Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 60

60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,

þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.

Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.

Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.

Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.

Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]

Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

Hósea 14

14 Samaría fær að gjalda þess, að hún hefir sett sig upp á móti Guði sínum. Fyrir sverði skulu þeir falla, ungbörnum þeirra skal slegið verða niður við og þungaðar konur þeirra ristar verða á kvið.

Snú þú við, Ísrael, til Drottins, Guðs þíns, því að þú steyptist fyrir misgjörð þína.

Takið orð með yður og hverfið aftur til Drottins. Segið við hann: "Fyrirgef með öllu misgjörð vora og ver góður, og vér skulum greiða þér ávöxt vara vorra.

Assýría skal eigi framar hjálpa oss, vér viljum eigi ríða stríðshestum og eigi framar segja ,Guð vor` við verk handa vorra. Því að hjá þér hlýtur hinn munaðarlausi líkn!"

Ég vil lækna fráhvarf þeirra, elska þá af frjálsum vilja, því að reiði mín hefir snúið sér frá þeim.

Ég vil verða Ísrael sem döggin, hann skal blómgast sem lilja og skjóta rótum sem Líbanonsskógur.

Frjóangar hans skulu breiðast út og toppskrúðið verða sem á olíutré og ilmur hans verða sem Líbanonsilmur.

Þeir sem búa í skugga hans, skulu aftur rækta korn og blómgast eins og vínviður. Þeir skulu verða eins nafntogaðir og vínið frá Líbanon.

Hvað á Efraím framar saman við skurðgoðin að sælda? Ég hefi bænheyrt hann, ég lít til hans. Ég er sem laufgrænt kýprestré. Það mun í ljós koma, að ávextir þínir eru frá mér komnir.

Lúkasarguðspjall 12:22-31

22 Og hann sagði við lærisveina sína: "Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast.

23 Lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin.

24 Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu, og Guð fæðir þá. Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum!

25 Og hver yðar getur með áhyggjum aukið spönn við aldur sinn?

26 Fyrst þér nú orkið ekki svo litlu, hví látið þér allt hitt valda yður áhyggjum?

27 Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.

28 Fyrst Guð skrýðir svo grasið á vellinum, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, hve miklu fremur mun hann þá klæða yður, þér trúlitlir!

29 Hafið ekki hugann við, hvað þér eigið að eta og hvað að drekka, og kvíðið engu.

30 Allt þetta stunda heiðingjar heimsins, en faðir yðar veit, að þér þarfnist þessa.

31 Leitið heldur ríkis hans, og þá mun þetta veitast yður að auki.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society