Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.
2 Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.
3 Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.
4 Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:
5 "Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."
6 Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]
7 "Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn!
8 Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.
22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.
23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."
18 Því að hið óguðlega athæfi brennur eins og eldur, eyðir þyrnum og þistlum og kveikir í þykkum skógarrunnum, svo að þeir hvirflast upp í reykjarmökk.
19 Vegna reiði Drottins allsherjar stendur landið í björtu báli og fólkið verður sem eldsmatur; enginn þyrmir öðrum.
20 Menn rífa í sig til hægri handar og eru þó hungraðir. Þeir eta til vinstri handar og verða þó eigi saddir. Hver etur holdið af sínum eigin armlegg:
21 Manasse Efraím og Efraím Manasse, og báðir saman ráða þeir á Júda. Allt fyrir þetta linnir ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.
10 Vei þeim, sem veita ranga úrskurði og færa skaðsemdarákvæði í letur
2 til þess að halla rétti fátækra og ræna lögum hina nauðstöddu á meðal fólks míns, til þess að ekkjurnar verði þeim að herfangi og þeir fái féflett munaðarleysingjana.
3 Hvað ætlið þér að gjöra á degi hegningarinnar og þegar eyðingin kemur úr fjarska? Til hvers viljið þér þá flýja um ásjá? Og hvar viljið þér geyma auðæfi yðar?
4 Er nokkuð annað fyrir hendi en að falla á kné meðal hinna fjötruðu eða hníga meðal hinna vegnu? Allt fyrir þetta linnir ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.
7 Þá spurði æðsti presturinn: "Er þessu svo farið?"
2 Stefán svaraði: "Heyrið mig, bræður og feður. Guð dýrðarinnar birtist föður vorum, Abraham, er hann var enn í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran,
3 og sagði við hann: ,Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins, sem ég mun vísa þér á.`
4 Þá fór hann burt úr Kaldealandi og settist að í Haran. En eftir lát föður hans leiddi Guð hann þaðan til þessa lands, sem þér nú byggið.
5 Ekki gaf hann honum óðal hér, ekki eitt fótmál. En hann hét honum að gefa honum landið til eignar og niðjum hans eftir hann, þótt hann væri enn barnlaus.
6 Guð sagði, að niðjar hans mundu búa sem útlendingar í ókunnu landi og verða þjáðir og þrælkaðir í fjögur hundruð ár.
7 ,En þjóðina, sem þrælkar þá, mun ég dæma,` sagði Guð, ,og eftir það munu þeir fara þaðan og þjóna mér á þessum stað.`
8 Þá gaf hann honum sáttmála umskurnarinnar. Síðan gat Abraham Ísak og umskar hann á áttunda degi, og Ísak gat Jakob og Jakob ættfeðurna tólf.
by Icelandic Bible Society