Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
83 Ljóð. Asafs-sálmur.
2 Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!
3 Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,
4 þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.
5 Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"
6 Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:
7 Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,
8 Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.
9 Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]
10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,
11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.
12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,
13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."
14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.
15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,
16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.
17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!
18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,
19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.
31 Barsillaí Gíleaðíti kom og frá Rógelím og fór með konungi til Jórdan til þess að fylgja honum yfir Jórdan.
32 En Barsillaí var gamall mjög, áttræður að aldri. Hafði hann birgt konung að vistum, meðan hann dvaldist í Mahanaím, því að hann var maður vellauðugur.
33 Þá mælti konungur við Barsillaí: "Þú skalt með mér fara, og mun ég ala önn fyrir þér í ellinni hjá mér í Jerúsalem."
34 Barsillaí svaraði konungi: "Hversu mörg æviár á ég enn ólifuð, að ég skyldi fara með konungi til Jerúsalem?
35 Ég stend nú á áttræðu. Má ég lengur greina milli góðs og ills, eða mun þjónn þinn finna bragð af því, sem ég et og drekk, eða fæ ég lengur heyrt rödd söngvaranna og söngmeyjanna? Hví skyldi þjónn þinn lengur vera mínum herra konunginum til byrði?
36 Þjónn þinn vildi fylgja konunginum spölkorn, en hví vill konungur endurgjalda mér verk þetta?
37 Leyf þjóni þínum að snúa aftur, svo að ég megi deyja í borg minni, hjá gröf föður míns og móður. En hér er þjónn þinn Kímham, fari hann með mínum herra konunginum, gjör við hann slíkt er þér líkar!"
38 Þá mælti konungur: "Kímham skal með mér fara, og mun ég við hann gjöra slíkt er þér líkar, og hvað það er þú beiðist af mér, mun ég veita þér."
39 Nú fór allt liðið yfir Jórdan. Þá fór og konungur yfir. Og konungur minntist við Barsillaí og bað hann vel fara, en hann sneri aftur heim til sín.
40 Því næst fór konungur til Gilgal, og fór Kímham með honum. Allt lið Júdamanna fór með konungi, svo og helmingur af Ísraelsliðinu.
41 Og sjá, allir Ísraelsmenn komu til konungs, og þeir sögðu við konung: "Hví hafa bræður vorir, Júdamenn, stolið þér og farið með konunginn og fólk hans yfir Jórdan, og alla menn Davíðs með honum?"
42 Þá sögðu allir Júdamenn við Ísraelsmenn: "Konungur er oss skyldur. Hví reiðist þér af þessu? Höfum vér etið nokkuð af eigum konungs eða höfum vér numið hann burt?"
43 Þá svöruðu Ísraelsmenn Júdamönnum og sögðu: "Vér eigum tíu hluti í konunginum. Auk þess erum vér frumgetningurinn, en þér ekki. Hví hafið þér lítilsvirt oss? Og komum vér ekki fyrstir fram með þá ósk að færa konung heim aftur?" Og ummæli Júdamanna voru harðari en ummæli Ísraelsmanna.
10 En bölvun hvílir á öllum þeim, sem byggja á lögmálsverkum, því að ritað er: "Bölvaður er sá, sem ekki heldur fast við allt það, sem í lögmálsbókinni er ritað, og breytir eftir því."
11 En það er augljóst að fyrir Guði réttlætist enginn með lögmáli, því að "hinn réttláti mun lifa fyrir trú."
12 En lögmálið spyr ekki um trú. Það segir: "Sá, sem breytir eftir boðum þess, mun lifa fyrir þau."
13 Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins með því að verða bölvun fyrir oss, því að ritað er: "Bölvaður er hver sá, sem á tré hangir."
14 Þannig skyldi heiðingjunum hlotnast blessun Abrahams í Kristi Jesú, og vér öðlast fyrir trúna andann, sem fyrirheitið var.
by Icelandic Bible Society