Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 5:1-8

Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.

Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.

Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.

Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.

Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.

Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.

Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.

En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.

Fyrri bók konunganna 20:1-22

20 Benhadad konungur á Sýrlandi dró saman allan her sinn. Voru þrjátíu og tveir konungar með honum, með hestum og vögnum, og hann fór, settist um Samaríu og gjörði áhlaup á hana.

Og hann sendi menn til Akabs Ísraelskonungs inn í borgina

og lét segja honum: "Svo segir Benhadad: Silfur þitt og gull er mitt, svo og hinar fegurstu konur þínar og synir."

Ísraelskonungur svaraði og sagði: "Eins og þú vilt vera láta, minn herra konungur. Ég er þinn og allt, sem ég á."

Og sendimennirnir komu aftur og sögðu: "Svo segir Benhadad: Ég hefi gjört þér þessa orðsending: Þú skalt gefa mér silfur þitt og gull, konur þínar og sonu.

Þegar ég á morgun í þetta mund sendi menn mína til þín, munu þeir rannsaka hús þitt og hús þinna manna, og skulu þeir taka og hafa á burt með sér sérhvað það, sem þeir ágirnast."

Þá kallaði Ísraelskonungur alla öldunga landsins fyrir sig og mælti: "Hyggið að og sjáið, að hann býr yfir illu, því að hann sendi til mín eftir konum mínum og sonum, silfri mínu og gulli, og synjaði ég honum þess ekki."

Þá sögðu allir öldungarnir og allur lýðurinn við hann: "Gegn þú eigi þessu og samþykk þú það eigi."

Þá sagði Akab við sendimenn Benhadads: "Segið mínum herra konunginum: Allt það, sem þú gjörðir þjóni þínum orð um í fyrstu, vil ég gjöra, en þetta get ég ekki gjört." Þá fóru sendimennirnir og færðu honum svarið.

10 Þá sendi Benhadad til hans og lét segja: "Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja, nú og síðar: Rykið í Samaríu mun eigi nægja til þess að fylla lúkurnar á öllu þessu liði, sem með mér er."

11 En Ísraelskonungur svaraði og sagði: "Segið honum: Eigi skyldi sá, er hervæðist, hrósa sér sem sá, er leggur af sér vopnin."

12 Þegar Benhadad heyrði þetta svar, þar sem hann sat að drykkju með konungunum í laufskálunum, mælti hann til sinna manna: "Færið fram hervélarnar." Og þeir færðu þær fram gegnt borginni.

13 En spámaður nokkur gekk fyrir Akab Ísraelskonung og mælti: "Svo segir Drottinn: Sér þú allan þennan mikla manngrúa? Hann gef ég þér í hendur í dag, svo að þú viðurkennir, að ég er Drottinn."

14 Þá mælti Akab: "Fyrir hvers fulltingi?" Spámaðurinn svaraði: "Svo segir Drottinn: Fyrir fulltingi sveina héraðshöfðingjanna." Þá spurði Akab: "Hver á að hefja orustuna?" Hinn svaraði: "Þú."

15 Þá kannaði Akab sveina héraðshöfðingjanna, og voru þeir tvö hundruð þrjátíu og tveir. Og að því búnu kannaði hann allt liðið, alla Ísraelsmenn, sjö þúsund manns.

16 Um hádegið réðu þeir til útgöngu, en Benhadad sat þá ölvaður að drykkju í laufskálunum, hann og þeir þrjátíu og tveir konungar, er komnir voru honum til liðs.

17 Sveinar héraðshöfðingjanna fóru fremstir. Þá sendi Benhadad menn til að njósna. Þeir sögðu honum svo frá: "Menn fara út frá Samaríu."

18 Þá sagði hann: "Hvort sem þeir fara út til þess að biðjast friðar eða til þess að berjast, þá takið þá höndum lifandi."

19 Og er sveinar héraðshöfðingjanna og liðið, sem þeim fylgdi, fóru út af borginni

20 drápu þeir hver sinn mann. Flýðu þá Sýrlendingar, en Ísraelsmenn eltu þá. Og Benhadad Sýrlandskonungur komst undan á vagnhesti með nokkra riddara.

21 En Ísraelskonungur fór út og náði hestunum og vögnunum. Og hann vann mikinn sigur á Sýrlendingum.

22 Þá gekk spámaður fyrir Ísraelskonung og mælti til hans: "Ver hugrakkur og hygg vandlega að, hvað þú skulir gjöra, því að næsta ár mun Sýrlandskonungur fara með her á hendur þér."

Hið almenna bréf Jakobs 4:1-7

Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar?

Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki, af því að þér biðjið ekki.

Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði!

Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.

Eða haldið þér að ritningin fari með hégóma, sem segir: "Þráir Guð ekki með afbrýði andann, sem hann gaf bústað í oss?"

En því meiri er náðin, sem hann gefur. Þess vegna segir ritningin: "Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð."

Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society