M’Cheyne Bible Reading Plan
1 Eftir andlát Jósúa spurðu Ísraelsmenn Drottin og sögðu: "Hver af oss skal fyrstur fara í móti Kanaanítum til þess að berjast við þá?"
2 Drottinn sagði: "Júda skal fara í móti þeim, sjá, ég gef landið í hendur honum."
3 Júda sagði við Símeon, bróður sinn: "Far þú með mér inn í minn hluta, svo að við báðir megum berjast við Kanaanítana. Þá skal ég líka fara með þér inn í þinn hluta." Fór þá Símeon með honum.
4 Og Júda fór, og Drottinn gaf Kanaaníta og Peresíta í hendur þeirra, og lögðu þeir þá að velli í Besek, _ tíu þúsundir manna.
5 Þeir fundu Adóní Besek í Besek og börðust við hann og unnu sigur á Kanaanítum og Peresítum.
6 En Adóní Besek flýði og veittu þeir honum eftirför, tóku hann höndum og hjuggu af honum þumalfingurna og stórutærnar.
7 Þá mælti Adóní Besek: "Sjötíu konungar, sem höggnir voru af þumalfingur og stórutær, urðu að tína upp mola undir borði mínu. Eins og ég hefi gjört, svo geldur Guð mér." Síðan fóru þeir með hann til Jerúsalem og þar dó hann.
8 Júda synir herjuðu á Jerúsalem og unnu hana, felldu íbúana með sverðseggjum og lögðu síðan eld í borgina.
9 Eftir það héldu Júda synir ofan þaðan til þess að berjast við Kanaaníta, þá er bjuggu á fjöllunum, í Suðurlandinu og á láglendinu.
10 Júda fór móti Kanaanítunum, sem bjuggu í Hebron, en Hebron hét áður Kirjat Arba. Og þeir unnu sigur á Sesaí, Ahíman og Talmaí.
11 Þaðan fóru þeir móti Debír-búum, en Debír hét áður Kirjat Sefer.
12 Kaleb sagði: "Hver sem leggur Kirjat Sefer undir sig og vinnur hana, honum skal ég gefa Aksa dóttur mína að konu."
13 Otníel Kenasson, bróðir Kalebs og honum yngri, vann þá borgina, og hann gaf honum Aksa dóttur sína að konu.
14 Þegar hún skyldi heim fara með bónda sínum, eggjaði hún hann þess, að hann skyldi beiðast lands nokkurs af föður hennar. Steig hún þá niður af asnanum. Kaleb spurði hana þá: "Hvað viltu?"
15 Hún svaraði honum: "Gef mér gjöf nokkra, af því að þú hefir gefið mig til Suðurlandsins. Gef mér því vatnsbrunna." Gaf hann henni þá brunna hið efra og brunna hið neðra.
16 Synir Kenítans, tengdaföður Móse, höfðu farið úr pálmaborginni með sonum Júda upp í Júdaeyðimörk, sem liggur fyrir sunnan Arad, og þeir fóru og settust að meðal lýðsins.
17 En Júda fór með Símeon bróður sínum, og þeir unnu sigur á Kanaanítunum, sem bjuggu í Sefat, og helguðu hana banni. Fyrir því var borgin nefnd Horma.
18 Júda vann Gasa og land það, er undir hana lá, og Askalon og land það, er undir hana lá, og Ekron og land það, er undir hana lá.
19 Og Drottinn var með Júda, svo að þeir náðu undir sig fjalllendinu, en þá, sem bjuggu á sléttlendinu, fengu þeir eigi rekið burt, því að þeir höfðu járnvagna.
20 Þeir gáfu Kaleb Hebron, eins og Móse hafði boðið, og þeir ráku þaðan þá Anaks sonu þrjá.
21 En Jebúsítana, sem bjuggu í Jerúsalem, gátu Benjamíns synir ekki rekið burt. Fyrir því hafa Jebúsítar búið í Jerúsalem ásamt Benjamíns sonum fram á þennan dag.
22 Ættmenn Jósefs fóru líka upp til Betel, og Drottinn var með þeim.
23 Og ættmenn Jósefs létu njósna í Betel, en borgin hét áður Lúz.
24 Þá sáu njósnarmennirnir mann koma út úr borginni og sögðu við hann: "Sýn oss, hvar komast má inn í borgina, og munum vér sýna þér miskunn."
25 Og hann sýndi þeim, hvar komast mætti inn í borgina, og þeir tóku borgina herskildi, en manninum og öllu fólki hans leyfðu þeir brottgöngu.
26 Maðurinn fór til lands Hetíta og reisti þar borg og nefndi hana Lúz. Heitir hún svo enn í dag.
27 Manasse rak eigi burt íbúana í Bet Sean og smáborgunum, er að lágu, í Taanak og smáborgunum, er að lágu, íbúana í Dór og smáborgunum, er að lágu, íbúana í Jibleam og smáborgunum, er að lágu, né íbúana í Megiddó og smáborgunum, er að lágu; og þannig fengu Kanaanítar haldið bústað í landi þessu.
28 En er Ísrael efldist, gjörði hann Kanaaníta sér vinnuskylda, en rak þá ekki algjörlega burt.
29 Efraím rak eigi burt Kanaanítana, sem bjuggu í Geser; þannig héldu Kanaanítar áfram að búa í Geser meðal þeirra.
30 Sebúlon rak eigi burt íbúana í Kitrón né íbúana í Nahalól; þannig héldu Kanaanítar áfram að búa meðal þeirra og urðu þeim vinnuskyldir.
31 Asser rak eigi burt íbúana í Akkó né íbúana í Sídon, eigi heldur í Ahlab, Aksíd, Helba, Afík og Rehób.
32 Fyrir því bjuggu Asserítar meðal Kanaaníta, er fyrir voru í landinu, því að þeir ráku þá eigi burt.
33 Naftalí rak eigi burt íbúana í Bet Semes né íbúana í Bet Anat; fyrir því bjó hann meðal Kanaaníta, er fyrir voru í landinu, en íbúarnir í Bet Semes og Bet Anat urðu þeim vinnuskyldir.
34 Amorítar þrengdu Dans sonum upp í fjöllin og liðu þeim ekki að koma niður á sléttlendið.
35 Þannig fengu Amorítar haldið bústað í Har Heres, í Ajalon og Saalbím, en með því að ætt Jósefs var þeim yfirsterkari, urðu þeir vinnuskyldir.
36 Landamæri Amoríta lágu frá Sporðdrekaskarði, frá klettinum og þar upp eftir.
5 En maður nokkur, Ananías að nafni, seldi ásamt Saffíru, konu sinni, eign
2 og dró undan af verðinu með vitund konu sinnar, en kom með nokkuð af því og lagði fyrir fætur postulanna.
3 En Pétur mælti: "Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns?
4 Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði."
5 Þegar Ananías heyrði þetta, féll hann niður og gaf upp öndina, og miklum ótta sló á alla þá, sem heyrðu.
6 En ungu mennirnir stóðu upp og bjuggu um hann, báru hann út og jörðuðu.
7 Að liðnum svo sem þrem stundum kom kona hans inn og vissi ekki, hvað við hafði borið.
8 Þá spurði Pétur hana: "Seg mér, selduð þið jörðina fyrir þetta verð?" En hún svaraði: "Já, fyrir þetta verð."
9 Pétur mælti þá við hana: "Hvernig gátuð þið orðið samþykk um að freista anda Drottins? Þú heyrir við dyrnar fótatak þeirra, sem greftruðu mann þinn. Þeir munu bera þig út."
10 Jafnskjótt féll hún niður við fætur hans og gaf upp öndina. Ungu mennirnir komu inn, fundu hana dauða, báru út og jörðuðu hjá manni hennar.
11 Og miklum ótta sló á allan söfnuðinn og alla, sem heyrðu þetta.
12 Fyrir hendur postulanna gjörðust mörg tákn og undur meðal lýðsins. Allur söfnuðurinn kom einum huga saman í Súlnagöngum Salómons.
13 Engir aðrir þorðu að samlagast þeim, en fólk virti þá mikils.
14 Og enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottin, fjöldi karla og kvenna.
15 Menn báru jafnvel sjúka út á strætin og lögðu þá á rekkjur og börur, ef verða mætti, er Pétur gengi hjá, að alltént skugginn af honum félli á einhvern þeirra.
16 Einnig kom fjöldi fólks frá borgunum umhverfis Jerúsalem og flutti með sér sjúka menn og þjáða af óhreinum öndum. Þeir læknuðust allir.
17 Þá hófst æðsti presturinn handa og allur sá flokkur, sem fylgdi honum, saddúkearnir. Fullir ofsa
18 létu þeir taka postulana höndum og varpa í fangelsið.
19 En engill Drottins opnaði um nóttina dyr fangelsisins, leiddi þá út og sagði:
20 "Farið og gangið fram í helgidóminum og talið til lýðsins öll þessi lífsins orð."
21 Þeir hlýddu og fóru í dögun í helgidóminn og kenndu. Nú kom æðsti presturinn og hans menn, kölluðu saman ráðið, alla öldunga Ísraels, og sendu þjóna til fangelsisins að sækja postulana.
22 Þeir komu í fangelsið og fundu þá ekki, sneru aftur og skýrðu svo frá:
23 "Fangelsið fundum vér að öllu tryggilega læst, og varðmennirnir stóðu fyrir dyrum, en er vér lukum upp, fundum vér engan inni."
24 Þegar varðforingi helgidómsins og æðstu prestarnir heyrðu þetta, urðu þeir ráðþrota og spurðu, hvar þetta ætlaði að lenda.
25 En þá kom maður og bar þeim þessa frétt: "Mennirnir, sem þér settuð í fangelsið, standa í helgidóminum og eru að kenna lýðnum."
26 Þá fór varðforinginn með þjónunum og sótti þá. Beittu þeir samt ekki ofbeldi, því þeir óttuðust, að fólkið grýtti þá.
27 Þegar þeir voru komnir með þá, leiddu þeir þá fram fyrir ráðið, og æðsti presturinn tók að yfirheyra þá og sagði:
28 "Stranglega bönnuðum vér yður að kenna í þessu nafni, og nú hafið þér fyllt Jerúsalem með kenningu yðar og viljið steypa yfir oss blóði þessa manns."
29 En Pétur og hinir postularnir svöruðu: "Framar ber að hlýða Guði en mönnum.
30 Guð feðra vorra hefur upp vakið Jesú, sem þér hengduð á tré og tókuð af lífi.
31 Hann hefur Guð hafið sér til hægri handar og gjört hann að foringja og frelsara til að veita Ísrael afturhvarf og fyrirgefningu synda sinna.
32 Vér erum vottar alls þessa, og heilagur andi, sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða."
33 Þegar þeir heyrðu þetta, fylltust þeir bræði og hugðust deyða þá.
34 Reis þá upp í ráðinu farísei nokkur, Gamalíel að nafni, kennari í lögmálinu, virtur af öllum lýð. Hann bauð, að mennirnir væru látnir fara út stundarkorn.
35 Síðan sagði hann: "Ísraelsmenn, athugið vel, hvað þér gjörið við þessa menn.
36 Ekki alls fyrir löngu kom Þevdas fram og þóttist vera eitthvað. Hann aðhylltust um fjögur hundruð manns. En hann var drepinn, og allir þeir, sem fylgdu honum, tvístruðust og hurfu.
37 Eftir hann kom fram Júdas frá Galíleu á dögum skrásetningarinnar og sneri fólki til fylgis við sig. Hann fórst líka, og þeir dreifðust allir, sem fylgdu honum.
38 Og nú segi ég yður: Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu,
39 en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð."
40 Þeir féllust á mál hans, kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa.
41 Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.
42 Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.
14 Orð Drottins, sem kom til Jeremía út af þurrkunum.
2 Júda drúpir, og þeir, sem sitja í borgarhliðum landsins, örmagnast, þeir sitja harmandi á jörðinni, og harmakvein Jerúsalem stígur upp.
3 Tignarmenni þeirra senda undirmenn sína eftir vatni, þeir koma að vatnsþrónum, en finna ekkert vatn, þeir snúa aftur með tóm ílátin, þeir eru sneyptir og blygðast sín og hylja höfuð sín.
4 Vegna akurlendisins, sem er agndofa af skelfingu, af því að ekkert regn fellur í landinu, eru akurmennirnir sneypulegir og hylja höfuð sín.
5 Já, jafnvel hindin í haganum ber og yfirgefur kálfinn, því að gróður er enginn,
6 og villiasnarnir standa á skóglausu hæðunum og taka öndina á lofti, eins og sjakalarnir. Augu þeirra daprast, því að hvergi er gras.
7 Þegar misgjörðir vorar vitna í gegn oss, Drottinn, þá lát til þín taka vegna nafns þíns, því að fráhvarfssyndir vorar eru margar, gegn þér höfum vér syndgað.
8 Ó Ísraels von, hjálpari hans á neyðartíma, hví ert þú sem útlendingur í landinu og sem ferðamaður, er tjaldar til einnar nætur?
9 Hví ert þú eins og skelkaður maður, eins og hetja, sem ekki megnar að hjálpa? Og þó ert þú mitt á meðal vor, Drottinn, og vér erum nefndir eftir nafni þínu. Yfirgef oss eigi!
10 Svo segir Drottinn um þennan lýð: Þannig var þeim ljúft að reika um, þeir öftruðu ekki fótum sínum, en Drottinn hafði enga þóknun á þeim. Nú minnist hann misgjörðar þeirra og vitjar synda þeirra.
11 Og Drottinn sagði við mig: "Þú skalt eigi biðja þessum lýð góðs.
12 Þegar þeir fasta, þá hlýði ég eigi á grátbeiðni þeirra, og þegar þeir bera fram brennifórn og matfórn, þá hefi ég eigi þóknun á þeim, heldur vil ég gjöreyða þeim með sverði, hungri og drepsótt."
13 Þá sagði ég: "Æ, herra Drottinn, sjá, spámennirnir segja við þá: Þér munuð ekki sjá sverð, og hungri munuð þér ekki verða fyrir, heldur mun ég láta yður hljóta stöðuga heill á þessum stað!"
14 En Drottinn sagði við mig: "Spámennirnir boða lygar í mínu nafni. Ég hefi ekki sent þá og ég hefi ekki skipað þeim og ég hefi ekki við þá talað, þeir boða yður lognar sýnir, fánýtar spár og tál, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp.
15 Fyrir því segir Drottinn svo: Spámennirnir, sem spá í mínu nafni og segja, þótt ég hafi ekki sent þá: Hvorki mun sverð né hungur ganga yfir þetta land! _ fyrir sverði og hungri skulu þeir farast, þessir spámenn.
16 En lýðurinn, sem þeir boða spár sínar, skal liggja dauður á Jerúsalem-strætum af hungri og fyrir sverði, og enginn jarða þá, _ þeir sjálfir, konur þeirra, synir þeirra og dætur þeirra _ og ég vil úthella vonsku þeirra yfir þá."
17 Þú skalt tala til þeirra þessi orð: Augu mín skulu fljóta í tárum nótt og dag, og tárin eigi stöðvast, því að mærin, dóttir þjóðar minnar, hefir orðið fyrir ógurlegu áfalli, hefir særð verið al-ólæknandi sári.
18 Gangi ég út á völlinn, þá liggja þar þeir, er fallið hafa fyrir sverði, og gangi ég inn í borgina, þá sé ég þar menn dána úr hungri. Já, spámenn og prestar fara um landið og bera ekki kennsl á það.
19 Hefir þú þá hafnað Júda algjörlega, eða ert þú orðinn leiður á Síon? Hví hefir þú lostið oss svo, að vér verðum eigi læknaðir? Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!
20 Vér þekkjum, Drottinn, yfirsjón vora, misgjörð feðra vorra, að vér höfum syndgað gegn þér.
21 Fyrirlít eigi, vegna nafns þíns, _ óvirð eigi hásæti dýrðar þinnar, minnstu sáttmála þíns við oss og rjúf hann eigi.
22 Eru nokkrir regngjafar meðal hinna fánýtu guða heiðingjanna, eða úthellir himinninn skúrum sjálfkrafa? Ert það ekki þú, Drottinn, Guð vor, svo að vér verðum að vona á þig? Því að þú hefir gjört allt þetta.
28 Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina.
2 Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann.
3 Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór.
4 Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
5 En engillinn mælti við konurnar: "Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta.
6 Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá.
7 Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.` Þetta hef ég sagt yður."
8 Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.
9 Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: "Heilar þið!" En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans.
10 Þá segir Jesús við þær: "Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig."
11 Meðan þær voru á leiðinni komu nokkrir varðmenn til borgarinnar og sögðu æðstu prestunum allt, sem gjörst hafði.
12 En þeir kvöddu saman öldungana og tóku það ráð með þeim að bera mikið fé á hermennina og mæltu við þá:
13 "Segið þetta: ,Lærisveinar hans komu á næturþeli, meðan vér sváfum, og stálu honum.`
14 Og ef þetta berst landshöfðingjanum til eyrna, skulum vér sefa hann, svo að þér getið verið áhyggjulausir."
15 Þeir tóku við fénu og gjörðu sem þeim var sagt. Þessi sögusögn hefur verið borin út meðal Gyðinga allt til þessa dags.
16 En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til.
17 Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa.
18 Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: "Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.
19 Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda,
by Icelandic Bible Society