Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
8 Þá kom orð Drottins til hans, svolátandi:
9 "Tak þig upp og far til Sarefta, sem tilheyrir Sídon, og sest þar að. Sjá, ég hefi boðið ekkju nokkurri þar að fæða þig."
10 Þá tók hann sig upp og fór til Sarefta. Og er hann kom að borgarhliðinu, var ekkja þar að tína saman viðarkvisti. Hann kallaði til hennar og mælti: "Sæk þú mér dálítið af vatni í ílátinu, að ég megi drekka."
11 Og hún fór að sækja það, en hann kallaði á eftir henni og mælti: "Færðu mér líka brauðbita."
12 Hún svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, á ég enga köku til, heldur aðeins hnefa mjöls í skjólu og lítið eitt af viðsmjöri í krús. Og sjá, ég er að tína saman fáeina viðarkvisti. Síðan ætla ég heim og matbúa þetta handa mér og syni mínum, að við megum eta það og deyja síðan."
13 En Elía sagði við hana: "Óttast ekki! Far þú heim og gjör sem þú sagðir. Gjör þú mér samt fyrst litla köku af því og fær mér út hingað, en matreið síðan handa þér og syni þínum.
14 Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölskjólan skal eigi tóm verða og viðsmjörið í krúsinni ekki þrjóta, allt til þess dags, er Drottinn gefur regn á jörð."
15 Þá fór hún og gjörði eins og Elía hafði sagt, og hún hafði nóg að eta, bæði hún og hann og sonur hennar, um langa hríð.
16 Mjölskjólan varð ekki tóm og viðsmjörið í krúsinni þraut ekki, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Elía.
17 Eftir þetta bar svo við, að sonur húsfreyju sýktist, og elnaði honum svo mjög sóttin, að hann dró eigi lengur andann.
18 Þá mælti hún við Elía: "Hvað á ég saman við þig að sælda, guðsmaður? Þú ert til mín kominn til að minna á misgjörð mína og til að láta son minn deyja."
19 En Elía sagði við hana: "Fá þú mér son þinn." Og hann tók hann úr kjöltu hennar og bar hann upp á loft, þar sem hann hafðist við, og lagði hann í rekkju sína.
20 Og hann kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, ætlar þú líka að fara svo illa með ekkjuna, sem ég gisti hjá, að láta son hennar deyja?"
21 Og hann teygði sig þrisvar yfir sveininn og kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, lát sál þessa sveins aftur til hans hverfa!"
22 Og Drottinn heyrði bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði við.
23 En Elía tók sveininn og bar hann ofan af loftinu niður í húsið og fékk hann móður hans. Og Elía mælti: "Sjá þú, sonur þinn er lifandi."
24 Þá sagði konan við Elía: "Nú veit ég, að þú ert guðsmaður og að orð Drottins í munni þínum er sannleikur."
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
11 Það læt ég yður vita, bræður, að fagnaðarerindið, sem ég hef boðað, er ekki mannaverk.
12 Ekki hef ég tekið við því af manni né látið kenna mér það, heldur fengið það fyrir opinberun Jesú Krists.
13 Þér hafið heyrt um háttsemi mína áður fyrri í Gyðingdóminum, hversu ákaflega ég ofsótti söfnuð Guðs og vildi eyða honum.
14 Ég fór lengra í Gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlætingasamari um erfikenningu forfeðra minna.
15 En þegar Guði, sem hafði útvalið mig frá móðurlífi og af náð sinni kallað,
16 þóknaðist að opinbera mér son sinn, til þess að ég boðaði fagnaðarerindið um hann meðal heiðingjanna, þá ráðgaðist ég eigi við neinn mann,
17 ekki fór ég heldur upp til Jerúsalem til þeirra, sem voru postular á undan mér, heldur fór ég jafnskjótt til Arabíu og sneri svo aftur til Damaskus.
18 Síðan fór ég eftir þrjú ár upp til Jerúsalem til að kynnast Kefasi og dvaldist hjá honum hálfan mánuð.
19 Engan af hinum postulunum sá ég, heldur aðeins Jakob, bróður Drottins.
20 Guð veit, að ég lýg því ekki, sem ég skrifa yður.
21 Síðan kom ég í héruð Sýrlands og Kilikíu.
22 Ég var persónulega ókunnur kristnu söfnuðunum í Júdeu.
23 Þeir höfðu einungis heyrt sagt: "Sá sem áður ofsótti oss, boðar nú trúna, sem hann áður vildi eyða."
24 Og þeir vegsömuðu Guð vegna mín.
11 Skömmu síðar bar svo við, að Jesús hélt til borgar, sem heitir Nain, og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi.
12 Þegar hann nálgaðist borgarhliðið, þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni.
13 Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: "Grát þú eigi!"
14 Og hann gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: "Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!"
15 Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans.
16 En ótti greip alla, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Spámaður mikill er risinn upp meðal vor," og "Guð hefur vitjað lýðs síns."
17 Og þessi fregn um hann barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.
by Icelandic Bible Society