Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jósúabók 20-21

20 Drottinn talaði við Jósúa á þessa leið:

"Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Takið nú til griðastaðina, þá er ég hefi talað um við yður fyrir Móse,

að þangað megi flýja vegandi, sá er af vangá, óviljandi, hefir orðið manni að bana, svo að þeir séu yður hæli fyrir hefnanda.

Hann má flýja í einhverja af borgum þessum og nema staðar rétt fyrir utan borgarhliðið og skýra þar frá máli sínu í áheyrn öldunga borgar þeirrar. Skulu þeir taka við honum inn í borgina og fá honum stað, svo að hann megi búa hjá þeim.

Og ef hefnandinn eltir hann, þá skulu þeir eigi framselja vegandann í hendur honum, þar eð hann óviljandi hefir orðið náunga sínum að bana og eigi verið óvinur hans áður.

Og hann skal hafa aðsetur í borg þeirri, þar til er hann hefir komið fyrir dóm safnaðarins, þar til sá æðsti prestur er dáinn, sem þá er. Þá má vegandinn hverfa aftur og fara heim til sinnar borgar og síns húss, þeirrar borgar, er hann flýði úr."

Þá helguðu þeir Kedes í Galíleu á Naftalífjöllum, Síkem á Efraímfjöllum og Kirjat Arba, það er Hebron, á Júdafjöllum.

En hinumegin Jórdanar, gegnt Jeríkó að austanverðu, létu þeir af hendi Beser í eyðimörkinni, á sléttlendinu, af kynkvísl Rúbens, Ramót í Gíleað af kynkvísl Gaðs og Gólan í Basan af kynkvísl Manasse.

Þetta voru borgirnar, sem tilteknar voru handa öllum Ísraelsmönnum og útlendingum þeim, er meðal þeirra dvöldust, að þangað mætti flýja hver sá maður, sem óviljandi hefði orðið manni að bana, svo að hann þyrfti ekki að deyja fyrir hendi hefnandans, þar til er hann hefði staðið fyrir máli sínu frammi fyrir söfnuðinum.

21 Ætthöfðingjar levítanna gengu fyrir þá Eleasar prest, Jósúa Núnsson og ætthöfðingja kynkvísla Ísraelsmanna

og töluðu þannig til þeirra í Síló í Kanaanlandi: "Drottinn bauð fyrir Móse að oss skyldi borgir gefa til bústaða, svo og beitilandið, er að þeim liggur, handa fénaði vorum."

Þá gáfu Ísraelsmenn levítunum af óðulum sínum, eftir boði Drottins, þessar borgir og beitilönd þau, er að þeim lágu.

Nú kom upp hlutur ætta Kahatíta, og fengu þá meðal levítanna synir Arons prests með hlutkesti þrettán borgir hjá Júda kynkvísl, Símeons kynkvísl og Benjamíns kynkvísl.

Hinir synir Kahats fengu með hlutkesti tíu borgir frá ættum Efraíms kynkvíslar og frá Dans kynkvísl og frá hálfri kynkvísl Manasse.

Synir Gersons fengu með hlutkesti þrettán borgir frá ættum Íssakars kynkvíslar, frá Assers kynkvísl, frá Naftalí kynkvísl og frá hálfri kynkvísl Manasse í Basan.

Merarí synir fengu tólf borgir eftir ættum þeirra frá Rúbens kynkvísl, frá Gaðs kynkvísl og frá Sebúlons kynkvísl.

Ísraelsmenn gáfu levítunum borgir þessar og beitilandið, er að þeim liggur, eftir hlutkesti, eins og Drottinn hafði boðið fyrir meðalgöngu Móse.

Þeir gáfu af kynkvísl Júda sona og af kynkvísl Símeons sona þessar borgir, sem hér eru nafngreindar.

10 Af ættum Kahatíta meðal Leví sona fengu Arons synir þær, af því að fyrsti hluturinn hlotnaðist þeim.

11 Þeim gáfu þeir Kirjat-Arba, er átt hafði Arba, faðir Anaks, það er Hebron, á Júdafjöllum og beitilandið umhverfis hana.

12 En akurland borgarinnar og þorpin, er að henni lágu, gáfu þeir Kaleb Jefúnnesyni til eignar.

13 Sonum Arons prests gáfu þeir: Hebron, sem var griðastaður vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, Líbna og beitilandið, er að henni lá,

14 Jattír og beitilandið, er að henni lá, Estemóa og beitilandið, er að henni lá,

15 Hólon og beitilandið, er að henni lá, Debír og beitilandið, er að henni lá,

16 Asan og beitilandið, er að henni lá, Jútta og beitilandið, er að henni lá, og Bet Semes og beitilandið er að henni lá _ níu borgir frá þessum tveimur ættkvíslum.

17 Af Benjamíns kynkvísl: Gíbeon og beitilandið, er að henni lá, Geba og beitilandið, er að henni lá,

18 Anatót og beitilandið, er að henni lá, og Almón og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir.

19 Þannig hlutu synir Arons, prestarnir, þrettán borgir alls og beitilönd þau, er að þeim lágu.

20 Að því er snertir ættir þeirra Kahats sona, er töldust til levítanna, hinna Kahats sonanna, þá fengu þær borgir þær, er þeim hlotnuðust frá Efraíms kynkvísl.

21 Þeir gáfu þeim Síkem, sem var griðastaður vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, á Efraímfjöllum, Geser og beitilandið, er að henni lá,

22 Kibsaím og beitilandið, er að henni lá, og Bet Hóron og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir.

23 Frá kynkvísl Dans: Elteke og beitilandið, er að henni lá, Gibbetón og beitilandið, er að henni lá,

24 Ajalon og beitilandið, er að henni lá, og Gat Rimmon og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir.

25 Frá hálfri kynkvísl Manasse: Taanak og beitilandið, er að henni lá, og Jibleam og beitilandið, er að henni lá _ tvær borgir.

26 Ættir hinna Kahats sonanna hlutu þannig tíu borgir alls og beitilönd þau, er að þeim lágu.

27 Af ættum levítanna fengu Gersons synir frá hálfri kynkvísl Manasse: Gólan í Basan, griðastað vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, og Beestera og beitilandið, er að henni lá _ tvær borgir.

28 Frá Íssakars kynkvísl: Kisjón og beitilandið, er að henni lá, Daberat og beitilandið, er að henni lá,

29 Jarmút og beitilandið, er að henni lá, og En-Ganním og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir.

30 Frá Assers kynkvísl: Míseal og beitilandið, er að henni lá, Abdón og beitilandið, er að henni lá,

31 Helkat og beitilandið, er að henni lá, og Rehób og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir.

32 Frá Naftalí kynkvísl: Kedes í Galíleu, griðastað vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, Hammót Dór og beitilandið, er að henni lá, og Kartan og beitilandið er að henni lá _ þrjár borgir.

33 Þannig hlutu Gersonítar eftir ættum þeirra, þrettán borgir alls og beitilönd þau, er að þeim lágu.

34 Ættir Merarí sona, þeirra Leví sona, er enn voru eftir, fengu frá Sebúlons kynkvísl: Jokneam og beitilandið, er að henni lá, Karta og beitilandið, er að henni lá,

35 Dimna og beitilandið, er að henni lá, og Nahalal og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir.

36 Frá Rúbens kynkvísl: Beser í eyðimörkinni, griðastað vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, Jahsa og beitilandið, er að henni lá,

37 Kedemót og beitilandið, er að henni lá, og Mefaat og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir.

38 Frá Gaðs kynkvísl: Ramót í Gíleað, griðastað vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, Mahanaím og beitilandið, er að henni lá,

39 Hesbon og beitilandið, er að henni lá, og Jaeser og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir alls.

40 Þannig fengu Merarí synir, eftir ættum þeirra, þeir er enn voru eftir af ættum levítanna, í sitt hlutskipti tólf borgir alls.

41 Borgir þær, er levítarnir fengu inni í eignarlöndum Ísraelsmanna, voru fjörutíu og átta alls, og beitilöndin, er að þeim lágu.

42 Og allar þessar borgir voru hver um sig ein borg með beitilandi umhverfis. Var svo um allar þessar borgir.

43 Drottinn gaf Ísrael allt landið, er hann hafði svarið að gefa feðrum þeirra, og þeir tóku það til eignar og settust þar að.

44 Og Drottinn lét þá búa í friði á alla vegu, öldungis eins og hann hafði svarið feðrum þeirra. Enginn af öllum óvinum þeirra fékk staðist fyrir þeim, Drottinn gaf alla óvini þeirra í hendur þeim.

45 Ekkert brást af öllum fyrirheitum þeim, er Drottinn hafði gefið húsi Ísraels. Þau rættust öll.

Postulasagan 1

Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt, sem Jesús gjörði og kenndi frá upphafi,

allt til þess dags, er hann gaf postulunum, sem hann hafði valið, fyrirmæli sín fyrir heilagan anda og varð upp numinn.

Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki.

Er hann var með þeim, bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem, heldur bíða eftir fyrirheiti föðurins, "sem þér," sagði hann, "hafið heyrt mig tala um.

Því að Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga."

Meðan þeir voru saman, spurðu þeir hann: "Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?"

Hann svaraði: "Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.

En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar."

Þegar hann hafði þetta mælt, varð hann upp numinn að þeim ásjáandi, og ský huldi hann sjónum þeirra.

10 Er þeir störðu til himins á eftir honum, þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum

11 og sögðu: "Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins."

12 Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan.

13 Er þeir komu þangað, fóru þeir upp í loftstofuna, þar sem þeir dvöldust: Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson.

14 Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum. María, móðir Jesú, var líka með þeim og bræður hans.

15 Á þessum dögum stóð Pétur upp meðal bræðranna. Þar var saman kominn flokkur manna, um eitt hundrað og tuttugu að tölu. Hann mælti:

16 "Bræður, rætast hlaut ritning sú, er heilagur andi sagði fyrir munn Davíðs um Júdas, sem vísaði leið þeim, er tóku Jesú höndum.

17 Hann var í vorum hópi, og honum var falin sama þjónusta.

18 Hann keypti reit fyrir laun ódæðis síns, steyptist á höfuðið og brast sundur í miðju, svo að iðrin öll féllu út.

19 Þetta varð kunnugt öllum Jerúsalembúum, og er reitur sá kallaður á tungu þeirra Akeldamak, það er Blóðreitur.

20 Ritað er í Sálmunum: Bústaður hans skal í eyði verða, enginn skal í honum búa, og: Annar taki embætti hans.

21 Einhver þeirra manna, sem með oss voru alla tíð, meðan Drottinn Jesús gekk inn og út vor á meðal,

22 allt frá skírn Jóhannesar til þess dags, er hann varð upp numinn frá oss, verður nú að gjörast vottur upprisu hans ásamt oss."

23 Og þeir tóku tvo til, Jósef, kallaðan Barsabbas, öðru nafni Jústus, og Mattías,

24 báðust fyrir og sögðu: "Drottinn, þú sem þekkir hjörtu allra. Sýn þú, hvorn þessara þú hefur valið

25 til að taka þessa þjónustu og postuladóm, sem Júdas vék frá til að fara til síns eigin staðar."

26 Þeir hlutuðu um þá, og kom upp hlutur Mattíasar. Var hann tekinn í tölu postulanna með þeim ellefu.

Jeremía 10

10 Heyrið orðið, sem Drottinn talar til yðar, Ísraels hús!

Svo segir Drottinn: Venjið yður ekki á sið heiðingjanna og hræðist ekki himintáknin, þótt heiðingjarnir hræðist þau.

Siðir þjóðanna eru hégómi. Menn höggva tré í skógi, og trésmiðurinn lagar það til með öxinni,

hann prýðir það silfri og gulli, hann festir það með nöglum og hömrum, svo að það riði ekki.

Skurðgoðin eru eins og hræða í melónugarði og geta ekki talað, bera verður þau, því að gengið geta þau ekki. Óttist þau því ekki, því að þau geta ekki gjört mein, en þau eru ekki heldur þess umkomin að gjöra gott.

Enginn er þinn líki, Drottinn! Mikill ert þú og mikið er nafn þitt sakir máttar þíns.

Hver skyldi eigi óttast þig, konungur þjóðanna? Já, þú ert þess maklegur, því að meðal allra spekinga þjóðanna og í öllu ríki þeirra er enginn þinn líki.

Allir saman eru þeir óskynsamir og fávísir, þeir þiggja fræðslu hinna fánýtu guða, sem eru úr tré.

Silfurplötur eru fluttar frá Tarsis, og gull frá Úfas, þeir eru verk trésmiðsins og gullsmiðsins. Klæðnaður þeirra er gjörður af bláum og rauðum purpura, verk hagleiksmanna eru þeir allir.

10 En Drottinn er sannur Guð. Hann er lifandi Guð og eilífur konungur. Fyrir reiði hans nötrar jörðin, og þjóðirnar fá eigi þolað gremi hans.

11 Þannig skuluð þér mæla til þeirra: Þeir guðir, sem ekki hafa skapað himin og jörð, munu hverfa af jörðinni og undan himninum.

12 Hann sem gjört hefir jörðina með krafti sínum, skapað heiminn af speki sinni og þanið út himininn af hyggjuviti sínu,

13 þegar hann þrumar, svarar vatnagnýr í himninum, og hann lætur ský upp stíga frá endimörkum jarðar. Hann gjörir leiftur til þess að búa rás regninu og hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.

14 Sérhver maður stendur undrandi og skilur þetta ekki, sérhver gullsmiður hlýtur að skammast sín fyrir líkneski sitt, því að hin steyptu líkneski hans eru tál og í þeim er enginn andi.

15 Hégómi eru þau, háðungar-smíði. Þegar hegningartími þeirra kemur er úti um þau.

16 En sá Guð, sem er hlutdeild Jakobs, er ekki þeim líkur, heldur er hann skapari alls, og Ísrael er hans eignarkynkvísl. Drottinn allsherjar er nafn hans.

17 Tak böggul þinn upp af jörðinni, þú sem situr umsetin.

18 Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég mun burt snara íbúum landsins í þetta sinn og þrengja að þeim til þess að þeir fái að kenna á því.

19 Vei mér vegna sárs míns, áverki minn er ólæknandi. Og þó hugsaði ég: Ef þetta er öll þjáningin, þá ber ég hana!

20 Tjald mitt er eyðilagt, öll tjaldstög mín slitin, synir mínir eru frá mér farnir og eru ekki framar til. Enginn er sá til, er reisi aftur tjald mitt og festi aftur upp tjalddúka mína.

21 Já, óskynsamir voru hirðarnir og Drottins leituðu þeir ekki. Fyrir því lánaðist þeim ekkert, og allri hjörð þeirra var tvístrað.

22 Heyr! Hávaði! Sjá, það færist nær, ógurlegt hark úr landinu norður frá til þess að gjöra Júdaborgir að auðn, að sjakalabæli.

23 Ég veit, Drottinn, að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.

24 Refsa oss, Drottinn, en þó í hófi, ekki í reiði þinni, til þess að þú gjörir ekki út af við oss.

25 Úthell heift þinni yfir heiðnu þjóðirnar, sem ekki þekkja þig, og yfir þær kynkvíslir, sem ekki ákalla nafn þitt, því að þær hafa etið Jakob, já, þær hafa etið hann og svelgt hann upp, og beitiland hans hafa þær eytt.

Matteusarguðspjall 24

24 Jesús gekk út úr helgidóminum og hélt brott. Þá komu lærisveinar hans og vildu sýna honum byggingar helgidómsins.

Hann sagði við þá: "Þér sjáið allt þetta? Sannlega segi ég yður, hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."

Þá er hann sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: "Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?"

Jesús svaraði þeim: "Varist að láta nokkurn leiða yður í villu.

Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Ég er Kristur!` og marga munu þeir leiða í villu.

Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess, að skelfast ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.

Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.

Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.

Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.

10 Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata.

11 Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu.

12 Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.

13 En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.

14 Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.

15 Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað," _ lesandinn athugi það _

16 "þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.

17 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt.

18 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.

19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.

20 Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi.

21 Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.

22 Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.

23 Ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur` eða ,þar`, þá trúið því ekki.

24 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti.

25 Sjá, ég hef sagt yður það fyrir.

26 Ef þeir segja við yður: ,Sjá, hann er í óbyggðum,` þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: ,Sjá, hann er í leynum,` þá trúið því ekki.

27 Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins.

28 Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er.

29 En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.

30 Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.

31 Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.

32 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd.

33 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum.

34 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.

35 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.

36 En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.

37 Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins.

38 Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina.

39 Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.

40 Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.

41 Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin.

42 Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.

43 Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi.

44 Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.

45 Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma?

46 Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.

47 Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.

48 En ef illur þjónn segir í hjarta sínu: ,Húsbónda mínum dvelst,`

49 og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum,

50 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki,

51 höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society