Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
5 Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.
2 Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.
3 Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.
4 Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.
5 Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.
6 Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.
7 Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.
8 En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.
35 Maður nokkur af spámannasveinunum sagði við félaga sinn eftir orði Drottins: "Slá þú mig!" En maðurinn færðist undan að slá hann.
36 Þá sagði spámaðurinn við hann: "Sökum þess að þú hlýddir ekki raust Drottins, þá mun ljón ljósta þig jafnskjótt og þú gengur burt frá mér." Og er hann gekk í burt frá honum, mætti ljón honum og drap hann.
37 Og spámaðurinn hitti annan mann og mælti: "Slá þú mig!" Og maðurinn sló hann, svo að hann varð sár.
38 Síðan fór spámaðurinn burt og gekk í veg fyrir konung og gjörði sig ókennilegan með því að binda fyrir augun.
39 En er konungur fór fram hjá, kallaði hann til konungs og mælti: "Þjónn þinn fór í bardagann. Þá gekk maður fram úr fylkingunni, færði mér mann og sagði: ,Geymdu þennan mann. Komist hann í burt, þá skal líf þitt við liggja, eða þú skalt greiða talentu silfurs.`
40 En svo fór, að þar sem þjónn þinn hafði í hinu og þessu að snúast, þá varð maðurinn allur á burtu." Ísraelskonungur sagði við hann: "Það er þinn dómur. Þú hefir sjálfur kveðið hann upp."
41 Þá tók hann í skyndi bandið frá augunum, og Ísraelskonungur þekkti hann, að hann var einn af spámönnunum.
42 Spámaðurinn mælti þá til hans: "Svo segir Drottinn: Sökum þess að þú slepptir þeim manni úr hendi þér, sem ég hafði banni helgað, þá skal líf þitt koma fyrir hans líf og þín þjóð fyrir hans þjóð."
43 Og Ísraelskonungur hélt heim til sín, hryggur og reiður, og kom til Samaríu.
17 Dag nokkurn var hann að kenna. Þar sátu farísear og lögmálskennendur, komnir úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Drottins var með honum til þess að lækna.
18 Komu þá menn með lama mann í rekkju og reyndu að bera hann inn og leggja hann fyrir framan Jesú.
19 En vegna mannfjöldans sáu þeir engin ráð til að komast inn með hann og fóru því upp á þak og létu hann síga í rekkjunni niður um helluþekjuna beint fram fyrir Jesú.
20 Og er hann sá trú þeirra, sagði hann: "Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar."
21 Þá tóku fræðimennirnir og farísearnir að hugsa með sér: "Hver er sá, er fer með slíka guðlöstun? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"
22 En Jesús skynjaði gjörla hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvað hugsið þér í hjörtum yðar?
23 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru þér fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp og gakk`?
24 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér:" _ og nú talar hann við lama manninn _ "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."
25 Jafnskjótt stóð hann upp frammi fyrir þeim, tók það, sem hann hafði legið á, fór heim til sín og lofaði Guð.
26 En allir voru furðu lostnir og lofuðu Guð. Og þeir urðu ótta slegnir og sögðu: "Óskiljanlegt er það, sem vér höfum séð í dag."
by Icelandic Bible Society