Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
11 Þegar Ísrael var ungur, fékk ég ást á honum, og frá Egyptalandi kallaði ég son minn.
2 Þegar ég kallaði á þá, fóru þeir burt frá mér. Þeir færðu Baölunum sláturfórnir og skurðgoðunum reykelsisfórnir.
3 Ég kenndi Efraím að ganga og tók þá á arma mér. En þeir urðu þess ekki varir, að ég læknaði þá.
4 Með böndum, slíkum sem þeim er menn nota, dró ég þá að mér, með taugum kærleikans, og fór að þeim eins og sá sem lyftir upp okinu á kjálkunum og rétti þeim fæðu.
5 Þeir skulu snúa aftur til Egyptalands, og Assýringar munu drottna yfir þeim, því að þeir vilja ekki taka sinnaskiptum.
6 Því skal og sverðið geisa í borgum þeirra og eyðileggja slagbranda þeirra og eyða virkjum þeirra.
7 Lýður minn hefir stöðuga tilhneiging til þess að snúa við mér bakinu, og þótt kallað sé til þeirra: "Upp á við!" þá hefur enginn sig upp.
8 Hvernig ætti ég að sleppa hendi af þér, Efraím, ofurselja þig, Ísrael? Ætti ég að fara með þig eins og Adma, útleika þig eins og Sebóím! Hjartað kemst við í brjósti mér, ég kenni brennheitrar meðaumkunar.
9 Ég vil ekki framkvæma heiftarreiði mína, ekki aftur eyðileggja Efraím. Því að ég er Guð, en ekki maður. Ég bý á meðal yðar sem heilagur Guð og kem ekki til yðar í bræði.
10 Þeir munu fylgja Drottni, sem öskra mun eins og ljón. Já, hann mun öskra, og synir munu koma skjálfandi úr vestri.
11 Þeir munu koma skjálfandi frá Egyptalandi, eins og fuglar, og eins og dúfur frá Assýríu. Þá vil ég láta þá búa í húsum sínum _ segir Drottinn.
107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum
3 og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.
4 Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,
5 þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.
6 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra
7 og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.
8 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
9 því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.
43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.
3 Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs.
2 Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er.
3 Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði.
4 Þegar Kristur, sem er líf yðar, opinberast, þá munuð þér og ásamt honum opinberast í dýrð.
5 Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.
6 Af þessu kemur reiði Guðs [yfir þá, sem hlýða honum ekki].
7 Meðal þeirra voruð og þér áður, þegar þér lifðuð í þessum syndum.
8 En nú skuluð þér segja skilið við allt þetta: Reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.
9 Ljúgið ekki hver að öðrum, því þér hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans
10 og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.
11 Þar er ekki grískur maður eða Gyðingur, umskorinn eða óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll eða frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum.
13 Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: "Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum."
14 Hann svaraði honum: "Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?"
15 Og hann sagði við þá: "Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé."
16 Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: "Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt.
17 Hann hugsaði með sér: ,Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.`
18 Og hann sagði: ,Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum.
19 Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.`
20 En Guð sagði við hann: ,Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?`
21 Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði."
by Icelandic Bible Society