Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?
2 Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.
3 Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!
4 Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.
5 Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,
6 höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.
7 Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.
8 Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.
9 Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.
10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?
11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?
12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.
13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,
14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.
15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.
16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.
17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.
18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.
19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.
20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.
21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.
22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.
23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.
24 Fyrir því, eins og eldsloginn eyðir stráinu og heyið hnígur í bálið, svo skal rót þeirra fúna og blóm þeirra feykjast sem ryk, af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins allsherjar og fyrirlitið orð Hins heilaga í Ísrael.
25 Þess vegna bálaðist reiði Drottins í gegn lýð hans, og hann rétti út hönd sína móti honum og laust hann, og fjöllin skulfu og líkin lágu sem sorp á strætum. Allt fyrir það linnir ekki reiði hans og hönd hans er enn þá útrétt.
26 Drottinn reisir hermerki fyrir fjarlæga þjóð og blístrar á hana frá ystu landsálfu, og sjá, hún kemur fljót og frá.
27 Enginn er þar móður og engum skrikar fótur, enginn blundar né tekur á sig náðir, engum þeirra losnar belti frá lendum, og ekki slitnar skóþvengur nokkurs þeirra.
28 Örvar þeirra eru hvesstar og allir bogar þeirra bentir. Hófarnir á hestum þeirra eru sem tinna og vagnhjól þeirra sem vindbylur.
29 Öskur þeirra er sem ljónsöskur, þeir öskra sem ung ljón. Þeir grenja, grípa herfangið og hafa það á burt, og enginn fær bjargað.
30 Á þeim degi munu þeir koma grenjandi í móti þjóðinni eins og ólgandi brim. Ef horft er yfir landið, er þar skelfilegt myrkur, og dagsbirtan er myrkvuð af dimmum skýjum.
44 Vitnisburðartjaldbúðina höfðu feður vorir í eyðimörkinni. Hún var gjörð eins og sá bauð, er við Móse mælti, eftir þeirri fyrirmynd, sem Móse sá.
45 Við henni tóku og feður vorir, fluttu hana með Jósúa inn í landið, sem þeir tóku til eignar af heiðingjunum, er Guð rak brott undan þeim. Stóð svo allt til daga Davíðs.
46 Hann fann náð hjá Guði og bað, að hann mætti finna bústað fyrir Jakobs Guð.
47 En Salómon reisti honum hús.
48 En eigi býr hinn hæsti í því, sem með höndum er gjört. Spámaðurinn segir:
49 Himinninn er hásæti mitt og jörðin skör fóta minna. Hvaða hús munuð þér reisa mér, segir Drottinn, eða hver er hvíldarstaður minn?
50 Hefur ekki hönd mín skapað allt þetta?
51 Þér harðsvíraðir og óumskornir í hjörtum og á eyrum, þér standið ávallt gegn heilögum anda, þér eins og feður yðar.
52 Hver var sá spámaður, sem feður yðar ofsóttu eigi? Þeir drápu þá, er boðuðu fyrirfram komu hins réttláta, og nú hafið þér svikið hann og myrt.
53 Þér sem lögmálið fenguð fyrir umsýslan engla, en hafið þó eigi haldið það."
by Icelandic Bible Society