Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jósúabók 8

Drottinn sagði við Jósúa: "Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast. Tak með þér allt herliðið, og tak þig upp og far til Aí. Sjá, ég mun gefa konunginn í Aí, fólk hans, borg og land í þínar hendur.

Og þú skalt fara með Aí og konung hennar eins og þú fórst með Jeríkó og konung hennar. Þó megið þér taka herfang það og fénað þann, sem þar er, yður til handa. Settu launsátur að baki borgarinnar."

Þá tók Jósúa sig upp með allt herliðið og hélt til Aí. En Jósúa valdi nú þrjátíu þúsundir hraustra manna og sendi þá af stað um nóttina

og lagði svo fyrir þá: "Sjáið til! Þér skuluð liggja í launsátri að baki borgarinnar, en verið ekki mjög langt frá borginni og verið allir viðbúnir.

Sjálfur mun ég fara til borgarinnar með alla mína menn, og er þeir fara út í móti oss, eins og hið fyrra sinnið, munum vér flýja undan þeim.

Og þeir munu veita oss eftirför, uns vér höfum teygt þá burt frá borginni, því að þeir munu segja: ,Nú flýja þeir fyrir oss, eins og hið fyrra sinnið,` og vér munum flýja fyrir þeim.

Þá skuluð þér spretta upp úr launsátrinu og taka borgina, því að Drottinn, Guð yðar, mun gefa hana á yðar vald.

En er þér hafið tekið borgina herskildi, skuluð þér leggja eld í borgina. Gjörið það, sem Drottinn segir. Gefið nú gætur að; ég hefi boðið yður það."

Sendi Jósúa þá nú af stað, og fóru þeir í launsátrið og námu staðar milli Betel og Aí, vestanvert við Aí. En Jósúa hafðist við um nóttina meðal lýðsins.

10 Morguninn eftir reis Jósúa árla og kannaði liðið. Fór hann því næst sjálfur og öldungar Ísraels fyrir liðinu upp til Aí.

11 Og allt herliðið, sem með honum var, fór upp þangað. Héldu þeir fram, þar til er þeir komu gegnt borginni. Þar settu þeir herbúðir sínar fyrir norðan Aí, og var dalurinn milli þeirra og Aí.

12 Því næst tók hann um fimm þúsundir manns og setti þá í launsátur milli Betel og Aí, vestanvert við borgina.

13 Þeir fylktu nú liðinu, öllum hernum, sem var fyrir norðan borgina, og afturliðinu fyrir vestan borgina. En Jósúa fór þessa sömu nótt ofan í dalinn miðjan.

14 Er konungurinn í Aí varð þessa vís, höfðu borgarmenn hraðan á, risu árla og fóru út í móti Ísrael til orustu, hann og allt hans lið, á ákveðnum stað gegnt Jórdandalnum. En hann vissi ekki, að honum var búin launsát að borgar baki.

15 En Jósúa og allur Ísrael létust bíða ósigur fyrir þeim og flýðu á leið til eyðimerkurinnar.

16 Voru þá allir menn, er í borginni voru, kvaddir til að reka flóttann, og veittu þeir Jósúa eftirför og létu teygjast burt frá borginni.

17 Varð enginn maður eftir í Aí og Betel, sá er eigi færi eftir Ísrael; skildu þeir eftir opna borgina og veittu Ísrael eftirför.

18 Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Rétt þú út spjót það, sem þú hefir í hendi þér, gegn Aí, því að ég mun gefa hana þér á vald." Og Jósúa rétti út spjótið, sem hann hafði í hendi sér, gegn borginni.

19 Þá spratt launsátursliðið hratt upp úr stað sínum. Skunduðu þeir að, er hann rétti út höndina, fóru inn í borgina og tóku hana, lögðu því næst sem skjótast eld í borgina.

20 En er Aí-menn sneru sér við, sáu þeir að reyk lagði upp af borginni til himins, og brast þá nú þróttur, svo að þeir máttu í hvoruga áttina flýja, og liðið, sem flúið hafði til eyðimerkurinnar, snerist nú í móti þeim, er rekið höfðu flóttann.

21 En er Jósúa og allur Ísrael sáu, að launsátursliðið hafði tekið borgina og að reykinn lagði upp af borginni, þá hurfu þeir aftur og gjörðu áhlaup á Aí-menn.

22 Hinir komu þá og úr borginni út í móti þeim, og urðu þeir nú milli Ísraelsmanna, sem umkringdu þá á alla vegu. Felldu þeir þá, svo að enginn var eftir skilinn, sá er undan kæmist eða forðaði lífi sínu.

23 En konunginum í Aí náðu þeir lifandi á sitt vald og fóru með hann til Jósúa.

24 Er Ísrael hafði drepið alla Aí-búa úti á víðavangi, í eyðimörkinni, þangað sem þeir höfðu veitt þeim eftirför, og þeir voru allir fallnir fyrir sverðseggjum, svo að enginn þeirra var eftir, þá hurfu allir Ísraelsmenn aftur til Aí og felldu íbúana með sverðseggjum.

25 Og allir þeir, sem féllu á þeim degi, bæði karlar og konur, voru tólf þúsund manns, allir Aí-búar.

26 Jósúa dró ekki að sér höndina, sem hann hélt í spjótinu, uns hann hafði gjöreytt öllum Aí-búum.

27 En fénaðinum og herfangi því, er í borginni var, rændu Ísraelsmenn sér til handa eftir boði Drottins, því er hann hafði lagt fyrir Jósúa.

28 Jósúa brenndi Aí og gjörði hana að ævinlegri grjóthrúgu, eyðirúst, fram á þennan dag.

29 Og konunginn í Aí lét hann hengja á tré og lét hann hanga til kvelds, en um sólarlagsbil bauð Jósúa að taka líkama hans ofan af trénu. Köstuðu þeir honum út fyrir borgarhliðið og gjörðu yfir hann steindys mikla, og er hún þar enn í dag.

30 Jósúa reisti Drottni, Ísraels Guði, altari á Ebalfjalli,

31 eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið Ísraelsmönnum, samkvæmt því sem skrifað er í lögmálsbók Móse, altari af óhöggnum steinum, er járntól hafði ekki verið borið að. Og þeir fórnuðu Drottni brennifórnum á því og slátruðu heillafórnum.

32 Og hann skrifaði þar á steinana eftirrit af lögmáli Móse, því er hann hafði skrifað í augsýn Ísraelsmanna.

33 Og allur Ísrael, öldungar hans, tilsjónarmenn og dómarar stóðu báðumegin við örkina, gegnt levítaprestunum, er báru sáttmálsörk Drottins, bæði útlendir menn og innbornir, annar helmingurinn utan í Garísímfjalli og hinn helmingurinn utan í Ebalfjalli, samkvæmt því sem Móse, þjónn Drottins, hafði boðið, að blessa Ísraelslýð.

34 Og eftir það las hann upp öll orð lögmálsins, blessunina og bannfæringuna, samkvæmt öllu því, sem skrifað er í lögmálsbókinni.

35 Ekkert orð af því, er Móse hafði boðið, var úr fellt. Jósúa las það allt upp fyrir öllum söfnuði Ísraels, einnig fyrir konum og börnum og útlendingum þeim, er með þeim höfðu farið.

Sálmarnir 139

139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?

Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,

10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"

12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.

13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.

14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.

15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.

16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.

17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.

18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.

20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.

21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?

22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.

23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,

24 og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.

Jeremía 2

Orð Drottins kom til mín:

Far og kunngjör Jerúsalem þetta: Svo segir Drottinn: Ég man eftir kærleika æsku þinnar, elsku festartíma þíns, hversu þú fylgdir mér í eyðimörkinni, í ófrjóu landi.

Ísrael var helgaður Drottni, frumgróði uppskeru hans, allir þeir, sem vildu eta hann, urðu sekir, ógæfa kom yfir þá _ segir Drottinn.

Heyrið orð Drottins, Jakobs hús og allar þér ættkvíslir Ísraels húss!

Svo segir Drottinn: Hver rangindi hafa feður yðar fundið hjá mér, að þeir hurfu frá mér og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega,

og sögðu ekki: "Hvar er Drottinn, sem flutti oss burt af Egyptalandi, sem leiddi oss um eyðimörkina, um heiða- og gjótulandið, um þurra og niðdimma landið, um landið, sem enginn fer um og enginn maður býr í?"

Ég leiddi yður inn í aldingarðslandið, til þess að þér nytuð ávaxta þess og gæða, en þegar þér voruð komnir þangað, saurguðuð þér land mitt og gjörðuð óðal mitt að viðurstyggð.

Prestarnir sögðu ekki: "Hvar er Drottinn?" og þeir, er við lögmálið fengust, þekktu mig ekki. Hirðarnir rufu trúnað við mig, og spámennirnir spáðu í nafni Baals og eltu þá, sem ekki geta hjálpað.

Fyrir því mun ég enn þreyta mál við yður _ segir Drottinn _ og við sonasonu yðar mun ég þreyta mál:

10 Farið yfir til stranda Kitta og gangið úr skugga um, og sendið til Kedars og hyggið vandlega að. Gangið úr skugga um, hvort slíkt hafi nokkurn tíma við borið!

11 hvort nokkur þjóð hafi skipt um guð _ og það þótt þeir væru ekki guðir! En mín þjóð hefir látið vegsemd sína fyrir það, sem ekki getur hjálpað.

12 Furðið yður, himnar, á þessu og skelfist og verið agndofa _ segir Drottinn.

13 Því að tvennt illt hefir þjóð mín aðhafst: Þeir hafa yfirgefið mig, uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna, brunna með sprungum, sem ekki halda vatni.

14 Er Ísrael þræll, eða er hann heimafætt þý? Hví er hann orðinn að herfangi?

15 Ljón grenjuðu móti honum, hófu upp öskur sitt og gjörðu land hans að auðn. Borgir hans voru brenndar, urðu mannauðar.

16 Nóf-menn og Takpanes-menn reyttu á þér skallann.

17 Hefir þú ekki bakað þér þetta með því að yfirgefa Drottin, Guð þinn, þá er hann leiddi þig á veginum?

18 Og nú, hvað þarft þú að fara til Egyptalands? Til þess að drekka vatn úr Níl? Og hvað þarft þú að fara til Assýríu? Til þess að drekka vatn úr Efrat?

19 Vonska þín mun aga þig og fráhvarf þitt refsa þér. Þú skalt fá að kenna á því og reyna það, hve illt og beiskt það er, að þú yfirgafst Drottin, Guð þinn. Þú hafðir ekki ótta fyrir mér _ segir herrann, Drottinn allsherjar.

20 Fyrir löngu hefir þú sundurbrotið ok þitt, slitið böndin og sagt: "Ég vil ekki þjóna!" Því að á hverjum háum hól og undir hverju grænu tré lagðist þú niður og hóraðist.

21 En ég hafði gróðursett þig sem gæðavínvið, eintómt úrvalssæði, hvernig gastu breytst fyrir mér í villivínviðarteinunga.

22 Já, þótt þú þvægir þér með lút og brúkaðir mikla sápu á þig, þá verður samt misgjörð þín óhrein fyrir mér _ herrann Drottinn segir það.

23 Hvernig getur þú sagt: "Ég hefi ekki saurgað mig, ég hefi ekki elt Baalana"? Hygg að athæfi þínu í dalnum, sjá, hvað þú hefir gjört, léttfætta úlfaldahryssa, sem hleypur til og frá.

24 Eins og villiasna, sem vön er eyðimörkinni, stendur hún á öndinni í girndarbruna sínum, _ hver fær aftrað losta hennar? Þeir sem hennar leita, þurfa engir að þreyta sig, þeir finna hana í mánuði hennar.

25 Varðveit þú fót þinn, svo að skórinn fari ekki af honum, og háls þinn, svo að hann verði ekki þurr! En þú segir: "Það er til einskis! Nei! Ég elska hina útlendu og þá vil ég elta!"

26 Eins og þjófurinn má skammast sín, þegar hann er staðinn að verkinu, svo má Ísraels hús skammast sín: Þeir, konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra,

27 segja við trédrumb: "Þú ert faðir minn!" og við stein: "Þú hefir fætt mig!" Þeir hafa snúið við mér bakinu, en ekki andlitinu, en þegar þeir eru í nauðum staddir, þá hrópa þeir: "Rís upp og hjálpa oss!"

28 En hvar eru guðir þínir, sem þú hefir gjört þér? Þeir verða að rísa upp, ef þeir geta hjálpað þér, þegar þú ert í nauðum staddur! Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar.

29 Hví þráttið þér við mig? Þér hafið allir rofið trúnað við mig _ segir Drottinn.

30 Til einskis hefi ég slegið sonu yðar, aga þýddust þér ekki, sverð yðar tortímdi spámönnum yðar, eins og eyðandi ljón.

31 Þú kynslóð, gef gaum orði Drottins! Hefi ég verið eyðimörk fyrir Ísrael eða niðdimmt land? Hví segir þá þjóð mín: "Vér erum lausir, vér munum ekki koma aftur til þín!"

32 Mun mær gleyma skarti sínu, brúður belti sínu? Og þó hefir þjóð mín gleymt mér afar langan tíma.

33 Hversu haganlega fer þú að ráði þínu, til þess að leita þér ástar! Til þess hefir þú jafnvel vanið þig á glæpa-atferli.

34 Jafnvel á faldi klæða þinna sést blóð saklausra aumingja. Þú stóðst þá eigi að innbroti.

35 Þrátt fyrir allt þetta segir þú: "Ég er saklaus, vissulega hefir reiði hans snúist frá mér." Sjá, nú dreg ég þig fyrir dóm, af því að þú segir: "Ég hefi ekki syndgað."

36 Hví flýtir þú þér svo mjög burt til þess að halda aðra leið? Vonir þínar um Egyptaland munu og bregðast, eins og vonir þínar um Assýríu brugðust.

37 Einnig þaðan munt þú koma, sláandi höndum saman yfir höfði þér, því að Drottinn hefir hafnað þeim, er þú treystir á, og þér mun ekkert lánast með þá.

Matteusarguðspjall 16

16 Þá komu farísear og saddúkear, vildu freista hans og báðu hann að sýna sér tákn af himni.

Hann svaraði þeim: "Að kvöldi segið þér: ,Það verður góðviðri, því að roði er á lofti.`

Og að morgni: ,Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn.` Útlit loftsins kunnið þér að ráða, en ekki tákn tímanna.

Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar." Síðan skildi hann við þá og fór.

Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið, höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð.

Jesús sagði við þá: "Gætið yðar, varist súrdeig farísea og saddúkea."

En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki tekið brauð.

Jesús varð þess vís og sagði: "Hvað eruð þér að tala um það, trúlitlir menn, að þér hafið ekki brauð?

Skynjið þér ekki enn? Minnist þér ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman?

10 Eða brauðanna sjö handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman?

11 Hvernig má það vera, að þér skynjið ekki, að ég var ekki að tala um brauð við yður. Varist súrdeig farísea og saddúkea."

12 Þá skildu þeir, að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði, heldur kenningu farísea og saddúkea.

13 Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: "Hvern segja menn Mannssoninn vera?"

14 Þeir svöruðu: "Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum."

15 Hann spyr: "En þér, hvern segið þér mig vera?"

16 Símon Pétur svarar: "Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs."

17 Þá segir Jesús við hann: "Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum.

18 Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.

19 Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum."

20 Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum, að hann væri Kristur.

21 Upp frá þessu tók Jesús að sýna lærisveinum sínum fram á, að hann ætti að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi.

22 En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: "Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma."

23 Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: "Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er."

24 Þá mælti Jesús við lærisveina sína: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.

25 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.

26 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?

27 Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans.

28 Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society