M’Cheyne Bible Reading Plan
2 Naomí átti þar frænda manns síns, ríkan mann af ætt Elímeleks, og hét hann Bóas.
2 Og Rut hin móabítíska sagði við Naomí: "Ég ætla að fara út á akurinn og tína upp öx á eftir einhverjum þeim, er kann að sýna mér velvild." Naomí svaraði henni: "Far, þú, dóttir mín!"
3 Rut fór og tíndi á akrinum á eftir kornskurðarmönnunum, og henni vildi svo vel til, að teig þennan átti Bóas, sem var í ætt við Elímelek.
4 Og sjá, Bóas kom frá Betlehem og sagði við kornskurðarmennina: "Drottinn sé með yður!" Þeir svöruðu: "Drottinn blessi þig!"
5 Bóas mælti við þjón sinn, sem settur var yfir kornskurðarmennina: "Hverjum heyrir þessi stúlka til?"
6 Þjónninn, sem settur var yfir kornskurðarmennina, svaraði og sagði: "Það er móabítísk stúlka, sú sem kom aftur með Naomí frá Móabslandi.
7 Hún sagði: ,Leyf mér að tína upp og safna saman meðal bundinanna á eftir kornskurðarmönnunum.` Og hún kom og hefir verið að frá því í morgun og þangað til nú og hefir ekki gefið sér neinn tíma til að hvíla sig."
8 Þá sagði Bóas við Rut: "Heyr þú, dóttir mín! Far þú ekki á annan akur til þess að tína, og far þú heldur ekki héðan, en haltu þig hér hjá stúlkum mínum.
9 Gef þú gætur að þeim akri, þar sem kornskurðarmennirnir skera upp, og gakk þú á eftir þeim. Ég hefi boðið piltunum að amast ekki við þér. Og ef þig þyrstir, þá gakk að ílátunum og drekk af því, sem piltarnir ausa."
10 Þá féll hún fram á ásjónu sína og laut niður að jörðu og sagði við hann: "Hvers vegna sýnir þú mér þá velvild að víkja mér góðu, þar sem ég þó er útlendingur?"
11 Bóas svaraði og sagði við hana: "Mér hefir verið sagt allt af því, hvernig þér hefir farist við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, og að þú hefir yfirgefið föður þinn og móður og ættland þitt og farið til fólks, sem þú þekktir ekki áður.
12 Drottinn umbuni verk þitt, og laun þín verði fullkomin, er þú hlýtur af Drottni, Ísraels Guði, þar sem þú ert komin að leita skjóls undir vængjum hans."
13 Rut sagði: "Ó, að ég mætti finna náð í augum þínum, herra minn, því að þú hefir huggað mig og talað vinsamlega við ambátt þína, og er ég þó ekki einu sinni jafningi ambátta þinna."
14 Er matmálstími kom, sagði Bóas við hana: "Kom þú hingað og et af brauðinu og dýf bita þínum í vínediksblönduna." Þá settist hún hjá kornskurðarmönnunum, og hann rétti henni bakað korn, og hún át sig sadda og leifði.
15 Síðan stóð hún upp og fór að tína. Þá lagði Bóas svo fyrir pilta sína: "Hún má einnig tína millum bundinanna, og gjörið henni ekkert mein
16 og dragið jafnvel öx út úr hnippunum handa henni og látið eftir liggja, svo að hún megi tína, og eigi skuluð þér atyrða hana."
17 Síðan tíndi hún á akrinum allt til kvelds. Og er hún barði kornið úr því, er hún hafði tínt, þá var það hér um bil efa af byggi.
18 Hún tók það og fór inn í borgina, og sá tengdamóðir hennar, hvað hún hafði tínt. Því næst tók hún fram það, er hún hafði leift, þá er hún var södd orðin, og fékk henni.
19 Þá sagði tengdamóðir hennar við hana: "Hvar hefir þú tínt í dag og hvar hefir þú unnið? Blessaður sé sá, sem vikið hefir þér góðu!" Hún sagði tengdamóður sinni frá, hjá hverjum hún hefði unnið, og mælti: "Maðurinn, sem ég hefi unnið hjá í dag, heitir Bóas."
20 Þá sagði Naomí við tengdadóttur sína: "Blessaður sé hann af Drottni, sem hefir ekki látið af miskunn sinni við lifandi og látna." Og Naomí sagði við hana: "Maðurinn er okkur nákominn; hann er einn af lausnarmönnum okkar."
21 Þá sagði Rut hin móabítíska: "Hann sagði og við mig: ,Haltu þig hjá mínum piltum, uns þeir hafa lokið öllum kornskurði hjá mér."`
22 Og Naomí sagði við Rut, tengdadóttur sína: "Það er gott, dóttir mín, að þú farir út með ambáttum hans. Þá munu menn eigi áreita þig á öðrum akri."
23 Síðan hélt hún sig hjá stúlkum Bóasar, þá er hún var að tína, uns byggskurðinum og hveitiskurðinum var lokið. Eftir það var hún kyrr hjá tengdamóður sinni.
27 Þegar ákveðið var, að vér skyldum sigla til Ítalíu, voru Páll og nokkrir bandingjar aðrir seldir í hendur hundraðshöfðingja, er Júlíus hét, úr hersveit keisarans.
2 Vér stigum á skip frá Adramýttíum, sem átti að sigla til hafna í Asíu, og létum í haf. Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku, var oss samferða.
3 Á öðrum degi lentum vér í Sídon. Júlíus sýndi Páli þá mannúð að leyfa honum að fara á fund vina sinna og þiggja umönnun þeirra.
4 Þaðan létum vér í haf og sigldum undir Kýpur, því að vindar voru andstæðir.
5 Þá sigldum vér yfir hafið undan Kilikíu og Pamfýlíu og komum til Mýru í Lýkíu.
6 Þar fann hundraðshöfðinginn skip frá Alexandríu, er sigla átti til Ítalíu, og kom oss á það.
7 Siglingin gekk tregt allmarga daga. Komumst vér með herkjum móts við Knídus, en þar bægði vindur oss. Þá sigldum vér undir Krít við Salmóne.
8 Vér beittum þar hjá með naumindum og komumst á stað einn, sem kallast Góðhafnir, í grennd við borgina Laseu.
9 Enn leið drjúgur tími, og sjóferðir voru orðnar hættulegar, enda komið fram yfir föstu. Páll vildi því vara þá við
10 og sagði við þá: "Það sé ég, góðir menn, að sjóferðin muni kosta hrakninga og mikið tjón, ekki einungis á farmi og skipi, heldur og á lífi voru."
11 En hundraðshöfðinginn treysti betur skipstjóra og skipseiganda en því, er Páll sagði.
12 Höfnin var óhentug til vetrarlegu. Því var það flestra ráð að halda þaðan, ef þeir mættu ná Fönix og hafa þar vetrarlegu. Sú höfn er á Krít og veit til útsuðurs og útnorðurs.
13 Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi.
14 En áður en langt leið, skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur.
15 Skipið hrakti, og varð ekki beitt upp í vindinn. Slógum vér undan og létum reka.
16 Vér hleyptum undir litla ey, sem nefnist Káda. Þar gátum vér með naumindum bjargað skipsbátnum.
17 Þeir náðu honum upp og gripu til þeirra ráða, sem helst máttu til bjargar verða, og reyrðu skipið köðlum. Þeir óttuðust, að þá mundi bera inn í Syrtuflóa; því felldu þeir segl og létu reka.
18 Daginn eftir hrakti oss mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið.
19 Og á þriðja degi vörpuðu þeir út með eigin höndum búnaði skipsins.
20 Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna, og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um það, að vér kæmumst af.
21 Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: "Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni.
22 En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast.
23 Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti:
24 ,Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa.`
25 Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.
26 Oss mun bera upp á einhverja eyju."
27 Á miðnætti, þegar vér höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir, að land væri í nánd.
28 Þeir vörpuðu grunnsökku, og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar, og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar.
29 Þeir óttuðust, að oss kynni að bera upp í kletta, og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest, að dagur rynni.
30 En hásetarnir reyndu að strjúka úr skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni.
31 Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: "Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu, getið þér ekki bjargast."
32 Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara.
33 Undir dögun hvatti Páll alla að neyta matar og sagði: "Þér hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og engu nærst.
34 Það er nú mitt ráð, að þér fáið yður mat. Þess þurfið þér, ef þér ætlið að bjargast. En enginn yðar mun einu hári týna af höfði sér."
35 Að svo mæltu tók hann brauð, gjörði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta.
36 Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.
37 Alls vorum vér á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns.
38 Þá er þeir höfðu etið sig metta, léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn.
39 Þegar dagur rann, kenndu þeir ekki landið, en greindu vík eina með sandfjöru. Varð það ráð þeirra að reyna að hleypa þar upp skipinu.
40 Þeir losuðu akkerin og létu þau eftir í sjónum, leystu um leið stýrisböndin, undu upp framseglið og létu berast undan vindi til strandar.
41 Þeir lentu á rifi, skipið strandaði, stefnið festist og hrærðist hvergi, en skuturinn tók að liðast sundur í hafrótinu.
42 Hermennirnir ætluðu að drepa bandingjana, svo að enginn þeirra kæmist undan á sundi.
43 En hundraðshöfðinginn vildi forða Páli og kom í veg fyrir ráðagjörð þeirra. Bauð hann, að þeir, sem syndir væru, skyldu fyrstir varpa sér út og leita til lands,
44 en hinir síðan ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilir til lands.
37 Sedekía Jósíason varð konungur í stað Konja Jójakímssonar, er Nebúkadresar Babelkonungur hafði gjört að konungi í Júda.
2 En hvorki hann, né þjónar hans, né landslýðurinn hlýddi orðum Drottins, þeim er hann talaði fyrir munn Jeremía spámanns.
3 Og Sedekía konungur sendi Júkal Selemjason og Sefanía prest Maasejason til Jeremía spámanns með svolátandi orðsending: "Bið þú fyrir oss til Drottins, Guðs vors!"
4 En Jeremía gekk þá út og inn meðal lýðsins og þeir höfðu enn ekki sett hann í dýflissuna.
5 Her Faraós var og lagður af stað frá Egyptalandi, og er Kaldear, sem sátu um Jerúsalem, spurðu það, héldu þeir burt frá Jerúsalem.
6 Þá kom orð Drottins til Jeremía spámanns:
7 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við Júdakonung, sem sendi yður til mín, til þess að spyrja mig: Her Faraós, sem lagður er af stað yður til hjálpar, mun snúa aftur til síns lands, til Egyptalands,
8 og Kaldear munu og aftur snúa og herja á þessa borg, vinna hana og brenna hana í eldi.
9 Svo segir Drottinn: Svíkið ekki sjálfa yður með því að segja: "Kaldear munu vissulega fara burt frá oss!" því að þeir fara ekki burt.
10 Því að þótt þér fellduð allan her Kaldea, er á yður herjar, og ekki væru aðrir orðnir eftir af þeim en sverði lagðir menn, þá mundu þeir rísa upp, hver og einn í sínu tjaldi, og brenna þessa borg í eldi!
11 En er her Kaldea fór burt frá Jerúsalem undan her Faraós,
12 þá fór Jeremía frá Jerúsalem og hélt til Benjamínslands, til þess að taka þar á móti erfðahlut, mitt á meðal lýðsins.
13 En er hann kom í Benjamínshlið, þá var þar fyrir varðmaður, að nafni Jería Selemjason, Hananíasonar. Hann þreif í Jeremía spámann og sagði: "Þú ætlar að hlaupast burt til Kaldea!"
14 En Jeremía sagði: "Það er lygi! Ég ætla ekki að hlaupast burt til Kaldea!" En Jería hlustaði ekki á Jeremía og tók hann höndum og fór með hann til höfðingjanna.
15 Og höfðingjarnir reiddust Jeremía og börðu hann og settu hann í fangelsi í húsi Jónatans kanslara, því að það höfðu þeir gjört að dýflissu.
16 Þannig komst Jeremía í prísundina og í hvelfinguna, og þar sat Jeremía alllangan tíma.
17 En Sedekía konungur sendi og lét sækja hann, og konungur spurði hann á laun í höll sinni og mælti: "Hefir nokkurt orð komið frá Drottni?" "Svo er víst!" mælti Jeremía. "Þú munt seldur verða á vald Babelkonungs!"
18 Því næst sagði Jeremía við Sedekía konung: "Hvað hefi ég brotið gegn þér og gegn þjónum þínum og gegn þessum lýð, að þér hafið sett mig í dýflissu?
19 Og hvar eru nú spámenn yðar, þeir er spáðu yður og sögðu: ,Eigi mun Babelkonungur fara í móti yður og í móti þessu landi`?
20 Og heyr nú, minn herra konungur! Virst að heyra auðmjúka bæn mína! Lát eigi flytja mig aftur í hús Jónatans kanslara, svo að ég deyi þar ekki!"
21 Síðan var Jeremía settur í varðhald í varðgarðinum að boði Sedekía konungs og honum gefinn brauðhleifur á degi hverjum úr bakarastrætinu, uns allt brauð var uppgengið í borginni. Og þannig sat Jeremía í varðgarðinum.
10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?
2 Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.
3 Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.
4 Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.
5 Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.
6 Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."
7 Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.
8 Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.
9 Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.
10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.
11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."
12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.
13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?
14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.
15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.
16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.
17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.
18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.
by Icelandic Bible Society