Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jesaja 52:13-53:12

13 Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, hann mun verða mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn.

14 Eins og margir urðu agndofa af skelfingu yfir honum _ svo afskræmd var ásýnd hans framar en nokkurs manns og mynd hans framar en nokkurs af mannanna sonum _

15 eins mun hann vekja undrun margra þjóða, og konungar munu afturlykja munni sínum fyrir honum. Því að þeir munu sjá það, sem þeim hefir aldrei verið frá sagt, og verða þess áskynja, er þeir hafa aldrei heyrt.

53 Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur Drottins opinber?

Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti hans og sem rótarkvistur úr þurri jörð. Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann.

Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis.

En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan,

en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.

Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum.

Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum.

Með þrenging og dómi var hann burt numinn, og hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það? Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða.

Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans.

10 En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða.

11 Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast. Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti, þjónn minn, gjöra marga réttláta, og hann mun bera misgjörðir þeirra.

12 Fyrir því gef ég honum hina mörgu að hlutskipti, og hann mun öðlast hina voldugu að herfangi, fyrir það, að hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn. En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum.

Sálmarnir 22

22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.

"Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.

Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.

Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,

til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.

En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.

Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.

"Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"

10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.

11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.

12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.

13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.

14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.

15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;

16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.

17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.

18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,

19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.

20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,

21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.

22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!

23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!

24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!

25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.

26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.

27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.

28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.

30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,

31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,

32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.

Bréfið til Hebrea 10:16-25

16 Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá eftir þá daga, segir Drottinn. Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau.

17 Síðan segir hann: Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota.

18 En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.

19 Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið heilaga,

20 þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi inn í gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn.

21 Vér höfum mikinn prest yfir húsi Guðs.

22 Látum oss því ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum, sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni.

23 Höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið.

24 Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka.

25 Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.

Bréfið til Hebrea 4:14-16

14 Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna.

15 Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.

16 Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.

Bréfið til Hebrea 5:7-9

Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.

Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið.

Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis,

Jóhannesarguðspjall 18-19

18 Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: "Faðir, stundin er komin. Gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan.

Þú gafst honum vald yfir öllum mönnum, að hann gefi eilíft líf öllum þeim, sem þú hefur gefið honum.

En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.

Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.

Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.

Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum. Þeir voru þínir, og þú gafst mér þá, og þeir hafa varðveitt þitt orð.

Þeir vita nú, að allt, sem þú hefur gefið mér, er frá þér,

því ég hef flutt þeim þau orð, sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim og vita með sanni, að ég er frá þér út genginn, og trúa því, að þú hafir sent mig.

Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir,

10 og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn.

11 Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum, en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við.

12 Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar, svo að ritningin rættist.

13 Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum, til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn.

14 Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.

15 Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.

16 Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.

17 Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.

18 Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn.

19 Ég helga mig fyrir þá, svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika.

20 Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra,

21 að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.

22 Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt,

23 ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.

24 Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims.

25 Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig, og þessir vita, að þú sendir mig.

26 Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim."

19 Þegar Jesús hafði þetta mælt, fór hann út með lærisveinum sínum og yfir um lækinn Kedron. Þar var grasgarður, sem Jesús gekk inn í og lærisveinar hans.

Júdas, sem sveik hann, þekkti líka þennan stað, því Jesús og lærisveinar hans höfðu oft komið þar saman.

Júdas tók með sér flokk hermanna og verði frá æðstu prestum og faríseum. Þeir koma þar með blysum, lömpum og vopnum.

Jesús vissi allt, sem yfir hann mundi koma, gekk fram og sagði við þá: "Að hverjum leitið þér?"

Þeir svöruðu honum: "Að Jesú frá Nasaret." Hann segir við þá: "Ég er hann." En Júdas, sem sveik hann, stóð líka hjá þeim.

Þegar Jesús sagði við þá: "Ég er hann," hopuðu þeir á hæl og féllu til jarðar.

Þá spurði hann þá aftur: "Að hverjum leitið þér?" Þeir svöruðu: "Að Jesú frá Nasaret."

Jesús mælti: "Ég sagði yður, að ég væri hann. Ef þér leitið mín, þá lofið þessum að fara."

Þannig rættist orð hans, er hann hafði mælt: "Engum glataði ég af þeim, sem þú gafst mér."

10 Símon Pétur hafði sverð, brá því og hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað. Þjónninn hét Malkus.

11 Þá sagði Jesús við Pétur: "Sting sverðinu í slíðrin. Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?"

12 Hermennirnir, foringinn og varðmenn Gyðinga tóku nú Jesú höndum og bundu hann

13 og færðu hann fyrst til Annasar. Hann var tengdafaðir Kaífasar, sem var æðsti prestur það ár.

14 En Kaífas var sá sem gefið hafði Gyðingum það ráð, að betra væri, að einn maður dæi fyrir lýðinn.

15 Símon Pétur fylgdi Jesú og annar lærisveinn. Sá lærisveinn var kunnugur æðsta prestinum og fór með Jesú inn í hallargarð æðsta prestsins.

16 En Pétur stóð utan dyra. Hinn lærisveinninn, sem var kunnugur æðsta prestinum, kom út aftur, talaði við þernuna, sem dyra gætti, og fór inn með Pétur.

17 Þernan við dyrnar sagði þá við Pétur: "Ert þú ekki líka einn af lærisveinum þessa manns?" Hann sagði: "Ekki er ég það."

18 Þjónarnir og varðmennirnir höfðu kveikt kolaeld, því kalt var, og stóðu við hann og vermdu sig. Pétur stóð hjá þeim og ornaði sér.

19 Nú spurði æðsti presturinn Jesú um lærisveina hans og kenningu hans.

20 Jesús svaraði honum: "Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar safnast saman, en í leynum hef ég ekkert talað.

21 Hví spyr þú mig? Spyrðu þá, sem heyrt hafa, hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt."

22 Þegar Jesús sagði þetta, rak einn varðmaður, sem þar stóð, honum löðrung og sagði: "Svarar þú æðsta prestinum svona?"

23 Jesús svaraði honum: "Hafi ég illa mælt, þá sanna þú, að svo hafi verið, en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?"

24 Þá sendi Annas hann bundinn til Kaífasar æðsta prests.

25 En Símon Pétur stóð og vermdi sig. Hann var þá spurður: "Ert þú ekki líka einn af lærisveinum hans?" Hann neitaði því og sagði: "Ekki er ég það."

26 Þá sagði einn af þjónum æðsta prestsins, frændi þess, sem Pétur sneið af eyrað: "Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?"

27 Aftur neitaði Pétur, og um leið gól hani.

28 Nú var Jesús fluttur frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Gyðingar fóru ekki sjálfir inn í höllina, svo að þeir saurguðust ekki, heldur mættu neyta páskamáltíðar.

29 Pílatus kom út til þeirra og sagði: "Hvaða ákæru berið þér fram gegn þessum manni?"

30 Þeir svöruðu: "Ef þetta væri ekki illvirki, hefðum vér ekki selt hann þér í hendur."

31 Pílatus segir við þá: "Takið þér hann, og dæmið hann eftir yðar lögum." Gyðingar svöruðu: "Oss leyfist ekki að taka neinn af lífi."

32 Þannig rættist orð Jesú, þegar hann gaf til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.

33 Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: "Ert þú konungur Gyðinga?"

34 Jesús svaraði: "Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?"

35 Pílatus svaraði: "Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?"

36 Jesús svaraði: "Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan."

37 Þá segir Pílatus við hann: "Þú ert þá konungur?" Jesús svaraði: "Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd."

38 Pílatus segir við hann: "Hvað er sannleikur?" Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinga og sagði við þá: "Ég finn enga sök hjá honum.

39 Þér eruð vanir því, að ég gefi yður einn mann lausan á páskunum. Viljið þér nú, að ég gefi yður lausan konung Gyðinga?"

40 Þeir hrópuðu á móti: "Ekki hann, heldur Barabbas." En Barabbas var ræningi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society