Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jósúabók 3

Morguninn eftir reis Jósúa árla. Lögðu þeir nú upp frá Sittím og komu að Jórdan, hann og allir Ísraelsmenn, og voru þar um nóttina, áður þeir færu yfir um.

En að þremur dögum liðnum fóru tilsjónarmennirnir um allar herbúðirnar

og buðu lýðnum og sögðu: "Þegar þér sjáið sáttmálsörk Drottins, Guðs yðar, og levítaprestana bera hana, þá leggið upp frá yðar stað og farið á eftir henni.

Látið þó vera um tveggja þúsund álna bil millum yðar og hennar og komið ekki nærri henni. Megið þér þá vita, hvaða veg þér eigið að fara, því að þér hafið aldrei farið þann veg áður."

Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Helgið yður, því að á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar."

Og við prestana sagði Jósúa: "Takið upp sáttmálsörkina og farið yfir um á undan lýðnum." Þeir tóku þá upp sáttmálsörkina og fóru yfir um á undan lýðnum.

Drottinn sagði við Jósúa: "Í dag mun ég taka til að mikla þig í augsýn alls Ísraels, svo að þeir megi vita, að ég er með þér, eins og ég var með Móse.

En bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, á þessa leið: Þegar þér komið í vatnsbrúnina í Jórdan, þá nemið þar staðar í ánni."

Og Jósúa sagði við Ísraelsmenn: "Komið hingað og heyrið orð Drottins, Guðs yðar!"

10 Og Jósúa mælti: "Af þessu skuluð þér vita mega, að lifandi Guð er á meðal yðar og að hann vissulega mun stökkva burt undan yður Kanaanítum, Hetítum, Hevítum, Peresítum, Gírgasítum, Amorítum og Jebúsítum:

11 Sjá, sáttmálsörk hans, sem er Drottinn allrar veraldar, mun fara á undan yður út í Jórdan.

12 Veljið yður nú tólf menn af ættkvíslum Ísraels, einn mann af ættkvísl hverri.

13 Og þegar prestarnir, sem bera sáttmálsörk Drottins, hans sem er Drottinn allrar veraldar, stíga fæti í vatn Jórdanar, þá mun vatnið í Jórdan stöðvast, vatnið, sem ofan að kemur, og standa sem veggur."

14 Fólkið tók sig nú upp úr tjöldum sínum til þess að fara yfir um Jórdan, og prestarnir, sem báru sáttmálsörkina, fóru fyrir lýðnum.

15 Og er þeir, sem örkina báru, komu að Jórdan, og prestarnir, sem báru örkina, drápu fótum sínum í vatnsbrúnina (en Jórdan flóði yfir alla bakka allan kornskurðartímann),

16 þá stóð vatnið kyrrt, það er ofan að kom, og hófst upp sem veggur mjög langt burtu, við Adam, borgina, sem liggur hjá Sartan. En það sem rann niður til vatnsins á sléttlendinu, Saltasjós, rann allt til þurrðar. Og lýðurinn fór yfir um gegnt Jeríkó.

17 En prestarnir, sem báru sáttmálsörk Drottins, stóðu kyrrir á þurru mitt í Jórdan, meðan allur Ísrael fór yfir um á þurru, þar til er allt fólkið var komið yfir um Jórdan.

Sálmarnir 126-128

126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.

Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."

Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.

Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.

Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.

Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.

127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.

Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!

Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.

Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.

Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.

128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.

Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.

Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.

Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.

Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,

og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!

Jesaja 63

63 Hver er þessi, sem kemur frá Edóm, í hárauðum klæðum frá Bosra? Þessi hinn tigulega búni, sem gengur fram hnarreistur í mikilleik máttar síns? _ Það er ég, sá er mæli réttlæti og mátt hefi til að frelsa.

Hví er rauð skikkja þín, og klæði þín eins og þess, er treður ber í vínþröng?

_ Vínlagarþró hefi ég troðið, aleinn, af þjóðunum hjálpaði mér enginn. Ég fótum tróð þá í reiði minni, marði þá sundur í heift minni. Þá hraut lögur þeirra á klæði mín, og skikkju mína ataði ég alla.

Hefndardagur var mér í hug, og lausnarár mitt er komið.

Ég litaðist um, en enginn var til að hjálpa, mig undraði, að enginn skyldi aðstoða mig. En þá hjálpaði mér armleggur minn, og heift mín aðstoðaði mig.

Ég tróð þjóðirnar í reiði minni og marði þær sundur í heift minni og lét löginn úr þeim renna á jörðina.

Ég vil víðfrægja hinar mildilegu velgjörðir Drottins, syngja honum lof fyrir allt það, sem hann hefir við oss gjört, og hina miklu gæsku hans við Ísraels hús, er hann hefir auðsýnt þeim af miskunn sinni og mikilli mildi.

Hann sagði: "Vissulega eru þeir minn lýður, börn, sem ekki munu bregðast!" Og hann varð þeim frelsari.

Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða, og engill auglitis hans frelsaði þá. Af elsku sinni og vægðarsemi endurleysti hann þá, hann tók þá upp og bar þá alla daga hinna fyrri tíða.

10 En þeir gjörðust mótsnúnir og hryggðu heilagan anda hans. Gjörðist hann þá óvinur þeirra og barðist sjálfur í móti þeim.

11 Þá minntist lýður hans hinna fyrri tíða, þá er Móse var á dögum: Hvar er hann, sem leiddi þá upp úr hafinu ásamt hirði hjarðar sinnar? Hvar er hann, sem lét heilagan anda sinn búa mitt á meðal þeirra?

12 Hann sem lét dýrðarsamlegan armlegg sinn ganga Móse til hægri handar, hann sem klauf vötnin fyrir þeim til þess að afreka sér eilíft nafn,

13 hann sem lét þá ganga um djúpin, eins og hestur gengur um eyðimörk, og þeir hrösuðu ekki?

14 Eins og búféð, sem fer ofan í dalinn, færði andi Drottins þá til hvíldar. Þannig hefir þú leitt lýð þinn til þess að afreka þér dýrðarsamlegt nafn.

15 Horf þú af himni ofan og lít niður frá hinum heilaga og dýrðarsamlega bústað þínum! Hvar er nú vandlæti þitt og máttarverk þín? Þín viðkvæma elska og miskunnsemi við mig hefir dregið sig í hlé!

16 Sannlega ert þú faðir vor, því að Abraham þekkir oss ekki og Ísrael kannast ekki við oss. Þú, Drottinn, ert faðir vor, "Frelsari vor frá alda öðli" er nafn þitt.

17 Hví lést þú oss, Drottinn, villast af vegum þínum, hví lést þú hjarta vort forherða sig, svo að það óttaðist þig ekki? Hverf aftur fyrir sakir þjóna þinna, fyrir sakir ættkvísla arfleifðar þinnar!

18 Um skamma stund fékk fólk þitt hið heilaga fjall þitt til eignar, en nú hafa óvinir vorir fótum troðið helgidóm þinn.

19 Vér erum orðnir sem þeir, er þú um langan aldur hefir ekki drottnað yfir, og eins og þeir, er aldrei hafa nefndir verið eftir nafni þínu.

Matteusarguðspjall 11

11 Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf, hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra.

Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði:

"Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"

Jesús svaraði þeim: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið:

Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.

Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér."

Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn?

Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga.

Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann.

10 Hann er sá, sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér.

11 Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.

12 Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er ríki himnanna ofríki beitt, og ofríkismenn vilja hremma það.

13 Spámennirnir allir og lögmálið, allt fram að Jóhannesi, sögðu fyrir um þetta.

14 Og ef þér viljið við því taka, þá er hann Elía sá, sem koma skyldi.

15 Hver sem eyru hefur, hann heyri.

16 Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á:

17 ,Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.`

18 Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: ,Hann hefur illan anda.`

19 Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!` En spekin sannast af verkum sínum."

20 Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun.

21 "Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.

22 En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur.

23 Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag.

24 En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér."

25 Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: "Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.

26 Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.

27 Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

28 Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

29 Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

30 Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society