Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 16

16 Samson fór til Gasa. Þar sá hann portkonu eina og gekk inn til hennar.

Þá var Gasabúum sagt svo frá: "Samson er hér kominn." En þeir umkringdu hann og gjörðu honum fyrirsát alla nóttina í borgarhliðinu, en höfðu þó hljótt um sig alla nóttina, með því að þeir hugsuðu: Þegar birtir af degi, skulum vér drepa hann.

En Samson svaf til miðrar nætur. En um miðja nótt reis hann á fætur, þreif hurðirnar á borgarhliðinu, ásamt báðum dyrastöfunum, og kippti þeim upp ásamt slagbrandinum og lagði á herðar sér og bar þær efst upp á fjallið, sem er gegnt Hebron.

Eftir þetta bar svo við, að Samson felldi ástarhug til konu einnar í Sórekdal. Hún hét Dalíla.

Höfðingjar Filista komu til hennar og sögðu við hana: "Ginn þú hann og komstu að því, í hverju hið mikla afl hans er fólgið og með hverju móti vér fáum yfirbugað hann, svo að vér getum bundið hann og þjáð hann, og munum vér gefa þér hver um sig eitt þúsund sikla silfurs og hundraði betur."

Dalíla sagði þá við Samson: "Seg mér, í hverju hið mikla afl þitt er fólgið og með hverju þú verður bundinn, svo að menn eigi alls kostar við þig."

Samson svaraði henni: "Ef menn binda mig með sjö nýjum strengjum, sem ekki eru þurrir orðnir, þá gjörist ég linur og verð eins og hver annar maður."

Þá færðu höfðingjar Filista henni sjö nýja strengi, sem ekki voru þurrir orðnir, og hún batt hann með þeim.

En mennina, er um hann sátu, hafði hún hjá sér í svefnhúsinu. Því næst sagði hún við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá sleit hann sundur strengina, eins og hörþráður slitnar sundur, er hann kennir elds, og ekki varð komist fyrir afl hans.

10 Þá sagði Dalíla við Samson: "Sjá, þú hefir blekkt mig og logið að mér! Seg mér nú, með hverju þú verður bundinn."

11 Hann svaraði henni: "Ef menn binda mig með nýjum reipum, sem ekki hafa verið höfð til neinnar vinnu, þá gjörist ég linur og verð sem hver annar maður."

12 Þá tók Dalíla ný reipi og batt hann með þeim og sagði við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" og mennirnir, er um hann sátu, voru í svefnhúsinu. En hann sleit þau af armleggjum sér sem þráður væri.

13 Og Dalíla sagði við Samson: "Enn hefir þú blekkt mig og logið að mér. Seg mér, með hverju þú verður bundinn." En hann sagði við hana: "Ef þú vefur hárlokkana sjö á höfði mér saman við uppistöðuna í vef."

14 Og hún festi þá með nagla og sagði við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá vaknaði hann af svefninum og kippti út vefjarnaglanum og uppistöðunni.

15 Þá sagði hún við hann: "Hvernig getur þú sagt: Ég elska þig! þar sem þú ert ekki einlægur við mig? Þrisvar sinnum hefir þú nú blekkt mig og ekki sagt mér, í hverju hið mikla afl þitt sé fólgið."

16 En er hún nauðaði á honum alla daga með orðum sínum og gekk á hann fastlega, þá varð hann dauðleiður á því

17 og sagði henni allt hjarta sitt og mælti til hennar: "Aldrei hefir rakhnífur komið á höfuð mitt, því að ég er Guði helgaður í frá móðurlífi. Væri nú hár mitt skorið, þá hyrfi afl mitt frá mér og ég gjörðist linur og yrði sem allir menn aðrir."

18 Þegar Dalíla sá, að hann hafði sagt henni allt hjarta sitt, þá sendi hún og lét kalla höfðingja Filista, og lét hún segja þeim: "Nú skuluð þér koma, því að hann hefir sagt mér allt hjarta sitt." Þá fóru höfðingjar Filista til hennar og höfðu silfrið með sér.

19 En hún svæfði hann á skauti sínu og kallaði á mann og lét hann skera hárlokkana sjö af höfði honum. Og hún tók að þjá hann, en afl hans var frá honum horfið.

20 Þá sagði hún: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá vaknaði hann af svefninum og hugsaði: Ég slepp í þetta sinn sem hin fyrri og slít mig lausan! En hann vissi ekki, að Drottinn var vikinn frá honum.

21 Filistar tóku hann höndum og stungu úr honum augun og fóru með hann niður til Gasa og bundu hann eirfjötrum, og varð hann að draga kvörn í dýflissunni.

22 En höfuðhár hans tók aftur að vaxa, eftir að það hafði verið skorið.

23 Nú söfnuðust höfðingjar Filista saman til þess að færa Dagón, guði sínum, fórn mikla og til þess að gjöra sér glatt, með því að þeir sögðu: "Guð vor hefir gefið Samson, óvin vorn, í vorar hendur."

24 Og er fólkið sá hann, vegsömuðu þeir guð sinn, því að þeir sögðu: "Guð vor hefir gefið óvin vorn í vorar hendur, hann sem eytt hefir land vort og drepið hefir marga menn af oss."

25 En er þeir nú gjörðust glaðir, sögðu þeir: "Látið sækja Samson, til þess að hann skemmti oss." Létu þeir nú sækja Samson úr dýflissunni, og varð hann að skemmta þeim. Og þeir höfðu sett hann milli súlnanna.

26 Þá sagði Samson við sveininn, sem leiddi hann: "Slepptu mér og leyfðu mér að þreifa á súlunum, sem húsið hvílir á, svo að ég geti stutt mig upp við þær."

27 En húsið var fullt af körlum og konum. Þar voru og allir höfðingjar Filista, og uppi á þakinu voru um þrjú þúsund karla og kvenna, sem horfðu á, er Samson skemmti.

28 Þá hrópaði Samson til Drottins og sagði: "Drottinn Guð! Minnstu mín! Styrk mig nú, Guð, í þetta eina sinn, svo að ég geti hefnt mín á Filistum fyrir bæði augun mín í einu!"

29 Því næst þreif Samson í báðar miðsúlurnar, sem húsið hvíldi á, hægri hendinni í aðra og vinstri hendinni í hina, og treysti á.

30 Þá mælti Samson: "Deyi nú sála mín með Filistum!" Síðan lagðist hann á af öllu afli, svo að húsið féll ofan á höfðingjana og allt fólkið, er í því var, og þeir dauðu, sem hann drap um leið og hann beið bana, voru fleiri en þeir, er hann hafði drepið um ævina.

31 Bræður hans fóru ofan og allt ættfólk hans, og tóku þeir hann og fóru upp þaðan með hann og jörðuðu hann millum Sorea og Estaól, í gröf Manóa föður hans. En hann hafði verið dómari í Ísrael í tuttugu ár.

Postulasagan 20

20 Þegar þessum látum linnti, sendi Páll eftir lærisveinunum, uppörvaði þá og kvaddi síðan og lagði af stað til Makedóníu.

Hann fór nú um þau héruð og uppörvaði menn með mörgum orðum. Síðan hélt hann til Grikklands.

Dvaldist hann þar þrjá mánuði. Þá bjóst hann til að sigla til Sýrlands, en þar eð Gyðingar brugguðu honum launráð, tók hann til bragðs að hverfa aftur um Makedóníu.

Í för með honum voru þeir Sópater Pýrrusson frá Beroju, Aristarkus og Sekúndus frá Þessaloníku, Gajus frá Derbe, Tímóteus og Asíumennirnir Týkíkus og Trófímus.

Þeir fóru á undan og biðu vor í Tróas.

En vér sigldum eftir daga ósýrðu brauðanna frá Filippí og komum til þeirra í Tróas á fimmta degi. Þar stóðum vér við í sjö daga.

Fyrsta dag vikunnar, er vér vorum saman komnir til að brjóta brauðið, talaði Páll til þeirra. Hann var á förum daginn eftir. Entist ræða hans allt til miðnættis.

Mörg ljós voru í loftstofunni, þar sem vér vorum saman komnir.

Ungmenni eitt, Evtýkus að nafni, sat í glugganum. Seig á hann svefnhöfgi, er Páll ræddi svo lengi, og féll hann sofandi ofan af þriðja lofti. Hann var liðinn, þegar hann var tekinn upp.

10 Páll gekk ofan, varpaði sér yfir hann, tók utan um hann og sagði: "Verið stilltir, það er líf með honum."

11 Fór hann síðan upp, braut brauðið og neytti og talaði enn lengi, allt fram í dögun. Að svo búnu hélt hann brott.

12 En þeir fóru með sveininn lifandi og hugguðust mikillega.

13 Vér fórum á undan til skips og sigldum til Assus. Þar ætluðum vér að taka Pál. Svo hafði hann fyrir lagt, því hann vildi fara landveg.

14 Þegar hann hafði hitt oss í Assus, tókum vér hann á skip og héldum til Mitýlene.

15 Þaðan sigldum vér daginn eftir og komumst til móts við Kíos. Á öðrum degi fórum vér til Samos og komum næsta dag til Míletus.

16 En Páll hafði sett sér að sigla fram hjá Efesus, svo að hann tefðist ekki í Asíu. Hann hraðaði ferð sinni, ef verða mætti, að hann kæmist til Jerúsalem á hvítasunnudag.

17 Frá Míletus sendi hann til Efesus og boðaði til sín öldunga safnaðarins.

18 Þegar þeir komu til hans, sagði hann við þá: "Þér vitið, hvernig ég hef hagað mér hjá yður alla tíð frá þeim degi, er ég kom fyrst til Asíu.

19 Ég þjónaði Drottni í allri auðmýkt, með tárum og í raunum, sem að mér hafa steðjað af launráðum Gyðinga.

20 Þér vitið, að ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum

21 og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.

22 Og nú er ég á leið til Jerúsalem, knúinn af andanum. Ekki veit ég, hvað þar mætir mér,

23 nema að heilagur andi birtir mér í hverri borg, að fjötrar og þrengingar bíði mín.

24 En mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.

25 Nú veit ég, að þér munuð ekki framar sjá mig, engir þér, sem ég hef komið til og boðað ríkið.

26 Þess vegna vitna ég fyrir yður nú í dag, að ekki er mig um að saka, þótt einhver glatist,

27 því að ég hef boðað yður allt Guðs ráð og ekkert dregið undan.

28 Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.

29 Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni.

30 Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.

31 Vakið því og verið þess minnugir, að ég áminnti stöðugt sérhvern yðar með tárum dag og nótt í þrjú ár.

32 Og nú fel ég yður Guði og orði náðar hans, sem máttugt er að uppbyggja yður og gefa yður arfleifð með öllum þeim, sem helgaðir eru.

33 Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns.

34 Sjálfir vitið þér, að þessar hendur unnu fyrir öllu því, er ég þurfti með og þeir, er með mér voru.

35 Í öllu sýndi ég yður, að með því að vinna þannig ber oss að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: ,Sælla er að gefa en þiggja."`

36 Þegar hann hafði þetta mælt, féll hann á kné og baðst fyrir ásamt þeim öllum.

37 Allir tóku að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann.

38 Mest varð þeim um þau orð hans, að þeir mundu aldrei framar sjá hann. Síðan fylgdu þeir honum til skips.

Jeremía 29

29 Þessi eru orð bréfsins, sem Jeremía spámaður sendi frá Jerúsalem til öldunga hinna herleiddu og til prestanna og til spámannanna og til alls lýðsins, sem Nebúkadnesar hafði herleitt frá Jerúsalem til Babýlon

(eftir að Jekonja konungur og konungsmóðir og hirðmennirnir, höfðingjar Júda og Jerúsalem, og trésmiðirnir og járnsmiðirnir voru farnir burt úr Jerúsalem),

með Elasa Safanssyni og Gemaría Hilkíasyni, sem Sedekía Júdakonungur sendi til Nebúkadnesars Babelkonungs til Babýlon:

"Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, öllum hinum herleiddu, þeim er ég herleiddi frá Jerúsalem til Babýlon:

Reisið hús og búið í þeim, plantið garða og etið ávöxtu þeirra.

Takið yður konur og getið sonu og dætur, og takið sonum yðar konur og giftið dætur yðar, til þess að þær megi fæða sonu og dætur og yður fjölgi þar, en fækki ekki.

Látið yður umhugað um heill borgarinnar, sem ég herleiddi yður til, og biðjið til Drottins fyrir henni, því að heill hennar er heill sjálfra yðar.

Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Látið eigi spámenn yðar, sem meðal yðar eru, né spásagnamenn yðar tæla yður, og trúið ekki á drauma yðar, sem yður dreymir.

Því að þeir spá yður ranglega í mínu nafni, ég hefi ekki sent þá! _ segir Drottinn.

10 Svo segir Drottinn: Þegar sjötíu ár eru umliðin fyrir Babýlon, mun ég vitja yðar og efna við yður fyrirheit mitt að flytja yður aftur á þennan stað.

11 Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður _ segir Drottinn _ fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.

12 Þá munuð þér ákalla mig og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður.

13 Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta,

14 vil ég láta yður finna mig _ segir Drottinn _ og snúa við högum yðar og safna yður saman frá öllum þjóðum og úr öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið yður _ segir Drottinn _ og flytja yður aftur á þann stað, þaðan sem ég herleiddi yður.

15 Þér segið: ,Drottinn hefir vakið oss upp spámenn í Babýlon.`

16 Svo segir Drottinn um konunginn, sem situr í hásæti Davíðs, og um allan lýðinn, sem býr í þessari borg, bræður yðar, sem ekki voru herleiddir með yður _

17 svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég sendi yfir þá sverð, hungur og drepsótt og gjöri þá eins og viðbjóðslegar fíkjur, sem eru svo vondar, að þær eru ekki ætar,

18 og ég elti þá með sverði, hungri og drepsótt og gjöri þá að grýlu öllum konungsríkjum jarðar, að formæling, að skelfing, að spotti og háðung meðal allra þjóða, þangað sem ég rek þá,

19 fyrir það að þeir hlýddu ekki orðum mínum _ segir Drottinn _ er ég hefi óaflátanlega sent þjóna mína, spámennina, með til þeirra, en þér heyrðuð ekki _ segir Drottinn.

20 En heyrið þér orð Drottins, allir þér hinir herleiddu, er ég hefi sent frá Jerúsalem til Babýlon.

21 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, um Ahab Kólajason og um Sedekía Maasejason, sem boða yður lygar í mínu nafni: Sjá, ég gef þá Nebúkadresar Babelkonungi á vald, og hann mun láta drepa þá fyrir augum yðar.

22 Og þeir munu verða bölbænar-formáli fyrir alla hina herleiddu úr Júda, sem eru í Babýlon, svo að menn kveði svo að orði: ,Drottinn fari með þig eins og Sedekía og Ahab, sem Babelkonungur steikti á eldi.`

23 Sök þeirra er, að þeir frömdu óhæfuverk í Ísrael og drýgðu hór með konum vina sinna og töluðu orð í mínu nafni, er ég hafði þeim eigi um boðið, já ég þekki það sjálfur og er vottur að því! _ segir Drottinn."

24 En við Semaja frá Nehalam skalt þú segja á þessa leið:

25 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Þú hefir sent bréf í þínu eigin nafni til alls lýðsins, sem er í Jerúsalem, og til Sefanía Maasejasonar prests og til allra prestanna, þess efnis:

26 "Drottinn hefir sett þig prest í stað Jójada prests, til þess að þú hafir nákvæmar gætur í musteri Drottins á öllum óðum mönnum og þeim, er spámannsæði er á, og setjir þá í stokk og hálsjárn!

27 Hví hefir þú þá ekki ávítað Jeremía frá Anatót, sem hér iðkar spádóma?

28 Þannig hefir hann gjört oss svolátandi orðsending til Babýlon: ,Það verður langvinnt! Reisið hús og búið í þeim og plantið garða og etið ávöxtu þeirra."`

29 En Sefanía prestur las þetta bréf upphátt fyrir Jeremía spámanni.

30 Þá kom orð Drottins til Jeremía, svo hljóðandi:

31 Gjör öllum hinum herleiddu svo hljóðandi orðsending: Svo segir Drottinn um Semaja frá Nehalam: Sökum þess að Semaja hefir spáð yður án þess að ég hafi sent hann og ginnt yður til þess að reiða yður á lygar,

32 fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég mun hefna þess á Semaja frá Nehalam og niðjum hans. Hann skal ekki eiga neinn niðja, sem búi meðal þessarar þjóðar, og hann skal ekki fá litið þau gæði, sem ég bý þjóð minni _ segir Drottinn _ því að hann hefir prédikað fráhvarf frá Drottni.

Markúsarguðspjall 15

15 Þegar að morgni gjörðu æðstu prestarnir samþykkt með öldungunum, fræðimönnunum og öllu ráðinu. Þeir létu binda Jesú og færa brott og framseldu hann Pílatusi.

Pílatus spurði hann: "Ert þú konungur Gyðinga?" Hann svaraði: "Þú segir það."

En æðstu prestarnir báru á hann margar sakir.

Pílatus spurði hann aftur: "Svarar þú engu? Þú heyrir, hve þungar sakir þeir bera á þig."

En Jesús svaraði engu framar, og undraðist Pílatus það.

En á hátíðinni var hann vanur að gefa þeim lausan einn bandingja, þann er þeir báðu um.

Maður að nafni Barabbas var þá í böndum ásamt upphlaupsmönnum. Höfðu þeir framið manndráp í upphlaupinu.

Nú kom mannfjöldinn og tók að biðja, að Pílatus veitti þeim hið sama og hann væri vanur.

Pílatus svaraði þeim: "Viljið þér, að ég gefi yður lausan konung Gyðinga?"

10 Hann vissi, að æðstu prestarnir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann.

11 En æðstu prestarnir æstu múginn til að heimta, að hann gæfi þeim heldur Barabbas lausan.

12 Pílatus tók enn til máls og sagði við þá: "Hvað á ég þá að gjöra við þann, sem þér kallið konung Gyðinga?"

13 En þeir æptu á móti: "Krossfestu hann!"

14 Pílatus spurði: "Hvað illt hefur hann þá gjört?" En þeir æptu því meir: "Krossfestu hann!"

15 En með því að Pílatus vildi gjöra fólkinu til hæfis, gaf hann þeim Barabbas lausan. Hann lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.

16 Hermennirnir fóru með hann inn í höllina, aðsetur landshöfðingjans, og kölluðu saman alla hersveitina.

17 Þeir færa hann í purpuraskikkju, flétta þyrnikórónu og setja á höfuð honum.

18 Þá tóku þeir að heilsa honum: "Heill þú, konungur Gyðinga!"

19 Og þeir slógu höfuð hans með reyrsprota og hræktu á hann, féllu á kné og hylltu hann.

20 Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr purpuraskikkjunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.

21 En maður nokkur átti leið þar hjá og var að koma utan úr sveit. Hann neyða þeir til að bera kross Jesú. Það var Símon frá Kýrene, faðir þeirra Alexanders og Rúfusar.

22 Þeir fara með hann til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir "hauskúpustaður."

23 Þeir báru honum vín, blandað myrru, en hann þáði ekki.

24 Þá krossfestu þeir hann. Og þeir skiptu með sér klæðum hans og köstuðu hlutum um, hvað hver skyldi fá.

25 En það var um dagmál, er þeir krossfestu hann.

26 Og yfirskriftin um sakargift hans var svo skráð: KONUNGUR GYÐINGA.

27 Með honum krossfestu þeir tvo ræningja, annan til hægri handar honum, en hinn til vinstri. [

28 Þá rættist sú ritning, er segir: Með illvirkjum var hann talinn.]

29 Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín og sögðu: "Svei, þú, sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum!

30 Bjarga nú sjálfum þér, og stíg niður af krossinum."

31 Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og sögðu hver við annan: "Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað.

32 Stígi nú Kristur, konungur Ísraels, niður af krossinum, svo að vér getum séð og trúað." Einnig smánuðu hann þeir, sem með honum voru krossfestir.

33 Á hádegi varð myrkur um allt land til nóns.

34 Og á nóni kallaði Jesús hárri röddu: "Elóí, Elóí, lama sabaktaní!" Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?

35 Nokkrir þeirra, er hjá stóðu, heyrðu þetta og sögðu: "Heyrið, hann kallar á Elía!"

36 Hljóp þá einn til, fyllti njarðarvött ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka. Hann mælti: "Látum sjá, hvort Elía kemur að taka hann ofan."

37 En Jesús kallaði hárri röddu og gaf upp andann.

38 Og fortjald musterisins rifnaði í tvennt, ofan frá allt niður úr.

39 Þegar hundraðshöfðinginn, sem stóð gegnt honum, sá hann gefa upp andann á þennan hátt, sagði hann: "Sannarlega var þessi maður sonur Guðs."

40 Þar voru og konur álengdar og horfðu á, meðal þeirra María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs yngra og Jóse, og Salóme.

41 Þær höfðu fylgt honum og þjónað, er hann var í Galíleu. Þar voru margar aðrar konur, sem höfðu farið með honum upp til Jerúsalem.

42 Nú var komið kvöld. Þá var aðfangadagur, það er dagurinn fyrir hvíldardag.

43 Þá kom Jósef frá Arímaþeu, göfugur ráðsherra, er sjálfur vænti Guðs ríkis. Hann dirfðist að fara inn til Pílatusar og biðja um líkama Jesú.

44 Pílatus furðaði á, að hann skyldi þegar vera andaður. Hann kallaði til sín hundraðshöfðingjann og spurði, hvort hann væri þegar látinn.

45 Og er hann varð þess vís hjá hundraðshöfðingjanum, gaf hann Jósef líkið.

46 En hann keypti línklæði, tók hann ofan, sveipaði hann línklæðinu og lagði í gröf, höggna í klett, og velti steini fyrir grafarmunnann.

47 María Magdalena og María móðir Jóse sáu, hvar hann var lagður.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society