Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 146

146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!

Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.

Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,

sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,

Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.

Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.

Fjórða bók Móse 15:17-26

17 Drottinn talaði við Móse og sagði:

18 "Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá: Þegar þér komið í land það, er ég mun leiða yður inn í,

19 þá skuluð þér færa Drottni fórn, er þér etið af brauði landsins.

20 Sem frumgróða af deigi yðar skuluð þér fórna köku að fórnargjöf. Eins og fórnargjöfinni af láfanum, svo skuluð þér fórna henni.

21 Af frumgróðanum af deigi yðar skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf frá kyni til kyns.

22 Ef yður yfirsést og þér haldið eigi öll þessi boðorð, sem Drottinn hefir lagt fyrir Móse,

23 allt það sem Drottinn hefir boðið yður fyrir munn Móse, frá þeim degi, er Drottinn bauð það og upp frá því, frá kyni til kyns,

24 og ef misgjörðin er framin án þess söfnuðurinn viti af, þá skal allur söfnuðurinn fórna ungneyti í brennifórn til þægilegs ilms fyrir Drottin, ásamt matfórn og dreypifórn, er því fylgja, að réttum sið, og geithafri í syndafórn.

25 Og presturinn skal friðþægja fyrir allan söfnuð Ísraelsmanna, og þeim mun fyrirgefið verða. Því að það var yfirsjón, og þeir hafa fram borið fórnargjöf sína, eldfórn Drottni til handa, svo og syndafórn sína, fram fyrir Drottin vegna yfirsjónar sinnar.

26 Og öllum söfnuði Ísraelsmanna mun fyrirgefið verða, svo og útlendum manni, er meðal yðar dvelur, því að yfirsjónin féll á allan söfnuðinn.

Postulasagan 26:1-11

26 En Agrippa sagði við Pál: "Nú er þér leyft að tala þínu máli." Páll rétti þá út höndina og bar fram vörn sína:

"Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu því, sem Gyðingar saka mig um,

því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig.

Allir Gyðingar þekkja líf mitt frá upphafi, hvernig ég hef lifað með þjóð minni, fyrst í æsku og síðan í Jerúsalem.

Það vita þeir um mig, vilji þeir unna mér sannmælis, að ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki trúarbragða vorra.

Og hér stend ég nú lögsóttur vegna vonarinnar um fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum

og vorar tólf kynkvíslir vona að öðlast með því að dýrka Guð án afláts nótt sem dag. Fyrir þessa von er ég nú ákærður, konungur, og það af Gyðingum.

Hvers vegna teljið þér það ótrúlegt, að Guð veki upp dauða?

Sjálfur taldi ég mér skylt að vinna af öllu megni gegn nafni Jesú frá Nasaret.

10 Það gjörði ég og í Jerúsalem, hneppti marga hinna heilögu í fangelsi með valdi frá æðstu prestunum og galt því jákvæði, að þeir væru teknir af lífi.

11 Og í öllum samkundunum reyndi ég þrásinnis með pyndingum að neyða þá til að afneita trú sinni. Svo freklega æddi ég gegn þeim, að ég fór til borga erlendis að ofsækja þá.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society