti: "Drottinn, sem frelsaði mig úr klóm ljónsins og úr klóm bjarnarins, hann mun frelsa mig af hendi þessa Filista." Þá mælti Sál við Davíð: "Far þú þá, og Drottinn mun vera með þér."
38 Og Sál færði Davíð í brynjukufl sinn og setti eirhjálm á höfuð honum og færði hann í brynju.
39 Og Davíð gyrti sig sverði sínu utan yfir brynjukuflinn og fór að ganga, því að hann hafði aldrei reynt það áður. Þá sagði Davíð við Sál: "Ég get ekki gengið í þessu, því að ég hefi aldrei reynt það áður." Og þeir færðu Davíð úr þessu,
40 en hann tók staf sinn í hönd sér og valdi sér fimm hála steina úr gilinu og lét þá í smalatöskuna, sem hann hafði með sér, í skreppuna, og tók sér slöngvu í hönd og gekk á móti Filistanum.
41 Filistinn gekk nær og nær Davíð, og maðurinn, sem bar skjöld hans, gekk á undan honum.
42 En er Filistinn leit til og sá Davíð, fyrirleit hann hann, af því að hann var ungmenni og rauðleitur og fríður sýnum.
43 Og Filistinn sagði við Davíð: "Er ég þá hundur, að þú kemur með staf á móti mér?" Og Filistinn formælti Davíð við guð sinn.
44 Og Filistinn mælti við Davíð: "Kom þú til mín, svo að ég gefi fuglum loftsins og dýrum merkurinnar hold þitt."
45 Davíð sagði við Filistann: "Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni Drottins allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað.
46 Í dag mun Drottinn gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið, og hræ þitt og hræin af her Filista mun ég í dag gefa fuglum loftsins og dýrum merkurinnar, svo að öll jörðin viðurkenni, að Guð er í Ísrael,
47 og til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að Drottinn veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er Drottins, og hann mun gefa yður í vorar hendur."
48 Og er Filistinn fór af stað og gekk fram og fór í móti Davíð, þá flýtti Davíð sér og hljóp að fylkingunni í móti Filistanum.
49 Og Davíð stakk hendi sinni ofan í smalatöskuna og tók úr henni stein og slöngvaði og hæfði Filistann í ennið, og steinninn festist í enni hans, og féll hann á grúfu til jarðar.
50 Þannig sigraði Davíð Filistann með slöngvu og steini og felldi hann og drap hann, og þó hafði Davíð ekkert sverð í hendi.
51 Þá hljóp Davíð að og gekk til Filistans, tók sverð hans og dró það úr slíðrum og drap hann og hjó af honum höfuðið með því. En er Filistar sáu, að kappi þeirra var dauður, lögðu þeir á flótta.
36 Nú voru þeir að tala um þetta, og þá stendur hann sjálfur meðal þeirra og segir við þá: "Friður sé með yður!"
37 En þeir skelfdust og urðu hræddir og hugðust sjá anda.
38 Hann sagði við þá: "Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar?
39 Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef."
40 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og fætur.
by Icelandic Bible Society