Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
14 Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi.
2 Hann rennur upp og fölnar eins og blóm, flýr burt eins og skuggi og hefir ekkert viðnám.
3 Og yfir slíkum heldur þú opnum augum þínum og dregur mig fyrir dóm hjá þér!
4 Hvernig ætti hreinn að koma af óhreinum? Ekki einn!
5 Ef dagar hans eru ákvarðaðir, tala mánaða hans tiltekin hjá þér, hafir þú ákveðið takmark hans, er hann fær eigi yfir komist,
6 þá lít þú af honum, til þess að hann fái hvíld, svo að hann megi fagna yfir degi sínum eins og daglaunamaður.
7 Því að tréð hefir von, sé það höggvið, þá skýtur það nýjum frjóöngum, og teinungurinn kemur áreiðanlega upp.
8 Jafnvel þótt rót þess eldist í jörðinni, og stofn þess deyi í moldinni,
9 þá brumar það við ilminn af vatninu, og á það koma greinar eins og unga hríslu.
10 En deyi maðurinn, þá liggur hann flatur, og gefi manneskjan upp andann _ hvar er hún þá?
11 Eins og vatnið hverfur úr stöðuvatninu og fljótið grynnist og þornar upp,
12 þannig leggst maðurinn til hvíldar og rís eigi aftur á fætur. Hann rumskar ekki, meðan himnarnir standa og vaknar ekki af svefninum.
13 Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum, fela mig, uns reiði þinni linnir, setja mér tímatakmark og síðan minnast mín!
14 Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar, þar til er lausnartíð mín kæmi.
3 Ég er maðurinn, sem eymd hefi reynt undir sprota reiði hans.
2 Mig hefir hann rekið og fært út í myrkur og niðdimmu.
3 Já, gegn mér snýr hann æ að nýju hendi sinni allan daginn.
4 Hann hefir tálgað af mér hold mitt og hörund, brotið sundur bein mín,
5 hlaðið hringinn í kringum mig fári og mæðu,
6 hneppt mig í myrkur eins og þá sem dánir eru fyrir löngu.
7 Hann hefir girt fyrir mig, svo að ég kemst ekki út, gjört fjötra mína þunga.
8 Þótt ég hrópi og kalli, hnekkir hann bæn minni.
9 Hann girti fyrir vegu mína með höggnum steinum, gjörði stigu mína ófæra.
19 Minnstu eymdar minnar og mæðu, malurtarinnar og eitursins.
20 Sál mín hugsar stöðugt um þetta og er döpur í brjósti mér.
21 Þetta vil ég hugfesta, þess vegna vil ég vona:
22 Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda,
23 hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín!
24 Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vil ég vona á hann.
31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,
3 hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.
4 Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.
15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"
16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.
4 Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega, er skilinn við synd,
2 hann lifir ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs.
3 Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.
4 Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður.
5 En þeir munu verða að gjöra reikningsskil þeim, sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða.
6 Því að til þess var og dauðum boðað fagnaðarerindið, að þeir, þótt dæmdir væru líkamlega með mönnum, mættu lifa í andanum með Guði.
7 En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna.
8 Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.
57 Um kvöldið kom auðugur maður frá Arímaþeu, Jósef að nafni, er sjálfur var orðinn lærisveinn Jesú.
58 Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú. Pílatus bauð þá að fá Jósef hann.
59 Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði
60 og lagði í nýja gröf, sem hann átti og hafði látið höggva í klett, velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór burt.
61 María Magdalena var þar og María hin, og sátu þær gegnt gröfinni.
62 Næsta dag, daginn eftir aðfangadag, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus
63 og sögðu: "Herra, vér minnumst þess, að svikari þessi sagði í lifanda lífi: ,Eftir þrjá daga rís ég upp.`
64 Bjóð því, að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: ,Hann er risinn frá dauðum.` Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri."
65 Pílatus sagði við þá: "Hér hafið þér varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þér kunnið."
66 Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.
38 Pílatus segir við hann: "Hvað er sannleikur?" Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinga og sagði við þá: "Ég finn enga sök hjá honum.
39 Þér eruð vanir því, að ég gefi yður einn mann lausan á páskunum. Viljið þér nú, að ég gefi yður lausan konung Gyðinga?"
40 Þeir hrópuðu á móti: "Ekki hann, heldur Barabbas." En Barabbas var ræningi.
by Icelandic Bible Society