Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.
15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.
19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.
21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.
24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.
16 Konungarnir fimm, er fyrr var getið, flýðu og leyndust í hellinum hjá Makeda.
17 Þá var Jósúa sagt svo frá: "Konungarnir fimm eru fundnir. Þeir leynast í hellinum hjá Makeda."
18 Þá sagði Jósúa: "Veltið stórum steinum fyrir hellismunnann og setjið menn við hann til að gæta þeirra.
19 En sjálfir skuluð þér eigi staðar nema. Veitið óvinum yðar eftirför, vinnið á þeim, sem aftastir fara, og látið þá ekki komast inn í borgir sínar, því að Drottinn, Guð yðar, hefir gefið þá yður á vald."
20 Er Jósúa og Ísraelsmenn höfðu unnið mikinn sigur á þeim, svo að þeir voru frá með öllu (en þeir af þeim, er undan höfðu komist, höfðu farið inn í víggirtu borgirnar),
21 þá sneri allt liðið aftur til Jósúa í herbúðirnar við Makeda heilu og höldnu. Þorði enginn framar orð að mæla gegn Ísraelsmönnum.
22 Þá sagði Jósúa: "Opnið hellismunnann og leiðið þessa fimm konunga út til mín úr hellinum."
23 Þeir gjörðu svo og leiddu þessa fimm konunga til hans úr hellinum: konunginn í Jerúsalem, konunginn í Hebron, konunginn í Jarmút, konunginn í Lakís og konunginn í Eglon.
24 Og er þeir höfðu leitt konunga þessa út til Jósúa, þá kallaði Jósúa saman alla menn í Ísrael og sagði við fyrirliða hermannanna, þá er með honum höfðu farið: "Komið hingað og stígið fæti á háls konungum þessum!" Þeir gengu þá fram og stigu fæti á háls þeim.
25 Þá sagði Jósúa við þá: "Óttist ekki og látið ekki hugfallast, verið hughraustir og öruggir, því að svo mun Drottinn fara með alla óvini yðar, er þér berjist við."
26 Eftir það lét Jósúa drepa þá, og er hann hafði líflátið þá, lét hann hengja þá á fimm tré, og þeir héngu á trjánum allt til kvelds.
27 En er komið var undir sólarlag, bauð Jósúa að taka þá ofan af trjánum. Þá köstuðu þeir þeim í hellinn, sem þeir höfðu leynst í, og báru síðan stóra steina fyrir hellismunnann, og eru þeir þar enn í dag.
6 Ekki hafið þér ástæðu til að stæra yður! Vitið þér ekki, að lítið súrdeig sýrir allt deigið?
7 Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig, enda eruð þér ósýrðir. Því að páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur.
8 Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.
by Icelandic Bible Society