Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 15

15 Að nokkrum tíma liðnum kom Samson um hveitiuppskerutímann að vitja konu sinnar og hafði með sér hafurkið. Og hann sagði við föður hennar: "Leyf mér að ganga inn í afhýsið til konu minnar!" En faðir hennar vildi ekki leyfa honum inn að ganga.

Og faðir hennar sagði: "Ég var fullviss um, að þú hefðir fengið megna óbeit á henni og gifti hana því brúðarsveini þínum, en yngri systir hennar er fríðari en hún, hana skalt þú fá í hennar stað."

Þá sagði Samson við þá: "Nú ber ég enga sök á því við Filista, þó að ég vinni þeim mein."

Síðan fór Samson og veiddi þrjú hundruð refi, tók blys, sneri hölunum saman og batt eitt blys millum hverra tveggja hala.

Síðan kveikti hann í blysunum og sleppti því næst refunum inn á kornakra Filista og brenndi þannig bæði kerfaskrúf, óslegið korn, víngarða og olíugarða.

Þá sögðu Filistar: "Hver hefir gjört þetta?" Og menn svöruðu: "Samson, tengdasonur Timnítans, því að hann hefir tekið frá honum konuna og gift hana brúðarsveini hans." Þá fóru Filistar upp þangað og brenndu hana inni og föður hennar.

En Samson sagði við þá: "Fyrst þér aðhafist slíkt, mun ég ekki hætta fyrr en ég hefi hefnt mín á yður."

Síðan barði hann svo óþyrmilega á þeim, að sundur gengu lær og leggir. Og hann fór þaðan og settist að í Etamklettaskoru.

Þá fóru Filistar upp eftir og settu herbúðir sínar í Júda og dreifðu sér um Lekí.

10 Og Júdamenn sögðu: "Hví hafið þér farið í móti oss?" En þeir svöruðu: "Vér erum hingað komnir til þess að binda Samson, svo að vér megum með hann fara sem hann hefir farið með oss."

11 Þá fóru þrjú þúsund manns frá Júda ofan til Etamklettaskoru og sögðu við Samson: "Veist þú ekki, að Filistar drottna yfir oss? Hví hefir þú þá gjört oss þetta?" Hann svaraði þeim: "Eins og þeir fóru með mig, svo hefi ég farið með þá."

12 Þeir sögðu við hann: "Vér erum hingað komnir til að binda þig, svo að vér getum selt þig í hendur Filista." Þá sagði Samson við þá: "Vinnið mér eið að því, að þér sjálfir skulið ekki drepa mig."

13 Þeir svöruðu honum: "Nei, vér munum aðeins binda þig og selja þig í hendur þeirra _ en drepa þig munum vér ekki." Og þeir bundu hann með tveimur reipum nýjum og fóru með hann burt frá klettinum.

14 En er Samson kom til Lekí, fóru Filistar með ópi miklu í móti honum. Þá kom andi Drottins yfir hann, og urðu reipin, sem voru um armleggi hans, sem þræðir í eldi brunnir, og hrukku fjötrarnir sundur af höndum hans.

15 Og hann fann nýjan asnakjálka, rétti út höndina og tók hann og laust með honum þúsund manns.

16 Þá sagði Samson: "Með asnakjálka hefi ég gjörsamlega flegið þá, með asnakjálka hefi ég banað þúsund manns!"

17 Og er hann hafði mælt þetta, varpaði hann kjálkanum úr hendi sér, og var þessi staður upp frá því nefndur Ramat Lekí.

18 En Samson var mjög þyrstur og hrópaði því til Drottins og mælti: "Þú hefir veitt þennan mikla sigur fyrir hönd þjóns þíns, en nú hlýt ég að deyja af þorsta og falla í hendur óumskorinna manna!"

19 Þá klauf Guð holuna, sem var í Lekí, svo að vatn rann fram úr henni. En er hann hafði drukkið, kom andi hans aftur og hann lifnaði við. Fyrir því var hún nefnd Hrópandans lind. Hún er í Lekí fram á þennan dag.

20 En Samson var dómari í Ísrael um daga Filista í tuttugu ár.

Postulasagan 19

19 Meðan Apollós var í Korintu, fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina.

Hann sagði við þá: "Fenguð þér heilagan anda, er þér tókuð trú?" Þeir svöruðu: "Nei, vér höfum ekki einu sinni heyrt, að heilagur andi sé til."

Hann sagði: "Upp á hvað eruð þér þá skírðir?" Þeir sögðu: "Skírn Jóhannesar."

Þá mælti Páll: "Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði lýðnum að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesú."

Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú.

Er Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom heilagur andi yfir þá, og þeir töluðu tungum og spáðu.

Þessir menn voru alls um tólf.

Páll sótti nú samkunduna í þrjá mánuði og talaði þar djarflega og reyndi að sannfæra menn um Guðs ríki.

En nokkrir brynjuðu sig og vildu ekki trúa. Þegar þeir tóku að illmæla veginum í áheyrn fólksins, sagði Páll skilið við þá, greindi lærisveinana frá þeim, og síðan talaði hann daglega í skóla Týrannusar.

10 Þessu fór fram í tvö ár, svo að allir þeir, sem í Asíu bjuggu, heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir.

11 Guð gjörði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls.

12 Það bar við, að menn lögðu dúka og flíkur af Páli á sjúka, og hurfu þá veikindi þeirra, og illir andar fóru út af þeim.

13 En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim, er höfðu illa anda. Þeir sögðu: "Ég særi yður við Jesú þann, sem Páll prédikar."

14 Þeir er þetta frömdu, voru sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests.

15 En illi andinn sagði við þá: "Jesú þekki ég, og Pál kannast ég við, en hverjir eruð þér?"

16 Og maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart, að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu.

17 Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla, og nafn Drottins Jesú varð miklað.

18 Margir þeirra, sem trú höfðu tekið, komu, gjörðu játningu og sögðu frá athæfi sínu.

19 Og allmargir er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga.

20 Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans.

21 Þá er þetta var um garð gengið, tók Páll þá ákvörðun að ferðast um Makedóníu og Akkeu og fara síðan til Jerúsalem. Hann sagði: "Þegar ég hef verið þar, ber mér líka að sjá Róm."

22 Hann sendi tvo aðstoðarmenn sína, þá Tímóteus og Erastus, til Makedóníu, en dvaldist sjálfur um tíma í Asíu.

23 Í þann tíma urðu miklar æsingar út af veginum.

24 Demetríus hét maður og var silfursmiður. Bjó hann til Artemisar-musteri úr silfri og veitti smiðum eigi litla atvinnu.

25 Hann stefndi þeim saman og öðrum, sem að slíku unnu, og sagði: "Góðir menn, þér vitið, að velmegun vor hvílir á þessari atvinnu.

26 Og þér sjáið og heyrið, að Páll þessi hefur með fortölum sínum snúið fjölda fólks, ekki einungis í Efesus, heldur nær um gjörvalla Asíu. Hann segir, að eigi séu það neinir guðir, sem með höndum eru gjörðir.

27 Nú horfir þetta ekki einungis iðn vorri til smánar, heldur einnig til þess, að helgidómur hinnar miklu gyðju, Artemisar, verði einskis virtur og að hún, sem öll Asía og heimsbyggðin dýrkar, verði svipt tign sinni."

28 Er þeir heyrðu þetta, urðu þeir afar reiðir og æptu: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"

29 Og öll borgin komst í uppnám, menn þustu hver um annan til leikvangsins og þrifu með sér þá Gajus og Aristarkus, förunauta Páls úr Makedóníu.

30 En er Páll vildi ganga inn í mannþröngina, leyfðu lærisveinarnir honum það ekki.

31 Nokkrir höfðingjar skattlandsins, sem voru vinir hans, sendu einnig til hans og báðu hann að hætta sér ekki inn á leikvanginn.

32 Menn hrópuðu nú sitt hver, því að mannsöfnuðurinn var í uppnámi, og vissu fæstir, hvers vegna þeir voru saman komnir.

33 Nokkrir í mannþrönginni töldu það vera vegna Alexanders, því að Gyðingar ýttu honum fram, en Alexander benti til hljóðs með hendinni og vildi verja mál sitt fyrir fólkinu.

34 Þegar menn urðu þess vísir, að hann var Gyðingur, lustu allir upp einu ópi og hrópuðu í nærfellt tvær stundir: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"

35 En borgarritarinn gat sefað fólkið og mælti: "Efesusmenn, hver er sá maður, að hann viti ekki, að borg Efesusmanna geymir musteri hinnar miklu Artemisar og steininn helga af himni?

36 Þar sem enginn má gegn því mæla, ber yður að vera stilltir og hrapa ekki að neinu.

37 Þér hafið dregið þessa menn hingað, þótt þeir hafi hvorki framið helgispjöll né lastmælt gyðju vorri.

38 Eigi nú Demetríus og smiðirnir, sem honum fylgja, sök við nokkurn, þá eru þingdagar haldnir, og til eru landstjórar. Eigist þeir lög við.

39 En ef þér hafið annars að krefja, má gjöra út um það á löglegu þingi.

40 Vér eigum á hættu að verða sakaðir um uppreisn fyrir þetta í dag og getum ekki bent á neitt tilefni, sem gæti afsakað slík ólæti." Að svo mæltu lét hann mannsöfnuðinn fara.

Jeremía 28

28 Þetta ár _ í upphafi ríkisstjórnar Sedekía konungs í Júda, fjórða árið, í fimmta mánuðinum _ sagði Hananja spámaður Assúrsson frá Gíbeon við mig í musteri Drottins í viðurvist prestanna og alls lýðsins:

"Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Ég brýt sundur ok Babelkonungs!

Áður en tvö ár eru liðin, flyt ég aftur á þennan stað öll áhöldin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar Babelkonungur tók á þessum stað og flutti til Babýlon.

Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og alla hina herleiddu úr Júda, þá er komnir eru til Babýlon, flyt ég og aftur á þennan stað _ segir Drottinn _ því að ég brýt sundur ok Babelkonungs!"

Þá talaði Jeremía spámaður til Hananja spámanns í viðurvist prestanna og alls lýðsins, sem stóð í musteri Drottins,

og Jeremía spámaður mælti: "Verði svo! Drottinn gjöri það! Drottinn láti orð þín, er þú hefir spáð, rætast, svo að hann flytji aftur frá Babýlon á þennan stað áhöldin úr musteri Drottins og alla hina herleiddu!

En heyr þessi orð, sem ég kunngjöri þér og öllum lýðnum:

Þeir spámenn, sem komið hafa fram á undan mér og á undan þér frá alda öðli, þeir spáðu voldugum löndum og stórum konungsríkjum ófriði, óhamingju og drepsótt.

En sá spámaður, sem spáir heill, _ ef orð hans rætast, þá þekkist á því sá spámaður, er Drottinn hefir sannarlega sent."

10 Þá tók Hananja spámaður okið af hálsi Jeremía spámanns og braut það sundur.

11 Síðan mælti Hananja í viðurvist alls lýðsins á þessa leið: "Svo segir Drottinn: Eins skal ég sundurbrjóta ok Nebúkadnesars Babelkonungs áður tvö ár eru liðin af hálsi allra þjóða!" En Jeremía spámaður fór leiðar sinnar.

12 En orð Drottins kom til Jeremía, eftir að Hananja spámaður hafði sundurbrotið okið af hálsi Jeremía spámanns:

13 Far og seg við Hananja: Svo segir Drottinn: Tré-ok hefir þú sundurbrotið, en ég vil í þess stað gjöra járn-ok!

14 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Járnok legg ég á háls allra þessara þjóða, til þess að þær verði þegnskyldar Nebúkadnesar Babelkonungi og þjóni honum, já, jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum.

15 Þá sagði Jeremía spámaður við Hananja spámann: "Heyr þú, Hananja! Drottinn hefir ekki sent þig, og þó hefir þú ginnt lýð þennan til að reiða sig á lygar!

16 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég kippi þér burt af jörðinni. Á þessu ári skalt þú deyja, því að þú hefir prédikað fráhvarf frá Drottni."

17 Og Hananja spámaður dó þetta ár, í sjöunda mánuðinum.

Markúsarguðspjall 14

14 Nú voru tveir dagar til páska og hátíðar ósýrðu brauðanna. Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu handsamað Jesú með svikum og tekið hann af lífi.

En þeir sögðu: "Ekki á hátíðinni, þá gæti orðið uppþot með lýðnum."

Hann var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum.

En þar voru nokkrir, er gramdist þetta, og þeir sögðu sín á milli: "Til hvers er þessi sóun á smyrslum?

Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum." Og þeir atyrtu hana.

En Jesús sagði: "Látið hana í friði! Hvað eruð þér að angra hana? Gott verk gjörði hún mér.

Fátæka hafið þér jafnan hjá yður og getið gjört þeim gott, nær þér viljið, en mig hafið þér ekki ávallt.

Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrirfram smurt líkama minn til greftrunar.

Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess, sem hún gjörði, til minningar um hana."

10 Júdas Ískaríot, einn þeirra tólf, fór þá til æðstu prestanna að framselja þeim hann.

11 Þegar þeir heyrðu það, urðu þeir glaðir við og hétu honum fé fyrir. En hann leitaði færis að framselja hann.

12 Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna, þegar menn slátruðu páskalambinu, sögðu lærisveinar hans við hann: "Hvert vilt þú, að vér förum og búum þér páskamáltíðina?"

13 Þá sendi hann tvo lærisveina sína og sagði við þá: "Farið inn í borgina, og ykkur mun mæta maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum,

14 og þar sem hann fer inn, skuluð þið segja við húsráðandann: ,Meistarinn spyr: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?`

15 Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum og til reiðu. Hafið þar viðbúnað fyrir oss."

16 Lærisveinarnir fóru, komu inn í borgina og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar.

17 Um kvöldið kom hann með þeim tólf.

18 Þegar þeir sátu að borði og mötuðust sagði Jesús: "Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig, einn sem með mér etur."

19 Þeir urðu hryggir við og sögðu við hann, einn af öðrum: "Ekki er það ég?"

20 Hann svaraði þeim: "Það er einn þeirra tólf. Hann dýfir í sama fat og ég.

21 Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst."

22 Þá er þeir mötuðust, tók hann brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf þeim og sagði: "Takið, þetta er líkami minn."

23 Og hann tók kaleik, gjörði þakkir og gaf þeim, og þeir drukku af honum allir.

24 Og hann sagði við þá: "Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga.

25 Sannlega segi ég yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins til þess dags, er ég drekk hann nýjan í Guðs ríki."

26 Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir til Olíufjallsins.

27 Og Jesús sagði við þá: "Þér munuð allir hneykslast, því að ritað er: Ég mun slá hirðinn, og sauðirnir munu tvístrast.

28 En eftir að ég er upp risinn, mun ég fara á undan yður til Galíleu."

29 Þá sagði Pétur: "Þótt allir hneykslist, geri ég það aldrei."

30 Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Nú í nótt, áður en hani galar tvisvar, muntu þrisvar afneita mér."

31 En Pétur kvað enn fastar að: "Þó að ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér." Eins töluðu þeir allir.

32 Þeir koma til staðar, er heitir Getsemane, og Jesús segir við lærisveina sína: "Setjist hér, meðan ég biðst fyrir."

33 Hann tók með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes. Og nú setti að honum ógn og angist.

34 Hann segir við þá: "Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið."

35 Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll til jarðar og bað, að sú stund færi fram hjá sér, ef verða mætti.

36 Hann sagði: "Abba, faðir! allt megnar þú. Tak þennan kaleik frá mér! Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt."

37 Hann kemur aftur og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: "Símon, sefur þú? Gastu ekki vakað eina stund?

38 Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt."

39 Aftur vék hann brott og baðst fyrir með sömu orðum.

40 Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra. Og ekki vissu þeir, hvað þeir ættu að segja við hann.

41 Í þriðja sinn kom hann og sagði við þá: "Sofið þér enn og hvílist? Nú er nóg. Stundin er komin. Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna.

42 Standið upp, förum! Sá er í nánd, er mig svíkur."

43 Um leið, meðan hann var enn að tala, kemur Júdas, einn þeirra tólf, og með honum flokkur manna frá æðstu prestunum, fræðimönnunum og öldungunum, og höfðu þeir sverð og barefli.

44 Svikarinn hafði sagt þeim þetta til marks: "Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum og færið brott í tryggri vörslu."

45 Hann kemur, gengur beint að Jesú og segir: "Rabbí!" og kyssti hann.

46 En hinir lögðu hendur á hann og tóku hann.

47 Einn þeirra, er hjá stóðu, brá sverði, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað.

48 Þá sagði Jesús við þá: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig?

49 Daglega var ég hjá yður í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum. En ritningarnar hljóta að rætast."

50 Þá yfirgáfu hann allir lærisveinar hans og flýðu.

51 En maður nokkur ungur fylgdist með honum. Hann hafði línklæði eitt á berum sér. Þeir vildu taka hann,

52 en hann lét eftir línklæðið og flýði nakinn.

53 Nú færðu þeir Jesú til æðsta prestsins. Þar komu saman allir æðstu prestarnir, öldungarnir og fræðimennirnir.

54 Pétur fylgdi honum álengdar, allt inn í garð æðsta prestsins. Þar sat hann hjá þjónunum og vermdi sig við eldinn.

55 Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu vitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann, en fundu eigi.

56 Margir báru þó ljúgvitni gegn honum, en framburði þeirra bar ekki saman.

57 Þá stóðu nokkrir upp og báru ljúgvitni gegn honum og sögðu:

58 "Vér heyrðum hann segja: ,Ég mun brjóta niður musteri þetta, sem með höndum er gjört, og reisa annað á þrem dögum, sem ekki er með höndum gjört.` "

59 En ekki bar þeim heldur saman um þetta.

60 Þá stóð æðsti presturinn upp og spurði Jesú: "Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?"

61 En hann þagði og svaraði engu. Enn spurði æðsti presturinn hann: "Ertu Kristur, sonur hins blessaða?"

62 Jesús sagði: "Ég er sá, og þér munuð sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma í skýjum himins."

63 Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: "Hvað þurfum vér nú framar votta við?

64 Þér heyrðuð guðlastið. Hvað líst yður?" Og þeir dæmdu hann allir sekan og dauða verðan.

65 Þá tóku sumir að hrækja á hann, þeir huldu andlit hans, slógu hann með hnefunum og sögðu við hann: "Spáðu!" Eins börðu þjónarnir hann.

66 Pétur var niðri í garðinum. Þar kom ein af þernum æðsta prestsins

67 og sá, hvar Pétur var að orna sér. Hún horfir á hann og segir: "Þú varst líka með manninum frá Nasaret, þessum Jesú."

68 Því neitaði hann og sagði: "Ekki veit ég né skil, hvað þú ert að fara." Og hann gekk út í forgarðinn, [en þá gól hani.]

69 Þar sá þernan hann og fór enn að segja við þá, sem hjá stóðu: "Þessi er einn af þeim."

70 En hann neitaði sem áður. Litlu síðar sögðu þeir, er hjá stóðu enn við Pétur: "Víst ertu einn af þeim, enda ertu Galíleumaður."

71 En hann sór og sárt við lagði: "Ég þekki ekki þennan mann, sem þér talið um."

72 Um leið gól hani annað sinn, og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt við hann: "Áður en hani galar tvisvar muntu þrisvar afneita mér." Þá fór hann að gráta.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society