Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 68:1-10

68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.

Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.

En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.

Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.

Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.

Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.

Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]

þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.

10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.

Sálmarnir 68:19-20

19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.

20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]

Jobsbók 24:9-25

Menn slíta föðurleysingjana af brjóstinu og taka veð af hinum bágstöddu.

10 Naktir ganga þeir, klæðlausir, og hungraðir bera þeir kornbundin.

11 Í olífugörðum annarra pressa þeir olíu, troða vínlagarþrór og kveljast af þorsta.

12 Úr borgunum heyrast stunur deyjandi manna, sálir hinna drepnu hrópa á hefnd, en Guð gefur ekki gaum að óhæfunni.

13 Slíkir menn eru ljósfjendur orðnir, þeir þekkja ekki vegu hans og halda sig ekki á stigum hans.

14 Með morgunsárinu fer morðinginn á fætur og drepur hinn volaða og snauða, og á nóttunni læðist þjófurinn.

15 Og auga hórkarlsins bíður eftir rökkrinu, og hann segir: "Ekkert auga sér mig," og dregur skýlu fyrir andlitið.

16 Í myrkrinu brjótast þeir inn í hús, á daginn loka þeir sig inni, þeir þekkja ekki ljósið.

17 Því að öllum er þeim niðamyrkrið morgunn, því að þeir eru nákunnugir skelfingum niðamyrkursins.

18 Fljótt berst hann burt með straumnum, bölvaður verður erfðahluti hans í landinu, hann snýr eigi framar á leið til víngarðanna.

19 Þurrkur og hiti hrífa snjóvatnið burt, Hel þann, er svo hefir syndgað.

20 Móðurskautið gleymir honum, ormarnir gæða sér á honum. Hans er eigi framar minnst, og ranglætið verður brotið sundur eins og tré,

21 hann sem rændi óbyrjuna, er ekki fæddi, og enga velgjörð sýndi ekkjunni.

22 En Guð heldur samt hinum volduga við með mætti sínum, slíkur maður rís aftur upp, þótt hann væri tekinn að örvænta um lífið.

23 Guð veitir honum að lifa óhultur, og hann er studdur, og augu hans vaka yfir vegum hans.

24 Hátt standa þeir, en eftir stundarkorn eru þeir horfnir. Þeir hníga, þeir eru hrifnir burt eins og allir aðrir og sviðnir af eins og höfuð kornaxins.

25 Og ef það er eigi svo, _ hver vill þá sanna, að ég sé lygari, og gjöra ræðu mína að engu?

Bréf Páls til Galatamanna 2:11-14

11 En þegar Kefas kom til Antíokkíu, andmælti ég honum upp í opið geðið, því hann var sannur að sök.

12 Áður en menn nokkrir komu frá Jakob, hafði hann setið að borði með heiðingjunum, en er þeir komu, dró hann sig í hlé og tók sig út úr af ótta við þá, sem héldu fram umskurninni.

13 Hinir Gyðingarnir tóku einnig að hræsna með honum, svo að jafnvel Barnabas lét dragast með af hræsni þeirra.

14 En þegar ég sá, að þeir gengu ekki beint eftir sannleika fagnaðarerindisins, sagði ég við Kefas í allra áheyrn: "Úr því að þú, sem ert Gyðingur, lifir að heiðingja siðum, en eigi Gyðinga, hvernig ferst þér þá að neyða heiðingja til að lifa að Gyðinga siðum?"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society