Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
4 Orð Drottins kom til mín:
5 Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig. Ég hefi ákvarðað þig til að vera spámann þjóðanna!
6 Þá sagði ég: Æ, herra Drottinn! Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.
7 En Drottinn sagði við mig: Seg ekki: "Ég er enn svo ungur!" heldur skalt þú fara til allra, sem ég sendi þig til, og tala allt það, er ég býð þér.
8 Þú skalt ekki óttast þá, því að ég er með þér til þess að frelsa þig! _ segir Drottinn.
9 Því næst rétti Drottinn út hönd sína og snart munn minn. Og Drottinn sagði við mig: Sjá, ég legg orð mín þér í munn.
10 Sjá þú, ég set þig í dag yfir þjóðirnar og yfir konungsríkin til þess að uppræta og umturna, eyða og rífa niður, byggja og gróðursetja!
71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.
2 Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.
3 Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.
4 Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.
5 Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.
6 Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.
18 Þér eruð ekki komnir til fjalls, sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris
19 og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir, sem hana heyrðu, báðust undan því að meira væri til sín talað.
20 Því að þeir þoldu ekki það, sem fyrir var skipað: "Þó að það sé ekki nema skepna, sem kemur við fjallið, skal hún grýtt verða."
21 Svo ógurlegt var það, sem fyrir augu bar, að Móse sagði: "Ég er mjög hræddur og skelfdur."
22 Nei, þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla,
23 til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, dómara allra, og til anda réttlátra, sem fullkomnir eru orðnir,
24 og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins, sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels.
25 Gætið þess, að þér hafnið ekki þeim sem talar. Þeir, sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu, komust ekki undan. Miklu síður munum vér undan komast, ef vér gjörumst fráhverfir honum, er guðlega bendingu gefur frá himnum.
26 Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: "Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina, heldur og himininn."
27 Orðin: "Enn einu sinni", sýna, að það, sem bifast, er skapað og hverfur, til þess að það standi stöðugt, sem eigi bifast.
28 Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta.
29 Því að vor Guð er eyðandi eldur.
10 Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni.
11 Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið haldin sjúkleiks anda og var kreppt og alls ófær að rétta sig upp.
12 Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: "Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!"
13 Þá lagði hann hendur yfir hana, og jafnskjótt réttist hún og lofaði Guð.
14 En samkundustjórinn reiddist því, að Jesús læknaði á hvíldardegi, og mælti til fólksins: "Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna yður og ekki á hvíldardegi."
15 Drottinn svaraði honum: "Hræsnarar, leysir ekki hver yðar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns?
16 En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?"
17 Við þessi orð hans urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir, en allur lýður fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum, er hann gjörði.
by Icelandic Bible Society