M’Cheyne Bible Reading Plan
15 Samúel sagði við Sál: "Drottinn sendi mig til þess að smyrja þig til konungs yfir lýð sinn Ísrael. Hlýð því boði Drottins.
2 Svo segir Drottinn allsherjar: Ég vil hefna þess, er Amalek gjörði Ísrael, að hann gjörði honum farartálma, þá er hann fór af Egyptalandi.
3 Far því og vinn sigur á Amalek og helgaðu hann banni og allt, sem hann á. Og þú skalt ekki þyrma honum, heldur skalt þú deyða bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna."
4 Sál bauð þá út liði og kannaði það í Telam: tvö hundruð þúsundir fótgönguliðs og tíu þúsundir Júdamanna.
5 Og Sál kom til höfuðborgar Amaleks og setti launsát í dalinn.
6 Og Sál sagði við Keníta: "Komið, víkið undan, farið burt frá Amalekítum, svo að ég tortími yður ekki með þeim, því að þér sýnduð öllum Ísraelsmönnum góðvild, þá er þeir fóru af Egyptalandi." Þá viku Kenítar burt frá Amalek.
7 Sál vann sigur á Amalek frá Havíla suður undir Súr, sem liggur fyrir austan Egyptaland.
8 Og Agag, konung Amaleks, tók hann höndum lifandi, en fólkið allt bannfærði hann með sverðseggjum.
9 Þó þyrmdi Sál og fólkið Agag og bestu sauðunum og nautunum, öldu og feitu skepnunum, og öllu því, sem vænt var, og vildu ekki bannfæra það. En allt það af fénaðinum, sem var lélegt og rýrt, bannfærðu þeir.
10 Þá kom orð Drottins til Samúels svohljóðandi:
11 "Mig iðrar þess, að ég gjörði Sál að konungi, því að hann hefir snúið baki við mér og eigi framkvæmt boð mín." Þá reiddist Samúel og hrópaði til Drottins alla nóttina.
12 Og Samúel lagði snemma af stað næsta morgun til þess að hitta Sál. Og Samúel var sagt svo frá: "Sál er kominn til Karmel, og sjá, hann hefir reist sér minnismerki. Því næst sneri hann við og hélt áfram og er farinn ofan til Gilgal."
13 Þegar Samúel kom til Sáls, mælti Sál til hans: "Blessaður sért þú af Drottni, ég hefi framkvæmt boð Drottins."
14 En Samúel mælti: "Hvaða sauðajarmur er það þá, sem ómar í eyru mér, og hvaða nautaöskur er það, sem ég heyri?"
15 Sál svaraði: "Þeir komu með það frá Amalekítum, af því að fólkið þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að fórna þeim Drottni Guði sínum, en hitt höfum vér bannfært."
16 Samúel sagði við Sál: "Hættu nú, og mun ég kunngjöra þér það, sem Drottinn hefir talað við mig í nótt." Sál sagði við hann: "Tala þú!"
17 Samúel mælti: "Er ekki svo, að þótt þú sért lítill í þínum augum, þá ert þú þó höfuð Ísraels ættkvísla, því að Drottinn smurði þig til konungs yfir Ísrael?
18 Og Drottinn sendi þig í leiðangur og sagði: ,Far þú og bannfær syndarana, Amalekíta, og berst við þá, uns þú hefir gjöreytt þeim.`
19 Hvers vegna hefir þú þá ekki hlýtt boði Drottins, heldur fleygt þér yfir herfangið og gjört það, sem illt var í augum Drottins?"
20 Þá mælti Sál við Samúel: "Ég hefi hlýtt boði Drottins og hefi farið í leiðangur þann, er Drottinn sendi mig í, og hefi komið hingað með Agag, Amaleks konung, og Amalek hefi ég banni helgað.
21 En fólkið tók sauði og naut af herfanginu, hið besta af því bannfærða, til þess að fórna því í Gilgal Drottni Guði þínum til handa."
22 Samúel mælti: "Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.
23 Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir hann og hafnað þér og svipt þig konungdómi."
24 Sál mælti við Samúel: "Ég hefi syndgað, þar eð ég hefi brotið boð Drottins og þín fyrirmæli, en ég óttaðist fólkið og lét því að orðum þess.
25 Fyrirgef mér nú synd mína og snú þú við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni."
26 Samúel svaraði Sál: "Ég sný ekki við með þér. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir og Drottinn hafnað þér og svipt þig konungdómi yfir Ísrael."
27 Samúel sneri sér nú við og ætlaði að ganga burt. Þá greip Sál í lafið á skikkju hans, og rifnaði það af.
28 Þá mælti Samúel til hans: "Rifið hefir Drottinn frá þér í dag konungdóminn yfir Ísrael og gefið hann öðrum, sem er betri en þú.
29 Ekki lýgur heldur vegsemd Ísraels, og ekki iðrar hann, því að hann er ekki maður, að hann iðri."
30 Sál mælti: "Ég hefi syndgað, en sýn mér þó þá virðingu frammi fyrir öldungum þjóðar minnar og frammi fyrir Ísrael að snúa við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni Guði þínum."
31 Þá sneri Samúel við og fór með Sál, og Sál féll fram fyrir Drottni.
32 Og Samúel mælti: "Færið mér Agag, Amaleks konung." Og Agag gekk til hans kátur. Og Agag mælti: "Sannlega er nú beiskja dauðans á brott vikin."
33 Þá mælti Samúel: "Eins og sverð þitt hefir gjört konur barnlausar, svo skal nú móðir þín vera barnlaus öðrum konum framar." Síðan hjó Samúel Agag banahögg frammi fyrir Drottni í Gilgal.
34 Því næst fór Samúel til Rama, en Sál fór heim til sín í Gíbeu Sáls.
35 Og Samúel sá ekki Sál upp frá því allt til dauðadags, því að Samúel var sorgmæddur út af Sál, og Drottin iðraði þess, að hann hafði gjört Sál konung yfir Ísrael.
13 Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði.
2 Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn.
3 Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdsmennina, heldur sá sem vinnur vond verk. En viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöldin, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim.
4 Því að þau eru þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa.
5 Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar.
6 Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta.
7 Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber.
8 Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið.
9 Boðorðin: "Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast," og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."
10 Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins.
11 Gjörið þetta því heldur sem þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær en þá er vér tókum trú.
12 Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins.
13 Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju, ekki í saurlífi né svalli, ekki í þrætu né öfund.
14 Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi, og alið ekki önn fyrir holdinu, svo að það verði til að æsa girndir.
52 Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna.
2 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Jójakím.
3 Vegna reiði Drottins fór svo fyrir Jerúsalem og Júda, að hann varpaði þeim burt frá augliti sínu. Sedekía brá trúnaði við Babelkonung,
4 og á níunda ríkisári hans, á tíunda degi hins tíunda mánaðar, kom Nebúkadresar Babelkonungur með allan her sinn til Jerúsalem, og þeir settust um hana og reistu hervirki hringinn í kringum hana.
5 Varð borgin þannig í umsátri fram á ellefta ríkisár Sedekía konungs.
6 Í fjórða mánuðinum, á níunda degi mánaðarins, er hungrið tók að sverfa að borginni og landslýður var orðinn vistalaus,
7 þá var brotið skarð inn í borgina. Og konungur og allir hermennirnir flýðu og fóru út úr borginni um nóttina gegnum hliðið milli beggja múranna, sem er hjá konungsgarðinum, þótt Kaldear umkringdu borgina, og héldu leiðina til sléttlendisins.
8 Her Kaldea veitti konungi eftirför og náði Sedekía á Jeríkóvöllum, er allur her hans hafði tvístrast burt frá honum.
9 Tóku þeir konung höndum og fluttu hann til Ribla í Hamat-héraði til Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans.
10 Lét Babelkonungur drepa sonu Sedekía fyrir augum hans. Sömuleiðis lét hann drepa alla höfðingja Júda í Ribla.
11 En Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum. Síðan lét Babelkonungur flytja hann til Babýlon og setja í fangelsi, og var hann þar til dauðadags.
12 En í fimmta mánuði, á tíunda degi mánaðarins _ það er á nítjánda ríkisári Nebúkadresars Babelkonungs _ kom Nebúsaradan lífvarðarforingi, vildarþjónn Babelkonungs, til Jerúsalem
13 og brenndi musteri Drottins og konungshöllina og öll hús í Jerúsalem, og öll hús stórmennanna brenndi hann í eldi.
14 En allur Kaldeaher, sá er var með lífvarðarforingjanum, reif niður alla múrana umhverfis Jerúsalem.
15 En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með Babelkonungi, og þá sem eftir voru af iðnaðarmönnum, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon.
16 En af almúga landsins lét Nebúsaradan lífvarðarforingi nokkra verða eftir sem víngarðsmenn og akurkarla.
17 Eirsúlurnar, er voru við musteri Drottins, og undirstöðupallana og eirhafið, er voru í musteri Drottins, brutu Kaldear sundur og fluttu allan eirinn til Babýlon.
18 Og katlana, eldspaðana, skarbítana, ádreifingarskálarnar, bollana og öll eiráhöldin, er notuð voru við guðsþjónustuna, tóku þeir.
19 Þá tók og lífvarðarforinginn katlana, eldpönnurnar, ádreifingarskálarnar, pottana, ljósastikurnar, bollana, kerin _ allt sem var af gulli og silfri.
20 Súlurnar tvær, hafið og undirstöðupallana, er Salómon konungur hafði gjöra látið í musteri Drottins _ eirinn úr öllum þessum áhöldum varð eigi veginn.
21 En hvað súlurnar snertir, þá var önnur súlan átján álnir á hæð, og tólf álna langan þráð þurfti til að ná utan um hana, en hún var fjögra fingra þykk, hol að innan.
22 En ofan á henni var súlnahöfuð af eiri og var það fimm álnir á hæð. Riðið net og granatepli voru umhverfis höfuðið, allt af eiri, og eins var á hinni súlunni.
23 En granateplin voru níutíu og sex, þau er út sneru. Öll granateplin voru hundrað á riðna netinu allt um kring.
24 Og lífvarðarforinginn tók Seraja höfuðprest og Sefanía annan prest og þröskuldsverðina þrjá.
25 Og úr borginni tók hann hirðmann einn, er skipaður var yfir hermennina, og sjö menn af þeim, er daglega litu auglit konungs, er fundust í borginni, og ritara hershöfðingjans, þess er bauð út landslýðnum, og sextíu manns af sveitafólki, því er fannst í borginni.
26 Þessa menn tók Nebúsaradan lífvarðarforingi og flutti þá til Ribla til Babelkonungs.
27 En Babelkonungur lét drepa þá í Ribla í Hamat-héraði. Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu.
28 Þetta var mannfólkið, sem Nebúkadresar herleiddi: Sjöunda árið 3023 Júdabúa,
29 átjánda ríkisár Nebúkadresars 832 sálir úr Jerúsalem.
30 Tuttugasta og þriðja ríkisár Nebúkadresars herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi 745 sálir af Júdabúum. Alls voru það 4600 sálir.
31 Og á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, í tólfta mánuðinum, tuttugasta og fimmta dag mánaðarins, náðaði Evíl-Meródak Babelkonungur _ árið sem hann kom til ríkis _ Jójakín Júdakonung og tók hann út úr dýflissunni.
32 Og hann talaði vingjarnlega við hann og setti stól hans ofar stólum hinna konunganna, sem hjá honum voru í Babýlon.
33 Og hann fór úr bandingjafötum sínum og borðaði stöðuglega með honum, meðan hann lifði.
31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,
3 hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.
4 Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.
5 Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.
6 Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!
7 Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég.
8 Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni
9 og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi.
10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami.
11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast.
12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.
13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.
14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi.
15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"
16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.
17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.
19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.
20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.
21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.
22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.
23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.
24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.
25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.
by Icelandic Bible Society