Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?
2 Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.
3 Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!
4 Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.
5 Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,
6 höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.
7 Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.
8 Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.
9 Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.
10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?
11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?
12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.
13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,
14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.
15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.
16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.
17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.
18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.
19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.
20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.
21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.
22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.
23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.
27 Á þeim degi mun Drottinn með hinu harða, mikla og sterka sverði sínu hegna Levjatan, hinum flughraða dreka, Levjatan, hinum bugðótta dreka, og bana sjóskrímslinu.
2 Á þeim degi skuluð þér kveða um hinn yndislega víngarð:
3 Ég, Drottinn, er vörður hans, ég vökva hann á hverri stundu. Ég gæti hans nótt og dag, til þess að enginn vinni þar spell.
4 Mér er ekki reiði í hug, en finni ég þyrna og þistla ræðst ég á þá og brenni þá til ösku _
5 nema menn leiti hælis hjá mér og gjöri frið við mig, gjöri frið við mig.
6 Á komandi tímum mun Jakob festa rætur, Ísrael blómgast og frjóvgast, og þeir munu fylla jarðarkringluna með ávöxtum.
7 Hefir Drottinn lostið lýðinn annað eins högg og það, er hann lýstur þá, sem lustu hann? Eða hefir Ísrael myrtur verið, eins og banamenn hans eru myrtir?
8 Með því að reka lýðinn frá þér, með því að láta hann frá þér, hegnir þú honum. Hann hreif hann burt með hinum hvassa vindi sínum, þegar austanstormurinn geisaði.
9 Þess vegna verður misgjörð Jakobs með því afplánuð og með því er synd hans algjörlega burt numin, að hann lætur alla altarissteinana verða sem brotna kalksteina, svo að asérurnar og sólsúlurnar rísa ekki upp framar.
10 Hin víggirta borg er komin í eyði, eins og mannauður og yfirgefinn áfangastaður í eyðimörkinni. Kálfar ganga þar á beit og liggja þar og bíta þar kvisti.
11 Þegar greinarnar þorna, eru þær brotnar, konur koma og kveikja eld við þær. Því að hún var óvitur þjóð, fyrir því getur hann, sem skóp hana, ekki verið henni miskunnsamur, og hann, sem myndaði hana, ekki verið henni líknsamur.
12 Á þeim degi mun Drottinn slá kornið úr axinu, allt í frá straumi Efrats til Egyptalandsár, og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn!
13 Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja Drottin á fjallinu helga í Jerúsalem.
45 Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja
46 og mælti við þá: "Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli."
47 Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum,
48 en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann.
by Icelandic Bible Society