Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 126

126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.

Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."

Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.

Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.

Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.

Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.

Önnur bók Móse 12:21-27

21 Þá stefndi Móse saman öllum öldungum Ísraelsmanna og sagði við þá: "Farið og takið yður sauðkindur handa heimilum yðar og slátrið páskalambinu.

22 Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni.

23 Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður.

24 Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín.

25 Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið.

26 Og þegar börn yðar segja við yður: ,Hvaða siður er þetta, sem þér haldið?`

27 þá skuluð þér svara: ,Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum."` Þá féll lýðurinn fram og tilbað.

Jóhannesarguðspjall 11:45-57

45 Margir Gyðingar, sem komnir voru til Maríu og sáu það, sem Jesús gjörði, tóku nú að trúa á hann.

46 En nokkrir þeirra fóru til farísea og sögðu þeim, hvað hann hafði gjört.

47 Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn.

48 Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð."

49 En einn þeirra, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: "Þér vitið ekkert

50 og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist."

51 Þetta sagði hann ekki af sjálfum sér, en þar sem hann var æðsti prestur það ár, gat hann spáð því, að Jesús mundi deyja fyrir þjóðina,

52 og ekki fyrir þjóðina eina, heldur og til að safna saman í eitt dreifðum börnum Guðs.

53 Upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka hann af lífi.

54 Jesús gekk því ekki lengur um meðal Gyðinga á almannafæri, heldur fór hann þaðan til staðar í grennd við eyðimörkina, í þorp sem heitir Efraím, og þar dvaldist hann með lærisveinum sínum.

55 Nú nálguðust páskar Gyðinga, og margir fóru úr sveitinni upp til Jerúsalem fyrir páskana til að hreinsa sig.

56 Menn leituðu að Jesú og sögðu sín á milli í helgidóminum: "Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?"

57 En æðstu prestar og farísear höfðu gefið út skipun um það, að ef nokkur vissi hvar hann væri, skyldi hann segja til, svo að þeir gætu tekið hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society