Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
12 Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið:
2 "Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður.
3 Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: ,Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili.
4 En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið.
5 Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið.
6 Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur.
7 Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið.
8 Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það.
9 Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innýflum.
10 Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi.
11 Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins.
12 Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn.
13 Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland.
14 Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli.`
116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.
12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?
13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.
14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.
15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.
16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.
17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.
18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,
19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.
23 Því að ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð,
24 gjörði þakkir, braut það og sagði: "Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu."
25 Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu."
26 Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.
13 Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi, að stund hans var kominn og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk.
2 Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi Símonarsyni Ískaríots að svíkja Jesú.
3 Jesús vissi, að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara til Guðs.
4 Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig.
5 Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum, sem hann hafði um sig.
6 Hann kemur þá að Símoni Pétri, sem segir við hann: "Herra, ætlar þú að þvo mér um fæturna?"
7 Jesús svaraði: "Nú skilur þú ekki, hvað ég er að gjöra, en seinna muntu skilja það."
8 Pétur segir við hann: "Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína." Jesús svaraði: "Ef ég þvæ þér ekki, áttu enga samleið með mér."
9 Símon Pétur segir við hann: "Herra, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið."
10 Jesús segir við hann: "Sá sem laugast hefur, þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þér eruð hreinir, þó ekki allir."
11 Hann vissi, hver mundi svíkja hann, og því sagði hann: "Þér eruð ekki allir hreinir."
12 Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og setst aftur niður, sagði hann við þá: "Skiljið þér, hvað ég hef gjört við yður?
13 Þér kallið mig meistara og herra, og þér mælið rétt, því það er ég.
14 Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur.
15 Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.
16 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim, er sendi hann.
17 Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því.
31 Þegar hann var farinn út, sagði Jesús: "Nú er Mannssonurinn dýrlegur orðinn, og Guð er orðinn dýrlegur í honum.
32 Fyrst Guð er orðinn dýrlegur í honum, mun Guð og gjöra hann dýrlegan í sér, og skjótt mun hann gjöra hann dýrlegan.
33 Börnin mín, stutta stund verð ég enn með yður. Þér munuð leita mín, og eins og ég sagði Gyðingum, segi ég yður nú: Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist.
34 Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.
35 Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars."
by Icelandic Bible Society