Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 14

14 Samson fór niður til Timna og sá konu eina þar í Timna. Var hún ein af dætrum Filista.

Síðan fór hann heim aftur og sagði föður sínum og móður frá þessu og mælti: "Ég hefi séð konu eina í Timna. Er hún ein af dætrum Filista. Takið þið hana nú mér til handa að eiginkonu."

En faðir hans og móðir sögðu við hann: "Er þá engin kona meðal dætra frænda þinna og í öllu fólki mínu, að þú þurfir að fara og taka þér konu af Filistum, sem eru óumskornir?" Samson svaraði föður sínum: "Tak hana mér til handa, því að hún geðjast augum mínum."

En faðir hans og móðir vissu ekki, að þetta var frá Drottni, og að hann leitaði færis við Filistana. Um þær mundir drottnuðu Filistar yfir Ísrael.

Þá fóru þau Samson og faðir hans og móðir niður til Timna. Og er þau komu að víngörðum Timna, þá kom ungt ljón öskrandi í móti honum.

Þá kom andi Drottins yfir hann, svo að hann sleit það sundur, eins og menn slíta sundur hafurkið, og hann hafði þó ekkert í hendinni. En eigi sagði hann föður sínum né móður frá því, er hann hafði gjört.

Síðan fór Samson ofan og talaði við konuna, og hún geðjaðist augum hans.

Eftir nokkurn tíma kom hann aftur að sækja hana. Vék hann þá af leið til þess að sjá dauða ljónið, og sjá, býflugur voru í ljónshræinu og hunang.

Og hann tók það í lófa sér, hélt síðan áfram og át, og hann fór til föður síns og móður og gaf þeim, og þau átu. En ekki sagði hann þeim frá því, að hann hefði tekið hunangið úr ljónshræinu.

10 Því næst fór faðir hans ofan til konunnar, og gjörði Samson þar veislu, því að sá var háttur ungra manna.

11 En er þeir sáu hann, fengu þeir honum þrjátíu brúðarsveina, er vera skyldu með honum.

12 Og Samson sagði við þá: "Ég mun bera upp fyrir yður gátu eina. Ef þér fáið ráðið hana á þessum sjö veisludögum og getið hennar, þá mun ég gefa yður þrjátíu kyrtla og þrjátíu hátíðaklæðnaði.

13 En ef þér getið ekki ráðið hana, þá skuluð þér gefa mér þrjátíu kyrtla og þrjátíu hátíðaklæðnaði." Þeir svöruðu honum: "Ber þú upp gátu þína, svo að vér megum heyra hana."

14 Þá sagði hann við þá: "Æti gekk út af etanda og sætleiki gekk út af hinum sterka." Og liðu svo þrír dagar að þeir gátu ekki ráðið gátuna.

15 Á fjórða degi sögðu þeir við konu Samsonar: "Ginn þú bónda þinn til að segja oss ráðningu gátunnar, ella munum vér þig í eldi brenna og hús föður þíns. Hafið þér boðið oss til þess að féfletta oss? Er ekki svo?"

16 Þá grét kona Samsonar og sagði við hann: "Hatur hefir þú á mér, en enga ást, þú hefir borið upp gátu fyrir samlöndum mínum, en ekki sagt mér ráðningu hennar." Hann svaraði henni: "Sjá, ég hefi ekki sagt föður mínum og móður minni ráðningu hennar og ætti þó að segja þér hana?"

17 Og hún grét og barmaði sér við hann sjö dagana, sem veislan stóð yfir, og á sjöunda degi sagði hann henni ráðninguna, af því að hún gekk svo fast á hann. En hún sagði samlöndum sínum ráðningu gátunnar.

18 Þá sögðu borgarmenn við hann á sjöunda degi, áður sól settist: "Hvað er sætara en hunang? Og hvað er sterkara en ljón?" Samson sagði við þá: "Ef þér hefðuð ekki erjað með kvígu minni, munduð þér ekki hafa ráðið gátu mína."

19 Þá kom andi Drottins yfir hann, svo að hann fór ofan til Askalon og drap þrjátíu menn af þeim, tók klæðnaði þeirra og gaf þá þeim að hátíðaklæðum, er ráðið höfðu gátuna. Og hann varð ákaflega reiður og fór upp til húss föður síns.

20 En kona Samsonar giftist brúðarsveini hans, þeim er hann hafði valið sér að svaramanni.

Postulasagan 18

18 Eftir þetta fór Páll frá Aþenu og kom til Korintu.

Þar hitti hann Gyðing nokkurn, Akvílas að nafni, ættaðan frá Pontus, nýkominn frá Ítalíu, og Priskillu konu hans, en Kládíus hafði skipað svo fyrir, að allir Gyðingar skyldu fara burt úr Róm. Páll fór til þeirra,

og af því hann stundaði sömu iðn, settist hann að hjá þeim og vann með þeim. Þeir voru tjaldgjörðarmenn að iðn.

Hann ræddi við menn í samkunduhúsinu hvern hvíldardag og reyndi að sannfæra bæði Gyðinga og Grikki.

Þegar þeir Sílas og Tímóteus komu norðan frá Makedóníu, gaf Páll sig allan að boðun orðsins og vitnaði fyrir Gyðingum, að Jesús væri Kristur.

En er þeir stóðu í gegn og lastmæltu, hristi hann dustið af klæðum sínum og sagði við þá: "Blóð yðar komi yfir höfuð yðar. Ekki er mér um að kenna. Upp frá þessu fer ég til heiðingjanna."

Og hann fór þaðan og kom í hús manns nokkurs, er hét Títus Jústus og dýrkaði Guð. Hús hans var hjá samkunduhúsinu.

Krispus samkundustjóri tók trú á Drottin og allt heimili hans, og margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast.

En Drottinn sagði við Pál um nótt í sýn: "Óttast þú eigi, heldur tala þú og þagna ekki,

10 ég er með þér. Enginn skal ráðast að þér og vinna þér mein, því að ég á margt fólk í þessari borg."

11 Hann var þar um kyrrt þrjú misseri og kenndi þeim orð Guðs.

12 En þegar Gallíón var landstjóri í Akkeu, bundust Gyðingar samtökum gegn Páli, drógu hann fyrir dómstólinn

13 og sögðu: "Maður þessi tælir menn til að dýrka Guð gagnstætt lögmálinu."

14 Páll bjóst til að svara, og þá sagði Gallíón við Gyðingana: "Væri hér um einhver lögbrot eða illvirki að ræða, bæri mér að sinna yður, Gyðingar.

15 En fyrst það eru þrætur um orð og nöfn og lögmál yðar, þá ráðið sjálfir fram úr því. Dómari í þeim sökum vil ég ekki vera."

16 Og hann rak þá burt frá dómstólnum.

17 Þá tóku þeir allir Sósþenes samkundustjóra og fóru að berja hann fyrir framan dómstólinn, og lét Gallíón sig það engu skipta.

18 Páll var þar enn um kyrrt allmarga daga, kvaddi síðan bræðurna og sigldi til Sýrlands og með honum Priskilla og Akvílas. Lét hann áður skera hár sitt í Kenkreu, því að heit hafði hvílt á honum.

19 Þeir komu til Efesus. Þar skildi hann við þá, en gekk sjálfur inn í samkunduhúsið og ræddi við Gyðinga.

20 Þeir báðu hann að standa lengur við, en hann varð ekki við því,

21 heldur kvaddi þá og sagði: "Ég skal koma aftur til yðar, ef Guð lofar." Síðan lét hann í haf frá Efesus,

22 lenti í Sesareu, fór upp eftir til Jerúsalem og heilsaði söfnuðinum. Síðan hélt hann norður til Antíokkíu.

23 Þegar hann hafði dvalist þar um hríð, hélt hann af stað og fór eins og leið liggur um Galataland og Frýgíu og styrkti alla lærisveinana.

24 En Gyðingur nokkur, Apollós að nafni, ættaður frá Alexandríu, kom til Efesus. Hann var maður vel máli farinn og fær í ritningunum.

25 Hann hafði verið fræddur um veg Drottins, og brennandi í andanum talaði hann og kenndi kostgæfilega um Jesú. Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar.

26 Þessi maður tók nú að tala djarflega í samkunduhúsinu. Priskilla og Akvílas heyrðu til hans, tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg.

27 Hann fýsti að fara yfir til Akkeu. Bræðurnir hvöttu hann til þess og rituðu lærisveinunum þar að taka honum vel. Hann kom þangað og varð til mikillar hjálpar þeim, sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú,

28 því hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum, að Jesús væri Kristur.

Jeremía 27

27 Í upphafi ríkisstjórnar Sedekía Jósíasonar, konungs í Júda, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:

Svo sagði Drottinn við mig: Gjör þér bönd og ok og legg um háls þér

og gjör konunginum í Edóm og konunginum í Móab og konungi Ammóníta og konunginum í Týrus og konunginum í Sídon orðsending með sendimönnunum, sem komnir eru til Jerúsalem til Sedekía Júdakonungs,

og bjóð þeim að mæla svo til herra sinna: "Svo sagði Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við herra yðar:

Ég hefi gjört jörðina og mennina og skepnurnar, sem á jörðinni eru, með mínum mikla mætti og útrétta armlegg, og ég gef þetta þeim, er mér þóknast.

Og nú gef ég öll þessi lönd á vald Nebúkadnesars Babelkonungs, þjóns míns. Jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum, til þess að þau þjóni honum.

Og allar þjóðir skulu þjóna honum og syni hans og sonarsyni hans, þar til er einnig tími hans lands kemur og voldugar þjóðir og miklir konungar gjöra hann að þræl sínum.

Og sú þjóð og það konungsríki, sem ekki vill þjóna honum, Nebúkadnesar Babelkonungi, og ekki beygja háls sinn undir ok Babelkonungs, þeirrar þjóðar mun ég vitja með sverði, hungri og drepsótt _ segir Drottinn _ uns ég hefi gjöreytt þeim fyrir hans hendi.

Hlýðið ekki á spámenn yðar né spásagnarmenn, né drauma yðar, né á galdramenn yðar né töframenn, þá er þeir mæla til yðar á þessa leið: ,Þér munuð ekki þjóna Babelkonungi.`

10 Því að þeir boða yður lygar til þess að flæma yður úr landi yðar, svo að ég reki yður burt og þér farist.

11 En þá þjóð, sem beygir háls sinn undir ok Babelkonungs og þjónar honum, hana vil ég láta vera kyrra í landi sínu _ segir Drottinn _ til þess að hún yrki það og byggi."

12 Og við Sedekía Júdakonung talaði ég öldungis á sama hátt: "Sveigið háls yðar undir ok Babelkonungs og þjónið honum og þjóð hans, þá munuð þér lífi halda.

13 Hví viljið þér, þú og þjóð þín, deyja fyrir sverði, af hungri og drepsótt, eins og Drottinn hefir hótað þeim þjóðum, er eigi vilja þjóna Babelkonungi?

14 Hlýðið eigi á orð spámannanna, er segja við yður: ,Þér munuð eigi þjóna Babelkonungi!` Því að þeir boða yður lygar.

15 Því að ég hefi ekki sent þá _ segir Drottinn _ heldur spá þeir ranglega í mínu nafni, til þess að ég reki yður burt og þér farist, ásamt spámönnunum, er yður hafa spáð."

16 Við prestana og allan þennan lýð hefi ég og talað á þessa leið: "Svo segir Drottinn: Hlýðið eigi á orð spámanna yðar, er spá yður og segja: ,Sjá, áhöldin úr musteri Drottins munu bráðlega verða flutt heim aftur frá Babýlon!` _ því að þeir boða yður lygar.

17 Hlýðið eigi á þá. Þjónið heldur Babelkonungi, þá munuð þér lífi halda! Hví á þessi borg að verða að rúst?

18 En séu þeir spámenn og sé orð Drottins hjá þeim, þá biðja þeir Drottin allsherjar, að áhöld þau, sem enn eru eftir í musteri Drottins og í höll Júdakonungs og í Jerúsalem, fari eigi líka til Babýlon.

19 Því að svo segir Drottinn allsherjar um súlurnar, um hafið og um undirstöðupallana og um hin önnur áhöld, sem eftir eru í þessari borg,

20 þau er Nebúkadnesar Babelkonungur ekki tók, þá er hann herleiddi Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, frá Jerúsalem til Babýlon, ásamt öllum tignarmönnum Júda og Jerúsalem,

21 já, svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, um áhöldin, sem eftir eru í musteri Drottins og höll Júdakonungs og í Jerúsalem:

22 Til Babýlon skulu þau flutt verða og þar skulu þau vera, allt til þess dags, er ég vitja þeirra _ segir Drottinn _ og sæki þau og flyt þau aftur á þennan stað.

Markúsarguðspjall 13

13 Þegar Jesús gekk út úr helgidóminum, segir einn lærisveina hans við hann: "Meistari, lít á, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!"

Jesús svaraði honum: "Sérðu þessar miklu byggingar? Ekki mun eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."

Þá er hann sat á Olíufjallinu gegnt helgidóminum, spurðu hann einslega þeir Pétur, Jakob, Jóhannes og Andrés:

"Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að allt þetta sé að koma fram?"

En Jesús tók að segja þeim: "Varist að láta nokkurn leiða yður í villu.

Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!` og marga munu þeir leiða í villu.

En þegar þér spyrjið hernað og ófriðartíðindi, þá skelfist ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.

Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar á ýmsum stöðum og hungur. Þetta er upphaf fæðingarhríðanna.

Gætið að sjálfum yður. Menn munu draga yður fyrir dómstóla, í samkundum verðið þér húðstrýktir, og þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna, þeim til vitnisburðar.

10 En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.

11 Þegar menn taka yður og draga fyrir rétt, hafið þá ekki fyrirfram áhyggjur af því, hvað þér eigið að segja, heldur talið það, sem yður verður gefið á þeirri stundu. Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur heilagur andi.

12 Þá mun bróðir selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.

13 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.

14 En þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar standa þar, er ekki skyldi _ lesandinn athugi það _ þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.

15 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan og inn í húsið að sækja neitt.

16 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.

17 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.

18 Biðjið, að það verði ekki um vetur.

19 Á þeim dögum verður sú þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar, er Guð skapaði, allt til þessa, og mun aldrei verða.

20 Ef Drottinn hefði ekki stytt þessa daga, kæmist enginn maður af. En hann hefur stytt þá vegna þeirra, sem hann hefur útvalið.

21 Og ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur,` eða: ,Þar,` þá trúið því ekki.

22 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra tákn og undur til að leiða afvega hina útvöldu ef orðið gæti.

23 Verið varir um yður. Ég hef sagt yður allt fyrir.

24 En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína.

25 Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.

26 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð.

27 Og hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta.

28 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd.

29 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að hann er í nánd, fyrir dyrum.

30 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.

31 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.

32 En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn.

33 Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.

34 Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka.

35 Vakið því, þér vitið ekki, nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun.

36 Látið hann ekki finna yður sofandi, þegar hann kemur allt í einu.

37 Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society